Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 11:21:21 (3694)

2001-01-17 11:21:21# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[11:21]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er ákaflega ósmekklegt og ómaklegt af hæstv. heilbrrh. að reyna að gera Gauk Jörundsson, fyrrv. umboðsmann Alþingis, fjarstaddan, ábyrgan fyrir þeim mannréttindabrotum sem ríkisstjórnin hefur staðið fyrir. Það er ósmekklegt. Í áliti umboðsmanns Alþingis var fyrst og fremst talað um nauðsyn þess að lagareglur væru skýrar en ekki tekin afstaða til innihalds þeirra.

Einnig er athyglisvert að hæstv. ráðherra eyddi ekki einni sekúndu í að ræða ábyrgð sína á því mannréttindabroti sem hér hefur farið fram. Ég fullyrði að það er séríslenskt fyrirbæri að ráðherra í ríkisstjórn sem staðið hefur fyrir slíku skuli koma til þings og ræða málið eins og tæknilegt mál sem varði á engan hátt embættisfærslur ráðherrans eða ráðherraábyrgð viðkomandi. Hneykslanlegast var þó að heyra hæstv. heilbrrh. reyna að gera þá sem hér eiga í hlut að sérstökum hátekjuhópi og tala í hneykslunartón um það hversu háar heimilistekjur þessi hópur hefur.