Samráð stjórnvalda við frjáls félagasamtök

Þriðjudaginn 16. janúar 2001, kl. 16:57:02 (3667)

2001-01-16 16:57:02# 126. lþ. 59.4 fundur 46. mál: #A samráð stjórnvalda við frjáls félagasamtök# þál., KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 126. lþ.

[16:57]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er kannski rétt að gera örlítinn greinarmun á umhverfisverndarsamtökum og Náttúruverndarráði. Umhverfisverndarsamtök eru frjáls félagasamtök sem að eigin frumkvæði koma saman og láta sig málefni umhverfisverndar einhverju skipta. Náttúruverndarráð er hins vegar lögskipað ráð samkvæmt náttúruverndarlögum sem hefur lögverndað hlutverk. Auðvitað verður Náttúruverndarráð ekki lagt niður í því augnamiði að fjármunirnir sem til þess fara gætu mögulega nýst málaflokknum betur með því að fara í eitthvað annað.

Til að leggja Náttúruverndarráð niður þarf grófa lagabreytingu, skulum við athuga, herra forseti. Ég vara eindregið við hugmyndum hæstv. umhvrh. varðandi Náttúruverndarráð og meint máttleysi þess í málaflokknum.

Hvað varðar hagsmunatengsl og aðkomu ólíkra félagasamtaka að málum þá læt ég þeim sem mál mitt heyra það eftir að hugleiða hvers vegna Jón Helgason, sem á sæti í undirbúningshópi um umhverfisþingið, gerir enga athugasemd við dagskrána eða aðkomu frjálsra félagasamtaka að dagskrá umhverfisverndarþingsins. Framkvæmdastjóri hans eigin samtaka, Landverndar, kemur til með að vera þarna fulltrúi frjálsra félagasamtaka þannig að ég sé ekki ástæðu fyrir Jón Helgason að gera athugasemd við það.

Ég tel hins vegar að ég hafi til þess fullan rétt að benda á og vekja fólk til umhugsunar um hvort hér sé gætt jafnræðis á milli ólíkra félaga og hvort tengsl einstaklinga í þessum félögum við ákveðna stjórnmálaflokka skipti hér einhverju máli.