Eiturefni og hættuleg efni

Þriðjudaginn 16. janúar 2001, kl. 15:52:09 (3649)

2001-01-16 15:52:09# 126. lþ. 59.3 fundur 369. mál: #A eiturefni og hættuleg efni# (yfirstjórn, gjaldtaka o.fl.) frv., umhvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 126. lþ.

[15:52]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Hæstv. forseti. Frv. það sem ég mæli fyrir til breytinga á lögum um eiturefni og hættuleg efni er flutt í framhaldi af tillögu nefndar sem skipuð var 13. júní sl. til að endurskoða áðurnefnd lög nr. 52/1988, með síðari breytingum.

Nefndinni er sérstaklega ætlað að huga að löggjöf Evrópusambandsins og lagaþróun í Evrópu á sviði eiturefna og hættulegra efna og efna almennt, svo sem í tengslum við snyrtivörur, og að fenginni reynslu af framkvæmd gildandi laga.

Nefndinni er ætlað að skila tillögum í formi frumvarps til laga um eiturefni og hættuleg efni til ráðherra vorið 2001.

Þegar nefndin tók til starfa kom fljótlega í ljós að nauðsynlegt væri að lagfæra sem fyrst nokkur atriði í lögum nr. 52/1988, og áður eru nefnd, og ekki væri hægt að bíða með þær lagfæringar þar til heildarendurskoðun yrði lokið með samþykkt nýrra laga sem vænta mætti árið 2002. Þau atriði sem hér um ræðir varða gjaldtökuheimildir, hvar fegrunar- og snyrtiefnum skal komið fyrir í löggjöf og um yfirstjórn málaflokksins. Þetta væri nauðsynlegt þar sem ýmist er ekki tekið á þessum málum í lögum eða þá til að eyða réttaróvissu. Endurskoðunarnefndin lagði því til að sem fyrst yrðu gerðar breytingar í þessa veru og það áður en nefndin skilaði af sér tillögum að heildarlögum.

Virðulegi forseti. Þær breytingar sem um er að ræða felast í eftirfarandi:

Lagt er til að sett verði í lögin skýr og ótvíræð ákvæði um að fegrunar- og snyrtiefni falli undir lögin. Í því skyni er nauðsynlegt að skilgreina hvað átt er við með fegrunar- og snyrtiefnum og vísa ég þar nánar til 1. gr. frv. og athugasemda við hana. Skilgreiningin er að mestu sú sama og í reglugerð nr. 776/1998, um snyrtivörur, og er tekið mið af skilgreiningum tilskipunar 76/778/EBE um samræmingu laga Evrópusambandsríkjanna um snyrtivörur. Meginmarkmiðið er að tryggja eðlilega notkun fegrunar- og snyrtiefna en þessi efni mega aldrei innihalda eiturefni eða hættuleg efni.

Þar sem gildandi lög fjalla eingöngu um eiturefni og hættuleg efni taka þau því ekki til snyrtiefna í dag og úr því þarf að bæta.

Málefni eiturefna og hættulegra efna fluttust til umhvrn. 1. júní 1994 frá heilbrrn. án þess að viðeigandi breyting væri gerð á þessari löggjöf. Þegar Hollustuvernd ríkisins og þar með eiturefnasvið stofnunarinnar var flutt yfir til umhvrn. frá heilbrrn. 1. júní 1994 færðist málaflokkurinn í reynd milli þessara ráðuneyta. Nauðsynlegt er að þetta komi skýrt fram í lögunum og þarfnast það ekki frekari skýringa.

Ákvæði laga um eiturefni og hættuleg efni hvað varðar gjaldtöku eru ekki í samræmi við lög sem sett hafa verið að undanförnu og varða starfsemi opinberra aðila, þ.e. Hollustuverndar ríkisins í þessu tilviki. Því er lagt til að þær verði samræmdar reglum sem er að finna í lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, með síðari breytingum, og matvælalögum, nr. 93/1995, en Hollustuvernd ríkisins starfar samkvæmt þeim lögum fyrst og fremst auk laga um eiturefni og hættuleg efni og laga um varnir gegn mengun sjávar, nr. 32/1986.

Því er lagt til að Hollustuvernd ríkisins verði veitt heimild til að taka gjald fyrir vinnu við og útgáfu starfsleyfa til handa þeim sem starfa við garðaúðun í atvinnuskyni, svo og um starfsleyfi meindýraeyða. Vinna Hollustuverndar ríkisins við slík leyfi er miklu meiri en sem nemur heimild til gjaldtöku samkvæmt lögum um aukatekjur ríkissjóðs, sem eru nú 5.000 kr. og er í sjálfu sér órökrétt að sá kostnaður falli á samfélagið.

Þá er enn fremur lagt til að Hollustuvernd sé heimilt að taka gjald fyrir vinnu stofnunarinnar við skráningu, breytingu á skráningu, undanþágu frá skráningu, samhliðaskráningu og endurnýjun á skráningu varnarefna en innheimta gjalds hefur til þessa verið hjá lögreglustjórum í samræmi við áðurnefnd lög um aukatekjur ríkissjóðs og er lagt til að Hollustuvernd ríkisins taki yfir þá leyfisveitingu enda í hæsta máta eðlilegt þar sem öll vinna fer fram á stofnuninni önnur en útgáfa sjálfs leyfisins. Hollustuvernd ríkisins hefur engar greiðslur fengið fyrir þá vinnu þótt hún sé oft umtalsverð.

Virðulegi forseti. Þá er enn fremur lagt til að heimilt sé að krefjast gjalds vegna skráningar á varnarefnum enda oft í því fólgin mikil vinna og að Hollustuvernd sé heimilt að krefja umsækjendur um endurgreiðslur þess kostnaðar sem til fellur vegna rannsókna eða úttekta utanaðkomandi sérfræðinga í tengslum við rannsóknir enda hafi verið haft samráð við umsækjendur, sé krafist sérstakra rannsókna.

Allar þessar gjaldtökur eru háðar því að ráðherra staðfesti gjöldin í gjaldskrá og uppæðir taki mið af kostnaði við þjónustu og framkvæmd einstakra verkefna. Með þessu yrði framkvæmd samkvæmt lögum um eiturefni og hættuleg efni færð í sama farveg og framkvæmd er tengist áðurnefndum lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir og lögum um matvæli.

Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um þetta frv. Ég hef farið yfir helstu atriði þess en legg til að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhvn.