Úttekt á ástandi eigna á jarðskjálftasvæðum

Þriðjudaginn 16. janúar 2001, kl. 17:26:09 (3671)

2001-01-16 17:26:09# 126. lþ. 59.10 fundur 116. mál: #A úttekt á ástandi eigna á jarðskjálftasvæðum# þál., Flm. MF (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 126. lþ.

[17:26]

Flm. (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Það er eins með þetta mál og hið fyrra. Það var lagt fram á fyrstu dögum þingsins en hefur beðið umræðu. Enn og aftur, guði sé lof fyrir geðvonsku hæstv. forseta í gær sem varð til þess að þau komu hér á dagskrá.

En ég mæli fyrir till. til þál. um úttekt á ástandi eigna á jarðskjálftasvæðum. Þessa tillögu flytja ásamt mér hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, Sigríður Jóhannesdóttir, Ólafur Örn Haraldsson, Drífa Hjartardóttir, Ísólfur Gylfi Pálmason, Magnús Stefánsson, varaþm. Framsfl., og Kjartan Ólafsson sem er varaþm. Sjálfstfl.

Í tillögunni segir, með leyfi forseta:

Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta fara fram rannsókn og úttekt á ástandi eigna á öllum helstu jarðskjálftasvæðum á Íslandi. Rannsóknin fari fram á næstu tíu árum og markmið hennar verði að efla varnir og viðbúnað gegn jarðskjálftum þar sem megináhersla verði lögð á að fyrirbyggja manntjón og draga úr slysum, sem og að lágmarka skemmdir á byggingum, tæknikerfum og innanstokksmunum. Rannsóknarmiðstöð Háskóla Íslands í jarðskjálftaverkfræði á Selfossi hafi yfirumsjón með verkinu. Strax að lokinni úttekt á fyrsta svæði sem rannsakað verður skulu niðurstöður birtar og ákveðið hvernig staðið verði að því að bæta eða kaupa þær eignir sem teljast varhugaverðar með tilliti til mögulegs tjóns af völdum jarðskjálfta. Kostnaður við verkið greiðist úr ríkissjóði.

Í grg. segir, með leyfi forseta:

Þann 17. og 21. júní síðastliðið sumar urðu tveir öflugir jarðskjálftar á Suðurlandi með tilheyrandi eftirskjálftum. Fyrri jarðskjálftinn sem átti upptök sín í Holtum var um 6,6 á Richter, en sá síðari með upptök nálægt Hestfjalli var af stærðinni 6,5 á Richter.

Báðir þessir jarðskjálftar ollu töluverðu tjóni á íbúðarhúsnæði og öðrum mannvirkjum. Nú þegar hefur verið tilkynnt --- þ.e. þegar tillagan var lögð fram, virðulegi forseti --- verið tilkynnt um 1.800 tjón. Tjón þessi eru að sjálfsögðu mismunandi mikil. Nokkur hús sem skemmdust mjög mikið hafa verið dæmd ónýt, en önnur sem einnig eru mikið skemmd hafa verið dæmd viðgerðarhæf. Þá var einnig um að ræða verulegt tjón á innbúi, vöru og framleiðslu fyrirtækja ásamt óbeinu tjóni sem fellur ekki beint undir tryggingar. Telja verður einstakt lán að ekki urðu umtalsverð slys á fólki í þessum öflugu jarðskjálftum.

Í flestum tilvikum voru það eldri hús og byggingar sem fóru illa, en einnig hús sem staðsett voru nálægt upptökum skjálftanna. Vegna fjarlægðar frá upptökum sluppu ýmsir stórir þéttbýliskjarnar á vestanverðu Suðurlandi við verulegar skemmdir á húsnæði. Öflugir jarðskjálftar hafa orðið á Suðurlandi á undanförnum árum þótt þeir næðu ekki sömu stærð og skjálftarnir í sumar. Sagan og staðfestar mælingar sýna að jarðskjálftar geta orðið enn stærri en þeir sem urðu í júní sl. og verulegar líkur eru taldar á því að þessari skjálftahrinu á Suðurlandi sé ekki lokið. Búast má við stórum skjálfta í Flóa eða Ölfusi innan skamms tíma og þá við eða nálægt stórum þéttbýlissvæðum.

Suðurland er ekki eina virka jarðskjálftasvæðið. Nægir að minna á Norðurland þar sem stórir skjálftar gætu ógnað byggð á stórum svæðum.

Það er eðlilegt í kjölfar þeirra jarðskjálfta sem urðu í sumar og þeirra jarðskjálfta sem þekktir eru að menn leiði hugann að því hvernig efla má varnir og viðbúnað gegn jarðskjálftum.

Tillaga þessi gerir ráð fyrir að gerð verði heildarúttekt á mannvirkjum á öllum þekktum jarðskjálftasvæðum á landinu þar sem búast má við stökum jarðskjálftum, með það að markmiði að niðurstöður slíkrar úttektar yrðu nýttar til þess að fyrirbyggja manntjón, draga úr slysum og lágmarka skemmdir á byggingum, innanstokksmunum og tæknikerfum. Tillagan gerir ráð fyrir að Rannsóknarmiðstöð Háskóla Íslands í jarðskjálftaverkfræði á Selfossi hafi yfirumsjón með verkefninu og að kostnaður vegna þess verði greiddur úr ríkissjóði. Í framhaldi af þessari vinnu verði einnig tekin ákvörðun um hvernig staðið verði að því að kaupa eða bæta þær eignir sem teljast varhugaverðar með tilliti til tjóns af völdum jarðskjálfta.

[17:30]

Mikil vinna hefur verið lögð í að meta það tjón sem varð í jarðskjálftunum 17. og 21. júní sl. og er sú vinna vel á veg komin. Þar er um að ræða mat á tjóni í samræmi við þau lög og reglugerðir sem gilda um Viðlagatryggingu Íslands. Í þessari vinnu hefur berlega komið í ljós að nauðsynlegt er fyrir Alþingi að taka til endurskoðunar lög um Viðlagatryggingu og aðra löggjöf sem málið varðar og einnig þær viðmiðanir sem hafðar eru að leiðarljósi, svo sem gildandi brunabótamat sem reynst hefur mjög ótryggur grunnur til að byggja matsniðurstöður á. Þá er langt í frá að Viðlagatryggingu Íslands sé ætlað að standa undir öllu því tjóni sem varð og því má reikna með að enn sé um óleystan vanda að ræða hjá mörgum þeim sem urðu fyrir tjóni í Suðurlandsskjálftunum. Þann vanda þarf að leysa og einnig að koma til móts við þau sveitarfélög þar sem tjónin urðu hvað mest. Þau hafa óhjákvæmilega borið mikinn kostnað vegna þessara náttúruhamfara. Margir urðu fyrir óbætanlegu tjóni, en það er mjög mikilvægt að allir þeir aðilar sem urðu fyrir fjárhagslegu tjóni fái það bætt með þeim hætti að enginn verði verr settur fjárhagslega en fyrir skjálftana.

Það má draga mikinn lærdóm af jarðskjálftunum sem urðu í sumar og þegar hefur Rannsóknarmiðstöð Háskóla Íslands í jarðskjálftaverkfræði á Selfossi tekið saman skýrslu um skjálftana og afleiðingar þeirra. Einnig býr mikil vitneskja hjá sveitarfélögum, matsmönnum Rauða krossins, Slysavarnafélaginu Landsbjörg og fleiri aðilum. Þessari vitneskju þarf að sjálfsögðu að safna saman.

Mjög mismunandi er hvernig húsum og innbúi reiddi af í jarðskjálftunum. Nokkur hús skemmdust mikið og hafa verið dæmd ónýt, önnur hús í næsta nágrenni við mesta skjálftasvæðið virðast vera lítið sem ekkert skemmd. Sama máli gegnir um innbú í húsum; víða varð stórtjón en á öðrum stöðum var komið í veg fyrir verulegt tjón með fyrirbyggjandi ráðstöfunum. Þessi lýsing á við þekkt tjón en einnig má reikna með að í nokkrum tilvikum sé líklegt að skemmdir hafi orðið á innviðum húsa án þess að þær hafi enn komið í ljós eða að mannvirki eigi eftir að skemmast vegna ýmiss konar röskunar sem varð í skjálftunum. Sem dæmi má nefna að vitað er að víða varð sig á jarðvegi við hús og líkur eru á að einnig geti hafa orðið sig á fyllingum undir gólfplötum og jafnvel undir sökklum húsa. Við slíkar aðstæður verða gjarnan skemmdir á lögnum undir húsum og við þau, auk þess sem sökklar og gólfplötur geta farið að síga og brotna á næstu mánuðum eða árum. Í timburhúsum gætu þéttingar hafa rofnað þannig að þau verði óþétt í vindi og kaldari, eða að raki fari að safnast í grindur og húsin að fúna. Nauðsynlegt er að ganga úr skugga um hvort slíkar duldar skemmdir hafa orðið, bæði til að unnt verði að gera við húsin ef þess er kostur og einnig til að eyða röngum grunsemdum ef ekkert er að.

Mikilvægt er að á næstu árum verði unnið rétt og skipulega að undirbúningi jarðskjálftavarna. Liður í því er að nýta þá vitneskju sem fékkst í sumar um eðli og afleiðingar jarðskjálfta. Þar verður að forðast allar öfgar og má hvorki stinga höfðinu í sandinn og vona að nú sé þetta búið í bili og ekkert þurfi að gera né ganga of langt í varkárni og öryggiskröfum. Jarðskjálftar á Íslandi eru staðreynd sem nauðsynlegt er að búa sig undir af skynsemi og af varkárni. Til þess þarf að draga almennan lærdóm af nýliðnum skjálftum og koma þeim upplýsingum á skipulegan hátt til almennings. Þar sem enn eru taldar verulegar líkur á að stórir jarðskjálftar verði innan tíðar á Suðurlandi þarf að hefjast handa strax.

Gera þarf með skipulegum hætti úttekt á því svæði þar sem skjálftarnir urðu í sumar og nýta þá þekkingu til forvarna. Þá þarf einnig að gera úttekt á öllum byggingum á Suðurlandi þar sem búast má við að stórir skjálftar verði þannig að hægt verði að grípa til ráðstafana sem mögulegar eru til að lágmarka það tjón sem kann að verða.

Í framhaldi þarf síðan að fara í skipulega úttekt á öllum þekktum jarðskjálftasvæðum á landinu og gera áhættugreiningu. Á grundvelli slíkrar áhættugreiningar mætti síðan flokka byggingar í áhættuflokka.

Þær upplýsingar væri síðan hægt að nota til að forgangsraða endurnýjun eða endurbótum á byggingum, setja fram hönnunarreglu og leiðbeiningar um forvarnir. Í þessari könnun verði sérstök áhersla lögð á t.d. íbúðarhúsnæði, skóla, leikskóla, sjúkrahús, dvalarheimili og annað húsnæði sem hýsir daglega margt fólk.

Af fenginni reynslu er augljóst að á þekktum jarðskjálftasvæðum er húsnæði sem þarf að afskrifa eða styrkja. Slíkt hefur að sjálfsögðu í för með sér kostnað sem er ekki hægt að velta alfarið yfir á eigendur þess.

Eðlilegt er að strax að lokinni ítarlegri úttekt á fyrsta hluta þess landsvæðis sem gerð yrði úttekt á verði ákveðið hver beri kostnað af niðurrifi eða endurbótum á hættulegu húsnæði. Þar má t.d. hugsanlega víkka hlutverk ofanflóðasjóðs og styrkja þannig að um verði að ræða sjóð vegna allra náttúruhamfara og hann eigi að bera kostnað af verkefnum eins og þessum.

Þá má nýta úttekt eins og þá sem tillagan gerir ráð fyrir til vinnu við leiðbeiningar um hvernig ganga þarf frá innanstokksmunum svo að öryggi íbúa sé sem best tryggt.

Þá er ekki síður mikilvægt að nota þá þekkingu sem fæst til að setja reglur hvað varðar hönnun bygginga.

Af framansögðu má ljóst vera að verkefnið sem tillaga þessi felur í sér er viðamikið og tímafrekt. Það krefst einnig sérþekkingar á mörgum sviðum, en þó ekki síst á sviði jarðskjálftaverkfræði. Slík sérfræðiþekking er til staðar í Rannsóknarmiðstöð Háskóla Íslands á Selfossi, en starfsmenn miðstöðvarinnar hafa sýnt og sannað hæfni sína við að takast á við verkefni eins og þau sem hér um ræðir og nægir í þeim efnum að benda á þær skýrslur sem frá Rannsóknarmiðstöðinni hafa komið. Markmið Rannsóknarmiðstöðvarinnar er að sinna rannsóknum, þróunarverkefnum og ráðgjöf á sviði jarðskjálftaverkfræði og skyldra greina.

Með því að fela Rannsóknarmiðstöðinni leiðandi hlutverk í þeim verkefnum sem tillagan gerir ráð fyrir mun verða stigið stórt skref til að efla varnir og viðbúnað gegn jarðskjálftum og til að bæta öryggi íbúa landsins.

Virðulegi forseti. Við þessa ítarlegu greinargerð er í sjálfu sér ekki mörgu að bæta en ég vil þó vitna til þess að í byrjun nóvember bar hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason fram fyrirspurn til hæstv. umhvrh. þar sem hann spurði hvort hún mundi láta gera áhættugreiningu sem næði til allra jarðskjálftasvæða landsins og vísaði þar með í þá skýrslu sem fylgir með þessari tillögu sem fylgiskjal, þ.e. samantekt frá jarðskjálftamiðstöðinni. Í svari ráðherra kom fram að hún hefði ekki kynnt sér skýrsluna. Má segja að hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason hafi tekið hæstv. ráðherra í bólinu hvað þetta varðar þar sem hún er yfirmaður jarðskjálftarannsókna nema þeirra sem fram fara hjá jarðskjálftamiðstöð Háskóla Íslands á Selfossi þar sem sú miðstöð fellur undir svið hæstv. menntmrh.

Engu að síður lýsti hæstv. ráðherra því yfir að verið væri að skoða þetta af fulltrúum ráðuneytanna þar sem margar stofnanir kæmu að og þetta væri viðamikið verkefni sem þyrfti að fara í en verið væri að skoða þetta af ráðuneytisstjórum viðkomandi ráðuneyta og tillögur frá þeim væru væntanlegar og að í fjárlögum þessa árs væri lagt nokkuð fjármagn til að hefja þessar rannsóknir. En til þess að þær megi fara skipulega fram er nauðsynlegt að fela einum aðila yfirumsjón með þeim og teljum við, flutningsmenn þessarar tillögu, að eðlilegt sé að jarðskjálftamiðstöðinni, Rannsóknarmiðstöð í jarðskjálftaverkfræði á Selfossi, verði falið þetta verkefni þar sem um er að ræða heildarúttekt á húsnæði. Verkefni Veðurstofunnar og annarra sem koma að slíkum rannsóknum er með allt öðrum hætti. Með þessari tillögu er alls ekki verið að kasta rýrð á þá vinnu sem þar hefur verið framkvæmd en hún er bara allt annars eðlis.

Virðulegi forseti. Ég tel að með samþykkt tillögunnar sé stigið stórt skref í þá veru að búa okkur, eða þau landsvæði þar sem búast má við jarðskjálftum, eins vel undir slíkar náttúruhamfarir og kostur er og tel að það þyrfti að afgreiða slíka tillögu. Ég hefði reyndar talið að það hefði þurft að afgreiða hana áður en fjárlög voru afgreidd en ég lít engu að síður á þá fjárhæð sem sett var í verkefnið á fjárlögum íslenska ríkisins fyrir þetta ár sem vísi að vilja til að fara í svo víðtækt verkefni sem gæti vissulega kostað stórar fjárhæðir en það má líka vinna á nokkuð mörgum árum.

Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni umræðunni verði þessari tillögu vísað til menntmn. þar sem um er að ræða verkefni á sviði Rannsóknarmiðstöðvar Háskóla Íslands í jarðskjálftaverkfræði. Engu að síður tel ég nauðsynlegt að tillagan fari til umsagnar í umhvn. þar sem samræma þarf vinnu nokkurra stofnana og þar á meðal stofnana sem falla undir hæstv. umhvrh.