Neytendavernd og innflutningur á írskum nautalundum

Þriðjudaginn 16. janúar 2001, kl. 15:14:36 (3634)

2001-01-16 15:14:36# 126. lþ. 59.94 fundur 252#B neytendavernd og innflutningur á írskum nautalundum# (umræður utan dagskrár), TIO
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 126. lþ.

[15:14]

Tómas Ingi Olrich:

Herra forseti. Hér hefur staðið deila um það á liðnum árum hvort glenna eigi upp allar gáttir varðandi innflutning landbúnaðarvara ellegar gæta varúðar. Fremstur í flokki þeirra sem hafa krafist afnáms sem flestra innflutningshamla hafa verið alþýðuflokksmenn sem skipa sér nú undir merki Samfylkingarinnar eins og kunnugt er. Hinir sem hafa viljað gæta varúðar hafa tryggt með lagasetningu að hægt er nú og skylt að bregðast við þeirri hættu sem steðjar að vegna kúariðu. Haldreipið í lagasetningunni er að finna í lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, en þar segir í 10. gr. að óheimilt sé að flytja til landsins m.a. ferskt kjöt.

Það kostaði eins og kunnugt er mikil átök við alþýðuflokksmenn að halda þessu ákvæði inni í lögunum. Þeir töldu að hér væri eingöngu um að ræða dulbúna viðskiptahindrun. Áralangur málflutningur Alþfl. í þessum málum er nú endanlega gengisfelldur um ári eftir að flokkurinn er lagður niður.

[15:15]

Í þessari baráttu sem okkur er flestum í minni, árin 1991--1995, skipti sköpum einörð framganga landbrh. og forsrh. sem nutu dyggilegs stuðnings þáv. formanns landbn., Egils Jónssonar, og þáv. varaformanns landbn., Guðna Ágústssonar, núv. hæstv. landbrh.

Aðild Íslands að GATT-samningnum takmarkar ekki svigrúm íslenskra stjórnvalda til að bregðast við vandanum. Hér er um alvarlegan og lítt þekktan sjúkdóm að ræða. Í lögum nr. 87/1995 er landbrh. heimilt að veita undanþágu frá innflutningsbanni á fersku kjöti, þó aðeins að því tilskildu að sannað þyki --- að sannað þyki --- að ekki berist smitefni með þeim er valda dýrasjúkdómum. Ég tek það fram sérstaklega að ekkert er unnt að sanna í þessum efnum að því er varðar kúariðu.

Sú skoðun hefur verið útbreidd meðal þeirra sem barist hafa fyrir óheftum innflutningi að raunverulegur tilgangur með heilbrigðisreglum hafi verið að hindra innflutning til verndar innlendri búvöruframleiðslu. Málið nú varpar skýru ljósi á að sá málflutningur stóðst ekki. Það sem er í húfi snertir fyrst og fremst neytendur, þ.e. íslensku þjóðina, og hún er fyllilega meðvituð um mikilvægi þess að sýna ýtrustu varúð.

Nú er fyrst og fremst lag til að skoða hvort nægilega vel er staðið að eftirliti með ýmsum unnum matvörum sem innihalda hráar kjötafurðir. Leiða má rök að því að þar kunni ekki síður að vera um varasaman innflutning að ræða en þegar hrátt kjöt á í hlut.

Alþjóðavæðing viðskipta býður upp á ýmsa athyglisverða möguleika fyrir Íslendinga sem þeir eiga að nýta sér. Hins vegar má aldrei gleyma því að ýmsar neikvæðar hliðar fylgja þessari alþjóðavæðingu og hömlulausum alþjóðaviðskiptum. Þær hættur geta haft alvarlegar afleiðingar fyrir efnahagslíf þjóðarinnar. Þar má því ekki tefla neinu í tvísýnu og þegar mikil óvissa ríkir í slíkum málum er það skylda okkar að sýna varkárni. Kúariðumálið er dæmigert mál af þessu tagi og kennir vonandi þeim sem fjálglegast hafa barist fyrir andvaraleysi í þessum efnum ákveðna lexíu.