Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 10:39:23 (3678)

2001-01-17 10:39:23# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, Forseti HBl
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[10:39]

Forseti (Halldór Blöndal):

Forseta hafa borist tvö bréf, annað frá formönnum stjórnarandstöðuflokkanna um að frv. verði vísað frá, hitt frá formönnum þingflokka stjórnarandstöðuflokkanna um að það verði tvöfaldur ræðutími um frv.

Í gær barst forseta svohljóðandi bréf:

,,Það er álit undirritaðra formanna stjórnarandstöðuflokka á Alþingi að frv. til laga um almannatryggingar á þskj. 624 sé óþinglegt með þeim rökum að frv., ef að lögum verður, hrindir dómi Hæstaréttar sem byggður er á ákvæðum stjórnarskrá lýðveldisins, en ákvæði stjórnarskrárinnar hafa þingmenn lagt við drengskap sinn að virða, enda fráleitt að bera fram frv. til laga á Alþingi sem inniheldur lagaákvæði sem brjóta í bága við stjórnarskrá. Því er frv. með öllu óþinglegt og ber að vísa því frá sem óhæfu til afgreiðslu á hinu háa Alþingi. Krafist er úrskurðar hæstv. forseta um þetta efni enda liggi sá úrskurður fyrir áður en frv. verður tekið til umræðu.``

Undir bréfið rita formenn stjórnarandstöðuflokkanna í þessari röð: Sverrir Hermannsson, Steingrímur J. Sigfússon og Össur Skarphéðinsson.

Af þessu tilefni er þess að geta að frv. um almannatryggingar á þskj. 624, sem hefur nú verið tekið á dagskrá, er borið fram með lögformlegum og þinglegum hætti svo sem gildir um stjfrv. Það er lagt fram af ríkisstjórninni og áritað af forseta Íslands sbr. 25. gr. stjórnarskrárinnar, og 5. gr. ríkisráðstilskipunar nr. 82/1943. Öll formskilyrði fyrir framlagningu frv. eru að mati forseta uppfyllt. Hann telur því að engin rök séu fyrir því að vísa málinu frá á þeim forsendum að það sé óþinglegt. Samkvæmt þessu verður umræðu haldið áfram um stjfrv., 379. mál, þskj. 624, sem er á dagskrá. [Þingmenn biðja um orðið.]

Það eru ekki umræður um úrskurð forseta Alþingis. Ég vil óska eftir því að formaður Frjálslynda flokksins gefi mér tóm til að skýra frá þeim bréfum sem mér hafa borist frá stjórnarandstöðunni, frá formönnum þingflokka stjórnarandstöðunnar um þetta mál áður en farið er að kveðja sér hljóðs í þingsölum.

Borist hefur eftirfarandi bréf dagsett, 17. jan. 2001:

,,Með vísan til 3. mgr. 55. gr. laga um þingsköp Alþingis óskum við þess fyrir hönd þingflokka stjórnarandstöðunnar að umræðutími við 1. umr. um frv. til laga um almannatryggingar verði tvöfaldur vegna mikilvægis málsins.`` Bréfið er undirritað í þessari röð: Rannveig Guðmundsdóttir, formaður þingflokks Samfylkingarinnar, Ögmundur Jónasson, formaður þingflokks Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs og Guðjón A. Kristjánsson, formaður þingflokks Frjálslynda flokksins.

Sjálfsagt er að verða við þessari beiðni þar sem forseti hefur orðið var við að þingmenn úr öllum flokkum hafa áhuga á því að láta til sín heyra og að sér kveða um þetta mál.