Neytendavernd og innflutningur á írskum nautalundum

Þriðjudaginn 16. janúar 2001, kl. 15:01:51 (3632)

2001-01-16 15:01:51# 126. lþ. 59.94 fundur 252#B neytendavernd og innflutningur á írskum nautalundum# (umræður utan dagskrár), landbrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 126. lþ.

[15:01]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi umræðunnar þakka hv. þm. fyrir að taka þetta mál til umræðu á Alþingi því ég held að mjög mikilvægt sé að þingið fylgist með þessum málum. Það hefur sett löggjöfina og ber því mikla ábyrgð.

Ég vil nota þetta tækifæri og fagna því í rauninni að Íslendingar hafa vaknað til meðvitundar um það að þeir eiga mjög sérstæðan landbúnað sem býr við margfalt betri aðstæður en í flestum öðrum löndum og það er auðvitað fagnaðarefni. Þegar ég hugsa til baka þegar ég og minn flokkur og íslenskir bændur vorum sakaðir um fornaldarmennsku fyrir að berjast gegn innflutningi og að vilja beita allri þeirri varúð í þeim málum sem hægt væri á þeim rökum sem nú eru lýðum ljós, þá er það heilbrigði neytenda og hið mikla heilbrigðisástand íslensks landbúnaðar sem er auðvitað ástæðan fyrir því. Ég minnist þess þegar við vorum í upphafi síðasta áratugar að fara þá leið að opna glufu í vegginn að kröfu margra aðila til þess að flytja inn landbúnaðarafurðir og átökin geisuðu í rauninni um það. Átökin á pólitíska vísu voru um hvort ekki ætti að fella allar reglur niður og hafa frjálsan innflutning. Það var krafa margra aðila.

Ég minnist þess að þegar flokkur minn kom að ríkisstjórn 1995 höfðu þeir flokkar sem fóru með GATT-samningana ekki náð samkomulagi um útfærsluna og það var verkefni fyrirrennara míns, Guðmundar Bjarnasonar, að útfæra þær reglur eftir allri þeirri varúð, ná sérsamningum Íslendinga um hvernig staðið væri að því.

Ég minnist þess að hann stóð þá undir veggjum á svörtum loftum, Seðlabankanum sjálfum, og varðist þar af mikilli hörku. Það var ekki bara stjórnarandstaðan eða Alþfl. sálugi (Gripið fram í: Sjálfur.) --- hann er nú ekki til lengur --- sem þá barðist hart gegn honum. Það voru líka Neytendasamtökin, verkalýðshreyfingin og fleiri aðilar sem töldu að hér væri hart gengið fram og þröngar skorður settar til að vernda sérstöðu Íslands, landbúnaðinn sjálfan. (SJS: Hvenær koma þessar endurminningar út?) Þessi niðurstaða náðist sem betur fer fram. (SJS: Hvenær koma endurminningar ráðherrans út?) Þær eru hér á ferðinni. Þessi hluti endurminninganna verður skráður í þingsöguna í þúsund ár og verður þar til staðar.

Ég minnist þess enn fremur að stríðið var það hart sem ég hef sagt áður að heill stjórnmálaflokkur lét aka á 150 km hraða með kalkúnalappir til veislunnar miklu á flokksþingi Alþfl. þar sem lærin voru nöguð. En jafnframt gerðist það þá að lögreglustjóri gerði þær lappir upptækar síðar.

Ég minnist þess einnig að Íslendingar urðu að ganga í gegnum það að stór verslunarkeðja stefndi íslenska ríkinu og landbrh. fyrir að banna innflutning á skinku. Hver var niðurstaðan? Hæstiréttur með fjórum atkvæðum gegn þremur komst að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið væri skaðabótaskylt. Þarna væri verið að vinna gegn hagsmunum neytenda. Það er því víða sem við höfum tekist á um þetta mál. Þess vegna fagna ég þeim áhuga sem Íslendingar hafa nú til þess að meta landbúnaðinn og verk bænda sinna í réttu ljósi.

Við höfum gerst aðilar að alþjóðasamningum. Við styðjumst þar við ákveðin vísindaleg rök sem við leggjum til grundvallar. Hér er allur innflutningur bannaður. Eina landið í GATT sem gerir það þar til hann er leyfður. Hin löndin hafa hann allan leyfðan þar til hann er bannaður. Við leyfum innflutning á vöðvum, önnur lönd á heilum og hálfum skrokkum. Við höfum því farið gætilega í þessu efni.

Hvað þetta mál varðar og um leið og ég svara fyrirspurnum hv. þm. vil ég segja að ráðuneytisstjóri minn hefur viðurkennt að auglýsingin er í rauninni strangari en samningurinn og lögin. Þess vegna hefur það verið vinnuregla hjá yfirdýralækni að vera í beinu sambandi við OIE, Alþjóðadýraheilbrigðisstofnunina í París, til að fá nýjustu og nákvæmustu upplýsingar. En hér vil ég segja að ég hef falið Eiríki Tómassyni lagaprófessor að fara yfir framkvæmd þessara mála, hvort farið hafi verið eftir auglýsingum, reglugerðum, lögum og alþjóðlegum skuldbindingum þegar þessar írsku nautalundir voru fluttar inn. Eiríki Tómassyni hefur jafnframt verið falið að fara yfir í samstarfi við færustu sérfræðinga hérlendis fyrirkomulag þessara mála með tilliti til þess hvernig á þeim verður best haldið til framtíðar og hvort mögulegt sé að herða lög og reglur enn frekar. Ég mun kalla dýralæknaráð saman til að fara yfir vísindaleg rök að baki ákvörðun yfirdýralæknis. Ég ætla mér einnig að eiga viðræður við Jóhannes Gunnarsson, formann Neytendasamtakanna, um fyrirkomulag innflutningsmála. Ég vil eiga fullt samstarf við Neytendasamtökin. Ég boðaði Ara Teitsson og Bændasamtökin á minn fund og hann hefur reyndar þegar hitt mig á förnum vegi.

Þegar niðurstaða þessarar úttektar liggur fyrir mun ég leggja hugsanlegar tillögur um úrbætur fyrir ríkisstjórn og landbn. Alþingis sem er mikilvægt svo að um þessi mál megi ríkja sem víðtækust pólitísk sátt.

Ég vil segja að ég er sannfærður um að það hvarflar auðvitað ekki að nokkrum manni eða verslunarkeðju í ljósi umræðunnar að óska eftir að flytja inn nautakjöt frá kúariðulöndum þannig að staðan er alveg ljós í þeim efnum. Sá aðili sem átti óselda 2/3 af írsku nautalundunum hefur pakkað þeim saman og sett þær í frysti af öryggisástæðum og væntumþykju sinni gagnvart neytendum. Þannig að nú gefst okkur tími, ríkisstjórn, Alþingi og færustu mönnum til að fara yfir þessi mál og kanna hvort við þurfum að herða lög, hvort við getum hert lög svo við stöndum öruggir gagnvart framtíðinni, gagnvart okkar íslenska fólki, ferðamönnum og íslenskum landbúnaði.