Samráð stjórnvalda við frjáls félagasamtök

Þriðjudaginn 16. janúar 2001, kl. 16:52:34 (3665)

2001-01-16 16:52:34# 126. lþ. 59.4 fundur 46. mál: #A samráð stjórnvalda við frjáls félagasamtök# þál., KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 126. lþ.

[16:52]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. umhvrh. nefnir hér umhverfisþing sem fram undan er. Af því tilefni vil ég, m.a. af því að hæstv. ráðherrann hefur lýst því yfir að æskilegt sé að umhverfisverndarsamtök veiti stjórnvöldum aðhald og samskipti stjórnvalda og frjálsra félagasamtaka á sviði umhverfismála séu af hinu góða, lýsa því yfir, herra forseti, að ég hefði gjarnan viljað sjá hlut frjálsra félagasamtaka stærri á væntanlegu umhverfisþingi. Mér telst svo til að þessi eini fulltrúi umhverfisverndarsamtakanna, sem er framkvæmdastjóri Landverndar, eigi að fá að tala í 15 mínútur og það sé eina innlegg þeirra á tæplega tveggja daga þingi. Það er eina innleggið sem koma á frá frjálsum félagasamtökum. Ég hefði viljað sjá hlut þessara samtaka stærri á þingi þessu og hefði gjarnan viljað sjá talað fyrir sjónarmiðum Náttúruverndarráðs.

Af því að hæstv. umhvrh. gat um það í ræðu sinni áðan að mögulegt væri að fjármunir sem fara til Náttúruverndarráðs gætu gagnast málaflokknum betur með því að fara í annað þá vil ég mótmæla því. Ég held því fram að hæstv. umhvrh. hafi einfaldlega ekki borið gæfu til að efla skapandi eða jákvæð samskipti milli ráðuneytisins og Náttúruverndarráðs. Eins og alþjóð veit þá sló í brýnu milli ráðsins og hæstv. umhvrh. mjög fljótlega eftir að hún tók við embætti. Mér finnst málflutningur hennar varðandi Náttúruverndarráð litast af rimmunni milli ráðsins og hennar.

Ég vil segja hér úr þessum ræðustól, herra forseti, að Náttúruverndarráð er lögskipað ráð samkvæmt náttúruverndarlögum. Þar eru bæði kosnir fulltrúar og skipaðir. Ég tel afar mikilvægt að ráðið sé eflt og fái að starfa áfram.