Framkvæmdir tengdar Reykjanesbraut

Þriðjudaginn 16. janúar 2001, kl. 14:41:31 (3623)

2001-01-16 14:41:31# 126. lþ. 58.5 fundur 373. mál: #A framkvæmdir tengdar Reykjanesbraut# fsp. (til munnl.) frá samgrh., SJS
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 126. lþ.

[14:41]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Okkur fyrirspyrjendum hefur þótt ástæða til að fá fram skýrar upplýsingar um hvar einstakir fyrirhugaðir verkáfangar varðandi tvöföldun Reykjanesbrautar eru á vegi staddir. Það hefur verið ruglandi í þessari umræðu og það er ekki síst nauðsynlegt fyrir hv. þm. Kristján Pálsson og flokksbræður hans að upplýsa þetta. Eins og kunnugt er hafa þessir stjórnarþingmenn verið í ritdeilum og orðaskaki í fjölmiðlum þar sem mjög hefur farið tvennum sögum af því á hvaða stigi þessi mál væru. Nú hafa svör hæstv. samgrh. skýrt það þar sem hann hefur útlistað hvaða verkáfangar eru á hvaða stigi fyrir sig, hvenær þeir verða boðnir út og hvenær þess megi vænta að þeim ljúki. Það er til bóta fyrir alla aðila að þetta liggi skýrt fyrir. Sá er tilgangur okkar með þessari fyrirspurn að fá fram staðreyndir málsins þannig að ekkert þurfi að deila um þær, en það hefur verið gert.

Að öðru leyti er það auðvitað svo að umferðaröryggið snýst um fleira en það eitt að bæta vegi og tvöfalda þá þó að það sé nauðsynlegt. Þar geta aðrar aðgerðir komið að gagni og þess vegna er einnig um það spurt eins og vegrið, aðgerðir til þess að ná niður hraða o.s.frv.