Neytendavernd og innflutningur á írskum nautalundum

Þriðjudaginn 16. janúar 2001, kl. 14:56:14 (3631)

2001-01-16 14:56:14# 126. lþ. 59.94 fundur 252#B neytendavernd og innflutningur á írskum nautalundum# (umræður utan dagskrár), Flm. ÞBack (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 126. lþ.

[14:56]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Hjá iðnvæddum þjóðum hafa flestar breytingar í landbúnaði á síðustu áratugum byggst á tækniþróun og notkun vísinda í þágu landbúnaðarins. Meginmarkmiðið hefur verið að ná auknum afköstum og árangurinn raunar mældur í framleiðniaukningu og fækkun starfa í landbúnaði. Þessi þróun hefur ekki farið fram hjá okkur og stefnir í æ meiri verksmiðjubúskap, þ.e. færri og stærri bú eins og orðið hefur í nágrannalöndum okkar.

Slík þróun, studd hörðum kröfum um lægra matvælaverð, hefur neytt bændur víða um lönd til ódýrari framleiðsluaðferða. Dæmi um afleiðingar þessa eru kúariða, sem fyrst varð vart í Bretlandi fyrir 15 árum, díoxínmengun í belgískum matvælum og notkun skolps við búvöruframleiðslu í Frakklandi.

Hér á landi hafa áherslur Neytendasamtakanna og margra annarra sem hafa talið sig vera talsmenn neytenda á Íslandi fyrst og fremst verið á lágt matvælaverð og undir þeim formerkjum er sett fram krafa um innflutning á ódýrum landbúnaðarvörum. Aftur á móti hefur minna farið fyrir kröfum um neytendavernd og hollustu matvælanna, svo sem áhersla á lífrænt ræktaðar vörur eða hreinleika. En það er ætíð samhengi á milli verðs og gæða búvöru eins og gildir um aðrar vörur. Óraunhæfar kröfur um lágt búvöruverð hljóta að koma niður á heilsu dýranna, framleiðsluháttum í landbúnaði og gæðum vörunnar.

Þetta erum við nú að finna á eigin skinni og vöknuðum upp við vondan draum þegar farin var sú leið að flytja í stórum stíl inn í landið ódýrari kjötvörur m.a. frá löndum þar sem kúariða og aðrir sjúkdómar í búfé hafa valdið miklum búsifjum.

Hvað varðar innflutning á ferskum kjötvörum er sú staðreynd hið alvarlegasta mál að ekki hefur verið farið eftir gildandi lögum og reglugerðum um innflutning á kjötvörum. Staðfest hefur verið að viðhlítandi vottorð var ekki til staðar þegar innflutningur á yfir 6 tonnum af írskum nautalundum var leyfður skömmu fyrir síðustu jól. Neytendur, bændur, landlæknir, Hollustuvernd ríkisins, heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna og dýralæknar hafa því búið við falskt öryggi þar sem treyst hefur verið á strangt eftirlit með innfluttum kjötvörum eins og hæstv. landbrh. hefur lýst að sé hér á landi.

Herra forseti. Því er rétt að það komi fram hvort það hafi verið undantekning að ekki var farið eftir gildandi reglum varðandi þennan innflutning eða hvort þetta hafi verið viðtekin vinnubrögð frá því að auglýsingin var birt.

Innflutningur á búvörum á þessu ári hefur vaxið og var innflutningur á nautalundum á síðasta ári a.m.k. 27 tonn. Unnið kjöt af alifuglum var fyrstu tíu mánuði sl. árs komin upp í 43 tonn. En þessi mikli innflutningur kemur ekki til af því að kjöt vanti á markaðinn. Íslenskir nautgripabændur geta ekki losnað við kálfa og ungviði til slátrunar, markaðurinn er yfirfullur.

En það er fleira en innflutningur á ferskum kjötvörum sem þarf vandlega að skoða og endurmeta í kjölfar þeirra sjúkdóma og mengunar sem er í erlendum landbúnaði. Margt er enn óljóst um ferli og smitleiðir kúariðu. Þar til nægileg þekking er til staðar er rétt að sýna ýtrustu gát. Þetta á því við um innflutning á fósturvísum úr norskum kúm sem nú er í undirbúningi og vísa ég í því sambandi til þáltill. sem liggur fyrir þinginu um frestun á tilrauninni.

Þetta á einnig við um unnar kjötvörur til manneldis, mjólkurduft og gæludýrafóður. Við búum enn að þeim varúðarreglum sem fyrrv. yfirdýralæknir, Páll Agnar Pálsson, setti um smitvarnir. En í dag er ástandið þannig að við verðum að leggja enn ríkari áherslu á neytendavernd og verndun hreinleika íslenska dýrastofnsins. Undan því verður ekki komist. Neytendavernd verður að vera ofar hagsmunum matvælainnflytjenda og óraunhæfum kröfum um verðlag á íslenskum landbúnaðarvörum. Því beini ég nokkrum spurningum til hæstv. landbrh.:

1. Hvaða forsendur voru fyrir því að leyfa innflutning á nær 6,5 tonnum af frosnum nautalundum frá Írlandi þegar ljóst er að Írar hafa enn ekki náð tökum á útbreiðslu kúariðu og standa nú í miklum aðgerðum og stórfelldri slátrun vegna smithættu?

2. Hver ber ábyrgð á því að embætti yfirdýralæknis fór ekki eftir auglýsingu nr. 324/1999, varðandi innflutning á írskum nautalundum?

3. Er ástandið á Írlandi ekki næg ástæða til að beita ákvæðum fyrrgreindrar auglýsingar um að kúariða megi ekki hafa greinst í viðkomandi landi í sex mánuði fyrir útflutning og túlkar ráðuneytisstjóri landbrn. skoðun landbrh. þegar hann fullyrðir að reglur sem landbrn. sjálft hefur sett sér um innflutning á kjötvörum stangist á við gildandi lög um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim og alþjóðaskuldbindingar sem Ísland hefur undirgengist?

4. Hvað er því til fyrirstöðu að setja reglur sem banna alfarið innflutning á fersku kjöti frá þeim löndum sem kúariða greinist eins og þegar hefur verið gert í nokkra vetur?