Eiturefni og hættuleg efni

Þriðjudaginn 16. janúar 2001, kl. 16:15:08 (3659)

2001-01-16 16:15:08# 126. lþ. 59.3 fundur 369. mál: #A eiturefni og hættuleg efni# (yfirstjórn, gjaldtaka o.fl.) frv., KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 126. lþ.

[16:15]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir orð hæstv. umhvrh. Sannarlega er ástæða til að sinna þessum málefnum af fullri alúð og festu. Ég vil upplýsa það að umhvn. hefur áformað heimsókn til Hollustuverndar ríkisins til að skoða þar aðstæður og ræða við starfsfólk og það er upphafið að umhvn. Alþingis taki þessi mál til sérstakrar skoðunar. Ég vil líka nota tækifærið og óska Hollustuvernd ríkisins og hæstv. umhvrh. til hamingju með nýjan forstjóra Hollustuverndar því auðvitað vitum við að nýir vendir sópa best. Við skulum gera ráð fyrir því að í kjölfarið á ráðningu nýs forstjóra komi málefni Hollustuverndar enn frekar í ljós og úrbóta er þá kannski líka að vænta í t.d. húsnæðismálum stofnunarinnar því eins og við vitum býr stofnunin við erfið skilyrði í húsnæðismálum. Sömuleiðis hefur verið erfitt fyrir stofnunina, eins og kom fram í máli hæstv. umhvrh., að anna því stóra og mikilvæga verkefni að koma frá sér öllum þýðingum og aðlögunum á reglugerðum Evrópusambandsins sem við erum að lögleiða hér.

En sem sagt: Umhvn. Alþingis kemur til með að taka á málefnum Hollustuverndar af fullri alúð og festu á næstu missirum.