Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 10:47:07 (3681)

2001-01-17 10:47:07# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, SJS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[10:47]

Steingrímur J. Sigfússon (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég hlýt að lýsa nokkrum vonbrigðum með einmitt fundarstjórn forseta hér og hvernig virðulegur forseti okkar stendur að verki í sambandi við þau umdeildu mál sem hér hefur borið á góma. Ég lít svo til að forseti sé forseti alls þingsins og honum beri sérstaklega sú skylda að standa vörð um heiður þessarar stofnunar og vönduð vinnubrögð hér.

Þar af leiðandi fannst mér rökstuðningur hæstv. forseta áðan ekki í fullu samræmi við hlutverk virðulegs forseta. Meginrökstuðningur forseta gekk út á það að um væri að ræða stjfrv. Stjfrv. er ekki rétthærra öðrum þingmálum í þeim skilningi að það megi koma á dagskrá nema vera þinglegt.

Það er sömuleiðis heldur langsóttur rökstuðningur, herra forseti, að ...

(Forseti (HBl): Ég vil vekja athygli hv. 3. þm. Norðurl. e. á því að úrskurður forseta er ekki til umræðu. Á hinn bóginn hefur hv. þm. aðra möguleika til að láta það mál bera á góma með þinglegum hætti í annan tíma. En úrskurður forseta er ekki til umræðu. Hv. þm. kvaddi sér hljóðs um fundarstjórn forseta og ég óska eftir því að hv. ræðumaður ræði um það.)

Ég vona að aðstoðarmaður forseta bæti við í ræðutíma minn sem fór í ræðuhöld forseta. Ég er að ræða það, herra forseti, hvernig forseti fer hér með hlutverk sitt sem forseti þingsins. Er forseti ósammála því að það sé rætt undir liðnum um fundarstjórn forseta? Og finnst hæstv. forseta það lýðræðislegt og rétt að verki staðið að talsmenn stjórnarandstöðunnar hafi engin tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri í þessu umdeilda máli áður en umræðan hefst? Finnst forseta það til þess fallið að greiða götu skoðanaskipta hér að forseti með aðstoð aðstoðarforseta, þ.e. hæstv. forsrh. sem grípur hér fram í og leiðbeinir forseta, standi þannig að fundarstjórn að það hefti eðlileg skoðanaskipti um þetta mál? (Forseti hringir.) Ég tel að forseti hafi ekki (Forseti hringir.) með eðlilegum hætti brugðist við rökstuddum óskum stjórnarandstöðunnar. (Forseti hringir.)

(Forseti (HBl): Hv. þm. hefur lokið ræðutíma sínum og verður við það að sitja og við það að standa á meðan hv. þm. er í ræðustól að störf þingsins geta ekki haldið áfram. En við erum báðir hraustir menn.)

Ég hef nú sjaldan orðið fyrir því, herra forseti, að ræðutími minn sé að mestu leyti notaður af öðrum og síðan eigi að vísa mér úr (Forseti hringir.) ræðustól.