Samráð stjórnvalda við frjáls félagasamtök

Þriðjudaginn 16. janúar 2001, kl. 16:40:19 (3663)

2001-01-16 16:40:19# 126. lþ. 59.4 fundur 46. mál: #A samráð stjórnvalda við frjáls félagasamtök# þál., KolH
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 126. lþ.

[16:40]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég fagna þeirri till. til þál. sem hér er komin fram annað löggjafarþingið í röð og treysti því að hún hljóti brautargengi og bendi á að allir fulltrúar stjórnarflokkanna í umhvn., sýnist mér, eru flutningsmenn þessarar tillögu. Þó að einungis tveir þeirra séu staddir hér í salnum tel ég náttúrlega alveg deginum ljósara að tillagan kemur til með að hljóta jákvæðar undirtektir og jákvæða afgreiðslu og ef að líkum lætur afskaplega skjóta út úr umhvn. þar sem stjórnarmeirihlutinn er í raun búinn að lýsa því yfir að svona vilji hann að haldið sé á málum. Ég lýsi yfir fullum stuðningi við þessa tillögu og kem til með að styðja skjóta og vandaða afgreiðslu hennar úr umhvn.

Ég er ein þeirra sem hafa gagnrýnt stjórnvöld fyrir að taka ekki nægilega vel á með umhverfisverndarsamtökum þegar náttúruvernd og umhverfisvernd er annars vegar. Og ég hef oft og tíðum orðið fyrir miklum vonbrigðum með stjórnvöld sem hafa í orði kveðnu talað um mikilvægi þess að eiga samráð við umhverfisverndarsamtök en hafa síðan þegar á hólminn er komið ekki efnt þau orð.

Hér voru hörð átök þegar verið var að fjalla um fjárlög þessa árs og eins og hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir gat um í ræðu sinni áðan þá var tekist hart á um það hvernig stuðningur hins opinbera við frjáls félagasamtök ætti að vera. Við vændum stjórnvöld um að mismuna frjálsum félagasamtökum með því að gefa einum tækifæri til að vera nafngreindur liður inni á fjárlögum en öðrum ekki algjörlega án nokkurs rökstuðnings. Og við leiddum að því ákveðnar líkur og gátum okkur þess til að þar væri verið að mismuna vegna þess að ein samtökin væru höll undir stefnu stjórnvalda í stóriðjumálum og virkjanamálum en önnur ekki.

Stjórnvöld verða að hefja sjálf sig yfir svona lagað, yfir ásakanir af þessu tagi og það geta þau ekki gert öðruvísi en að jafnræðis sé gætt. Á sama hátt verður að gæta jafnræðis, eins og hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir benti á, milli stórra stofnana sem eiga ómælt fjármagn til þess að sinna málefnum sínum, kynna sig, kynna málstað sinn og koma honum vel á framfæri, og til þess að kæra t.d. ef því er að skipta, að reka lögfræðimál fyrir dómstólum. Það er ekki einfalt fyrir umhverfisverndarsamtök á Íslandi í dag að gera slíkt, hvorki að kæra hér innan lands né, að ég tali nú ekki um, erlendis, fyrir eftirlitsstofnunum erlendis sem Ísland í raun heyrir undir. Það eru afskaplega fjárfrekar framkvæmdir að gæta réttar síns fyrir dómstólum og ég verð að segja að mér finnst það samkvæmt Árósasamningnum líka vera að hluta til á ábyrgð stjórnvalda að frjálsum félagasamtökum sé hleypt að málum og að þess sé gætt að sjónarmið þeirra fái notið sín og að þeim sé ekki mismunað.

Mig rekur minni til að ég hafi heyrt hæstv. umhvrh. geta þess að Árósasamþykktina ætti að lögfesta í vetur á þessu þingi. Og af því hæstv. umhvrh. er hér staddur þætti mér vænt um að fá að heyra nánar um það hvar það er á vegi statt að koma Ársóasamþykktinni inn í lög á Íslandi.

Ég lýsi mig sem sé í lok ræðu minnar stuðningsmann þessarar tillögu og ég treysti því að hún fái hratt og gott brautargengi hjá umhvn.