Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 10:43:03 (3679)

2001-01-17 10:43:03# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, SvH (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[10:43]

Sverrir Hermannsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Forsetinn lét þess getið í framhjáhlaupi á dögunum að hann mundi vera fullnuma í fundarstjórn eftir að hann hefði setið sem ritari þáv. forseta sem hér stendur. Sá forseti gat að vísu ekki sagt honum til um þau fræði sem hér eru til úrlausnar af því sem þá höfðu aldrei verið á þingi né voru menn sem umgengust lög og rétt með þeim hætti sem núverandi stjórnvöld gera.

Það er auðvitað virðulegs forseta að gæta virðingar Alþingis í hvívetna. Það gerir hann ekki með því að taka á dagskrá mál --- og hann ræður hvaða mál hann tekur á dagskrá --- sem ganga beinlínis til þess að hrinda dómi æðsta réttar lýðveldisins og ef að lögum verður að neyða hv. þm. til að rjúfa þann eið sem þeir höfðu unnið þessari heilögu stjórnarskrá.