Neytendavernd og innflutningur á írskum nautalundum

Þriðjudaginn 16. janúar 2001, kl. 15:09:16 (3633)

2001-01-16 15:09:16# 126. lþ. 59.94 fundur 252#B neytendavernd og innflutningur á írskum nautalundum# (umræður utan dagskrár), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 126. lþ.

[15:09]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Ég hafði vonir um það við upphaf umræðunnar að hægt væri að fara málefnalega yfir þetta mál og ræða það eins og það stendur í dag, einkum og sér í lagi vegna atburða í lok sl. árs, þ.e. innflutnings þeirra írsku nautalunda sem urðu tilefni þessarar umræðu. Hæstv. ráðherra kaus hins vegar að fara lengra aftur í tímann til upphafs síðasta ártugar.

Ég vil rifja það upp fyrir hæstv. ráðherra að kúariðan og tenging hennar við sjúkdóminn í mönnum varð lýðum ljós eftir að Framsfl. tók við forráðum í landbrn., í heilbrrn. og í umhvrn. Það hefur því verið á verksviði Framsfl. og ráðherra hans að bregðast við þeim illræmda sjúkdómi sem kúariðan er og þeim ótta sem hefur skapast meðal neytenda af þeim ástæðum þannig að ég sendi þennan bolta aftur í fang hæstv. ráðherra og kollega hans í ríkisstjórninni.

Herra forseti. Ég var og er talsmaður þess að flytja inn landbúnaðarafurðir hingað til lands og ætla ekki að vera með nein afsláttarkjör í þeim efnum. Ég undirstrika hins vegar mikilvægi þess að farið sé að skýrum og gagnsæjum leikreglum í þeim efnum er varða heilbrigði almennings og hreinlæti allt. Ég vildi og vil að íslenskir neytendur geti notið hins sama í verði og raunar oftast í gæðum og íbúar annarra nágrannalanda. En ég vil auðvitað bregðast við nýjum kringumstæðum, nýjum tíðindum sem kúariðufárið hefur svo sannarlega skapað. Þar hefur ríkisstjórnin og ráðherrar hennar brugðist og ekki staðið vaktina nægilega vel.

Herra forseti. Ég vil ekki hræða fólk. Ég vil ekki kalla: Úlfur, úlfur og ég er ekki kominn í þennan ræðustól til þess. Því lýsi ég nokkrum vonbrigðum með það að hæstv. ráðherra skuli sjálfur fylla þann flokk manna og gefa til kynna að það fólk sem hefur neytt hins írska kjöts eigi enn þá að vera óvisst í sinni sök um það hvort kjötið yfirleitt væri smitað eður ei. Það er ákaflega létt í vasa og ég tók sérstaklega eftir því að hann taldi það sér til tekna að þriðjungur þess kjöts sem ekki hefur verið selt hefur verið frystur og geymdur. (Landbrh.: Ertu ekki feginn?) Er ég ekki feginn? spyr hæstv. ráðherra. Nei, ég er ekki feginn. Það gefur mér ástæðu til að ætla að ekki hafi allt verið með felldu með söluna á þriðjungi kjötsins sem ég í raun og sanni vildi trúa að allt hefði verið í lagi með. Herra forseti. Hér er hæstv. ráðherra að sá frækornum efans í brjóst þeirra neytenda sem þegar hafa keypt þetta kjöt og því er ástæða til að spyrja hæstv. ráðherra þráðbeint þess sama og spurt var í sjónvarpinu á dögunum, bæði í gamni og alvöru hvort hæstv. ráðherra væri tilbúinn til að neyta þeirra sömu írsku nautalunda ef þær kæmu á hans disk. Hann kom sér undan því að svara á dögunum og það er ástæða til þess að spyrja um það hér beint. Það er ekkert gamanmál, herra forseti, þegar um það er að ræða að 12 þúsund skammtar hafi farið á diska almennings í landinu og hæstv. ráðherra skuli koma hér og leyfa sér að segja að sá hluti kjötsins sem ekki var seldur sé þannig úr garði gerður að hann sé best geymdur í frystum gámum þar til annað sannast. Það er þetta, herra forseti, sem ég tel ástæðu til að gera að umtalsefni. Ég átti satt að segja ekki von á þessum viðbrögðum ráðherrans.

Herra forseti. Ég undirstrika að ég vil að við förum að öllu með gát. Látum vísindin ráða för en fyllumst ekki einhverju írafári og taugaveiklun. Þess vegna tel ég mikilvægt að landbn. komi mjög ákveðið --- (Gripið fram í: Írafár?) Það er írafár, já, svo sannarlega --- að verki í þessum efnum þegar þetta regluverk verður allt endurskoðað. Það liggur fyrir og er staðfest að reglugerð byggð á lögum, auglýsing byggð á reglugerð hefur ekki staðist, ekkert samræmi er þar á milli. Það er ástæða til að spyrja hæstv. ráðherra: Eftir hverju hefur verið farið í raun --- og ég spyr í hversu mörgum tilfellum --- þegar aðilum hefur verið hafnað um innflutning á fersku kjöti? Hvað hefur í raun ráðið för fyrst auglýsingin gilti ekki, fyrst reglugerðin gilti ekki? Hér rekst hvað á annars horn og við svo búið má ekki standa. Ég held að það þurfi atbeina þingsins, landbn. og allra góðra manna til þess að hjálpa hæstv. landbrh. út úr þessari klípu og ég skal ekki láta mitt eftir liggja.