Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 16. janúar 2001, kl. 18:01:48 (3676)

2001-01-16 18:01:48# 126. lþ. 59.11 fundur 135. mál: #A sveitarstjórnarlög# (lágmarksstærð sveitarfélaga) frv., Flm. JÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 126. lþ.

[18:01]

Flm. (Jóhann Ársælsson):

Hæstv. forseti. Þetta frv. til laga um breyting á sveitarstjórnarlögum, nr. 45/1998, flytja ásamt mér hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, Svanfríður Jónasdóttir, Sigríður Jóhannesdóttir, Kristján L. Möller og Þórunn Sveinbjarnardóttir.

Efnisgreinin er svohljóðandi:

Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:

a. Í stað tölunnar ,,50`` í 1. og 2. mgr. kemur: 1000.

b. Á eftir orðinu ,,samfleytt`` í 1. málsl. 2. mgr. kemur: eftir gildistöku laga þessara.

Greinargerðin er eftirfarandi:

Efling sveitarfélaga er afar mikilvægur þáttur í því að tryggja íbúum landsins góð lífsskilyrði. Mikið var fjallað um hlutverk sveitarfélaganna og möguleika þeirra á að sinna því fyrir tæpum áratug. Jóhanna Sigurðardóttir félmrh. skipaði ,,sveitarfélaganefnd`` í febrúar 1992. Nefndin skilað lokaskýrslu í mars 1993. Í kjölfar aðgerða sem ákveðnar voru af stjórnvöldum í framhaldi af starfi nefndarinnar urðu verulegar breytingar á stærð og fjölda sveitarfélaganna.

Sveitarfélög sameinuðust víða og sums staðar urðu þau afar víðáttumikil.

Viðræður um sameiningu sveitarfélaga standa nú yfir á einhverjum stöðum þannig að þróunin til stærri sveitarfélaga heldur áfram. Fyrir tíu árum voru sveitarfélögin 204 en þau eru nú 124. Þrátt fyrir að mikið hafi áunnist sitja þó víða eftir örsmá sveitarfélög sem geta illa sinnt því sem þeim er ætlað af hinu opinbera og geta ekki heldur veitt þeim sem í þeim búa viðunandi þjónustu miðað við þær kröfur sem gerðar eru almennt í dag í íslensku samfélagi.

Pólitískur vilji til að færa til sveitarfélaganna fleiri verkefni frá hinu opinbera er almennur. Stjórnmálaflokkarnir hafa allir stutt opinberlega þá stefnu. Á Alþingi hef ég orðið var við efasemdaraddir að vísu frá einhverjum þingmönnum vinstri grænna um verkefnaflutning frá ríki til sveitarfélaga. Þessi almenni vilji, almenni pólitíski vilji er ekki síst sprottinn af þeirri staðreynd að slík verkefni skipta sköpum fyrir byggðarlögin til að þau dafni til framtíðar. Það er sannfæring mín og margra annarra að menntastofnanir og rekstur þeirra í heimabyggð sé mikilvægur til að tryggja framtíð búsetu.

Til að hægt sé að reka skóla á framhaldsskólastigi, háskóla eða aðrar æðri menntastofnanir í sveitarfélagi þarf umhverfi sem ekki er hægt að skapa í fámennu sveitarfélagi. Öflug opinber þjónusta og fjölbreytt atvinnulíf þarf að vera til staðar. Ástæða er til þess að ætla að sá pólitíski vilji sem ég nefndi áðan byggist á þeirri forsendu að flest og helst öll sveitarfélög geti veitt svipaða þjónustu og tekið að sér sambærileg verkefni frá hinu opinbera, enda engu lýðræðisþjóðfélagi samboðið að mismuna þegnum sínum í opinberri þjónustu svo sem menntun eða heilbrigðisþjónustu.

Vegna getuleysis fámennra sveitarfélaga til að halda uppi opinberri þjónustu og standa undir þeim kröfum sem fjölbreytt samfélag gerir í dag er verulegur annmarki á flutningi verkefna til allra sveitarfélaga í landinu af þeim ástæðum sem ég nefndi áðan, þ.e. að hið opinbera má ekki mismuna þegnum landsins til grunnréttinda í menntun og opinberri þjónustu. Þess vegna er ekki nóg að pólitískur vilji sé fyrir hendi til að flytja verkefni og þjónustu til sveitarfélaga, efla menntun og styðja þróun til fjölbreytts samfélags. Til þess að sú þróun geti haldið áfram þurfa þau smáu að sameinast og mynda þannig nægilega öflug sveitarfélög til að standa jafnfætis öðrum. Enginn vafi er á því að efling sveitarfélaganna og skilgreining á þeim búsetuskilyrðum sem þau verða að geta boðið og flutningur verkefna til þeirra er forsenda fyrir því að byggð geti haldist víða um land. Af þessum ástæðum ásamt mörgum öðrum er eitt brýnasta verkefni byggðamálanna að styrkja sveitarfélögin á landsbyggðinni.

Einhverjir kunna að segja að þróunin sé í átt til stærri sveitarfélaga og ekki sé ástæða til að þvinga þau til sameiningar. Því er til að svara frá minni hendi að ég var þeirrar skoðunar og ég tel að á undanförnum árum hafi það verið rétt stefna að reyna að leiða fram sameiningar án þess að hækka lágmarksíbúafjöldann með lögum. En margt hefur breyst á undanförnum árum og mikil nauðsyn er á því að koma í veg fyrir að þróunin til öflugri sveitarfélaga tefjist. Það mun hún gera ef áfram verða til lítil sveitarfélög sem eru ekki burðug til að taka við aukinni ábyrgð á þörfum íbúanna.

Ástæðurnar fyrir því að sums staðar hefur sameining sveitarfélaga gengið hægar eru margvíslegar. Gamlar hefðir og áhrif ráðamanna í héraði valda því að hluta til. En mikil breyting hefur orðið á afstöðu manna til sameiningarmála á þeim árum sem liðin eru frá því að lokaskýrsla sveitarfélaganefndarinnar kom út og almennt er sú afstaða miklu jákvæðari en áður. Þó er ekki líklegt að árangur náist í eflingu sveitarfélaga á sumum svæðum. Til eru dæmi um fámenn sveitarfélög á litlum landsvæðum sem eru óumdeilanlega eitt atvinnusvæði og dæmi eru um að þau hafi ítrekað hafnað sameiningu við nágranna sína vegna mismunandi aðstöðu til tekjuöflunar. Þannig hefur misvægi í tekjuöflunarmöguleikum sem ríkið hefur tryggt sveitarfélögunum komið í veg fyrir eðlilega sameiningu sveitarfélaga. Í þessu frv. er gert ráð fyrir að lágmarksstærð sveitarfélaga verði 1.000 manns. Flutningsmenn telja þó að í raun sé 1.000 manna samfélag lítið og vanmegnugt til að tryggja íbúum það búsetuumhverfi sem nú er nauðsynlegt til að treysta byggðina til framtíðar. Samþykkt þessarar tillögu yrði þó mikilvægt skref til að flýta þróuninni til öflugri sveitarfélaga. Ástæða er til þess að hafa í huga að í sveitarfélögum sem hafa orðið til við sameiningu undanfarin ár er víða góður jarðvegur fyrir umræðu um að mynda enn stærri og öflugri sveitarfélög. Þannig virðist sameining smæstu sveitarfélaganna við önnur geta rutt úr vegi fyrirstöðum sem nú tefja þróunina í átt til enn öflugri sveitarfélaga.

Ég er þeirrar skoðunar að sveitarfélögin þurfi að ná þeirri stærð að framhaldsskóli og menntastofnanir á háskólastigi geti þrifist innan vébanda þeirra. Þetta er nauðsynlegt til að nútímaatvinnulíf þróist í iðnaði og þjónustu og þetta er nauðsynlegt til að skapa það nútímasamfélag sem íbúar landsins vilja lifa og starfa í. Þær sameiningar yfir stór landsvæði sem gerðar hafa verið með góðum árangri hafa sannfært mig um að engar óyfirstíganlegar hindranir eru í vegi þróunar af þessu tagi. Þó að einhverjar undantekningar af landfræðilegum ástæðum geti komið til er engin ástæða til að láta slíkt koma í veg fyrir að þessi stefna verði tekin upp.

Afleiðing af stækkun og eflingu sveitarfélaga og flutningi verkefna til þeirra með þeim hætti sem hér er lýst eru margvíslegar. Ég sé ástæðu til að ræða hér aðeins lítillega um þá möguleika á þróun lýðræðisins sem stækkun sveitarfélaga og flutningur verkefna frá ríkinu til þeirra opnar. Með flutningi margs konar þjónustustarfsemi og annarra verkefna svo sem verklegra framkvæmda frá ríki til sveitarfélaga dregur verulega úr ofurtökum framkvæmdarvaldsins í stjórnsýslunni, þ.e. að sú þróun sem hefur verið veruleg og jákvæð hefur áhrif á starfsumhverfi á Alþingi, sem hefur fram á þennan dag verið upptekið af einhvers konar þjónustuhlutverki við sitjandi ríkisstjórnir, framkvæmdarvaldið. Með minnkandi vægi þeirra verkefna sem heyra undir ríkisstjórn er ástæða til að ætla að Alþingi geti farið að sinna löggjafarhlutverki sínu betur og geti að lokum staðið undir nafni sem löggjafarsamkoma sem ekki tekur við fyrirskipunum og ábendingum frá ráðherrum í einu og öllu. Í beinum tengslum við þá þróun sem hér er verið að lýsa, vilja til að hún verði sem hröðust ætti að taka kjördæmamálið til endurskoðunar með það fyrir augum að gera landið að einu kjördæmi, en forsendan fyrir því er að sveitarfélögin eflist og taki við ýmsum af þeim hlutverkum sem eru hjá framkvæmdarvaldinu í dag.

Hæstv. forseti. Hér er hreyft máli sem hefur oft valdið miklum átökum. Þeir sem fylgdust með pólitískri umræðu á sínum tíma þegar sú þróun hófst sem ég var að lýsa áðan muna að heitt var í kolunum víða vegna sameiningarumræðunnar. Og sameiningar sveitarfélaga hafa ekki gengið þrautalaust. En almennt séð hafa slíkar sameiningar orðið til góðs fyrir þau sveitarfélög sem hafa tekið þátt í þeim og þess vegna er full ástæða til að halda því fram að sannast hafi í því sameiningarferli sem hefur verið í gangi að stærri sveitarfélög veita íbúunum öruggari þjónustu, betri og ódýrari þjónustu. En það sem mér finnst ekki síður um vert er það að í þessum öflugu sveitarfélögum sem eru orðin til sums staðar og verða örugglega til í framtíðinni víðar og vonandi um allt land sem allra fyrst er hægt að taka á móti nýjum verkefnum frá hinu opinbera og hægt er að búa til umhverfi, starfsumhverfi í menntun og þjónustu sem er sambærilegt við það umhverfi sem fólk í þéttbýli býr við í dag, en það gerist ekki með litlum veikburða sveitarfélögum sem víða eru um landið og við þurfum því að taka á þessu máli.

Mér er kunnugt um að margir sveitarstjórnarmenn sem voru sömu skoðunar og ég var hér fyrrum, að ekki ætti að þvinga sveitarfélög til sameiningar, eru komnir á aðra skoðun í dag og eru tilbúnir til að ræða málið á þeim grundvelli. Það mun auðvitað ekki skipta sköpum sem slíkt hvort sveitarfélög sameinist og nái því að verða þúsund íbúar. En það mun skipta mjög miklu þegar kemur að því að taka ákvarðanir um að flytja almennt fleiri störf til sveitarfélaganna, fleiri verkefni frá ríkinu. Og verði lítil og vanmáttug sveitarfélög áfram til staðar á Íslandi, þá mun sú þróun stöðvast.

[18:15]

Þess vegna er þetta frv. flutt og auðvitað er það fyrst og fremst flutt til að koma umræðunni í gang á ný, fá hv. alþm. og aðra þá sem hlut eiga að máli til að hefja málefnalega umræðu um hvernig við getum tryggt framtíðina. Ég tel að við megum engan tíma missa. Ég tel að stærð og styrkur sveitarfélaganna skipti gífurlega miklu máli þegar kemur að því að tryggja byggð til frambúðar. Við þurfum þess vegna að bretta upp ermar og taka mjög fast á þessum málum og vinna hratt vegna þess að víða er fólk orðið óþolinmótt og er farið að missa trú á því svæði á landinu sem það býr á. Við höfum mátt horfa upp á fólksflótta utan af landi til þéttbýlissvæðanna í mörg ár og ég tel að þeim flótta verði ekki snúið við og atvinna og búseta verði ekki tryggð til frambúðar í sveitarfélögum um landið öðruvísi en að þau sveitarfélög séu burðug, geti veitt fjölbreytta þjónustu, í þeim sé gott menntunarumhverfi, fjölbreytt atvinnulíf eigi möguleika á að blómstra. Það gerist ekki ef sveitarfélagið er ekki nægilega stórt og öflugt til að þar sé hægt að reka framhaldsskóla, taka við stofnunum frá því opinbera og reka háskóla ef hentar að setja slíka stofnun niður á því svæði.

Þannig þarf að skoða allt landið með það fyrir augum að hægt verði að nýta möguleika hvers svæðis fyrir sig, að fólkið geti átt möguleika til að hafa börnin sín í skólum, í framhaldsskólum í heimabyggð sinni og að atvinnumöguleikar af fjölbreyttu tagi þar sem menntunar er krafist séu til staðar en þeir verða ekki til staðar í þeim litlu og vanmáttugu sveitarfélögum sem eru núna víða.

Þetta frv. er flutt, hæstv. forseti, til að reyna að hafa áhrif á umræðuna, til að reyna að sjá til þess að þróunin haldi áfram, að ekki hægi á henni og hún stöðvist vegna þeirra aðstæðna sem eru nú komnar upp. Það eru fyrirstöður, þeim þarf að ryðja úr vegi, og ég held að það sé ágætt að menn taki þá umræðuna um lágmarksfjölda í sveitarfélögum. Það er auðvitað ekki nýtt, það hefur alltaf verið lágmarksfjöldi í sveitarfélögum en það er langt síðan menn hafa tekist á í umræðu um það hvert það lágmark eigi að vera. Það er núna 50. Að mínu viti eru ekki til nein rök lengur fyrir því að sú tala eigi að vera lágmarkið. Lágmarkið þarf að miðast við sveitarfélög sem geta staðið undir þeim kröfum sem eru nú gerðar á Íslandi en 50 manna samfélög gera það ekki.

Hæstv. forseti. Ég legg til að málinu verði vísað til hv. félmn. þegar það hefur verið rætt.