Neytendavernd og innflutningur á írskum nautalundum

Þriðjudaginn 16. janúar 2001, kl. 15:36:50 (3643)

2001-01-16 15:36:50# 126. lþ. 59.94 fundur 252#B neytendavernd og innflutningur á írskum nautalundum# (umræður utan dagskrár), EOK
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 126. lþ.

[15:36]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Af þeirri umræðu sem hér á sér stað í dag er ljóst að það er þverpólitísk samstaða allra hv. þingmanna og allra stjórnmálaflokka um að við skulum leggja okkur öll fram um að auka svo mjög sem auðið er varnir gegn smitsjúkdómum. Menn hafa haft mismunandi meiningar um þetta fram til þessa en nú er það öllum ljóst að smitsjúkdómar í dýrum eru ákaflega hættulegir, svo hættulegir að aldrei er nógu mikið gert til að forða Íslandi og Íslendingum frá því sem er að gerast úti í Evrópu.

Því er ástæða til að fagna því að nú standa menn saman. Við höfum allar heimildir í lögum og í búfjárlögunum, við höfum heimildirnar alls staðar, þannig að úr því að ljóst er að það er vilji Alþingis, allra stjórnmálaflokka, að herða þetta enn þá meira þá eigum við að gera það. Við getum farið í það að banna þetta. Okkur er alveg fullkomlega heimilt að banna innflutning á hráu kjöti og ganga enn lengra ef okkur sýnist svo. Við skulum fagna því að við berum gæfu til þess að standa saman. Gerum það vegna þess að reynslan frá Evrópu sýnir okkur að það er aldrei nógu varlega farið.