Neytendavernd og innflutningur á írskum nautalundum

Þriðjudaginn 16. janúar 2001, kl. 15:18:25 (3635)

2001-01-16 15:18:25# 126. lþ. 59.94 fundur 252#B neytendavernd og innflutningur á írskum nautalundum# (umræður utan dagskrár), GAK
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 126. lþ.

[15:18]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Þetta máltæki á í rauninni vel við þá umræðu sem nú kemur upp við innflutning á kjöti erlendis frá sem snýr m.a. að neytendavernd. Minnast má margra leiðara Dagblaðsins fyrrum um hversu fráleitt það væri að leyfa ekki innflutning á landbúnaðarafurðum frá öðrum löndum. Þá var skrifað að þá gætu Íslendingar fengið ódýr og góð matvæli niðurgreidd frá ESB.

Herra forseti. Það hljóta að teljast afglöp við meðferð máls að hingað skuli hafa verið flutt inn nautakjöt frá einu mesta nautgripariðulandi Evrópu, Írlandi. Framsýni þeirra sem stöðvuðu innflutning á erlendu kjötmjöli fyrir áratugum er þakkarvert. Upplýsingagjöf til almennings um smitleiðir er misvísandi og alls ekki trúverðugt að dýrasjúkdómar sem eru í blóði nautgripa berist ekki með kjöti.

Í þeirri stöðu sem upp er komin víða í Evrópu varðandi kúariðu og fóðrun alidýra er nánast sjálfgefið að stöðva eigi allan kjötinnflutning til Íslands. Klúðrið í nautalundamálinu skrifast á landbrh.

Herra forseti. Nú ætti landbrh. að afturkalla ákvörðun sína um innflutning á fósturvísum frá Noregi. Tökum enga óþarfa áhættu um framtíðarhreinleika íslenskra landbúnaðarvara.

Við megum þakka íslenskum bændum fyrir störf þeirra. Og gott er þegar þjóðinni verður loksins ljóst hvaða verðmæti við eigum í hreinum, íslenskum landbúnaði og því að halda sveitum landsins í byggð. Í hreinleika íslensks húsdýrastofns okkar eru fólgin mikil verðmæti sem undir engum kringumstæðum má spilla.

Herra forseti. Standi landbrh. vakt sína sem ekki var gert nú, má áfram að skaðlausu kyssa íslenska kú.