Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 11:30:08 (3702)

2001-01-17 11:30:08# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[11:30]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Mér finnst að þessi umræða hafi þegar þróast í jákvæða átt. Hún hefur verið málefnaleg af hálfu hæstv. ráðherra. Hún hefur lagt fram þau rök sem hún telur fyrir því að hún sé að gera rétt. Við erum algjörlega andstæðrar skoðunar og ég ætla síðar í ræðu minni að lýsa fyrir hæstv. ráðherra og hæstv. ríkisstjórn hvers vegna ég er algjörlega andstæður þeirri túlkun sem hér kemur fram af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Það skiptir ákaflega miklu máli finnst mér, herra forseti, að hæstv. ráðherra hefur lýst yfir að koma verði til móts við þá sem verst eru staddir í hópi öryrkja. Þessu erum við sammála, herra forseti. Þessu er stjórnarandstaðan öll sammála. Það liggur fyrir að hver flokkur um sig, vinstri grænir, Samfylkingin og Frjálslyndi flokkurinn hafa fyrir skömmu lagt fram tillögur sem miða að því að hækka grunnlífeyri, sem miða að því að bæta stöðu þeirra allra verst settu. Ég rétti því fram höndina til ríkisstjórnarinnar og segi: Hér er komin leið til sátta, við erum reiðubúin til þess að nota þetta aukaþing til að taka á dagskrá þær tillögur okkar sem varða þetta eða aðrar tillögur sem hæstv. ríkisstjórn kýs að koma fram með til að hækka einnig grunnlífeyrinn þannig að allir, líka þeir sem hæstv. ríkisstjórn kallar hina verst settu, fái auknar ráðstöfunartekjur. Þetta er fallega mælt af hæstv. ráðherrum og ég fagna því að þeir hafi eins og Sál á veginum til Damaskus verið lostnir ljósi að ofan sem hefur skyndilega leitt til þess að þeir hafa séð að þeir hafa ekki gert rétt.

En, herra forseti, um hvað snýst þetta mál? Það snýst um að ríkisvaldið er að gera tilraun til að hunsa Hæstarétt. Þetta snýst í reynd um áframhaldandi brot á stjórnarskránni. Frá mínum sjónarhóli snýst þetta um tilraun framkvæmdarvaldsins til að láta kné fylgja kviði í viðureign sinni sem staðið hefur í nokkur ár við bandalag íslenskra öryrkja. Málið snýst um valdhroka ríkisstjórnar sem finnst að hún ein eigi að ráða öllu og ekki einu sinni Hæstiréttur geti sagt henni fyrir verkum. Þetta snýst um það, herra forseti, að ríkisstjórn Íslands getur ekki tekið ósigri sínum fyrir dómstólum eins og menn heldur misbeitir hún valdi sínu til þess að koma ranglega fram vilja sínum. Það er ömurlegt að fylgjast með þessari framkomu. Þetta er ömurlegur, fáheyrður valdhroki að mínu viti.

Það er vandi að fara með vald. Það er vandi að vera sterkur og mestur er vandinn við að fara með mikið vald. Það hefur hæstv. ríkisstjórn ekki tekist, hún hefur misbeitt valdi sínu. Þegar öryrkjar leituðu loksins réttar síns og fóru með málið fyrir dómstóla þá unnu þeir málið fyrir undirrétti og fyrir Hæstarétti. Hver eru viðbrögð ríkisstjórnarinnar þá? Þeir skrumskæla dóminn, neita að hlíta afdráttarlausri niðurstöðu dómsins og storka síðan öryrkjum og þar með allri þjóðinni með því að segja: Kærið okkur bara aftur, komið þið bara aftur í okkur.

Þeir haga sér eins og ótínt þriðja flokks tryggingafélag í Bandaríkjunum sem segir við þá sem reyna að leita réttar síns: Já, kærið okkur bara, við skulum koma og taka á móti ykkur. Herra forseti. Hvílíkt lýðræði, hvílík reisn yfir einni ríkisstjórn.

Þingmenn eru eiðsvarnir varðgæslumenn stjórnarskrárinnar. Við höfum lagt eið að því að fylgja sannfæringu okkar og það er sannfæring mín, það er sannfæring Samfylkingarinnar og það er sannfæring allrar stjórnarandstöðunnar að það frv. sem hér liggur fyrir sé afbökun og útúrsnúningur á dómi Hæstaréttar. Þess vegna kom aldrei til greina, herra forseti, að aðstoða ríkisstjórnina við að flýta frv. hér í gegn.

Í þessu frv. felst tvennt sem við getum ekki samþykkt:

Í fyrsta lagi felst í því áframhaldandi heimild til að skerða tekjutryggingu vegna tekna maka. Dómur Hæstaréttar segir hins vegar fortakslaust að það sé óheimilt og þetta standist ekki hin nýlegu mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar. Með þessu frv. er enn verið að skerða það sem Hæstiréttur hefur úrskurðað að séu stjórnarskrárvarin, einstaklingsbundin réttindi öryrkjanna. Samkvæmt lýðræðinu hefur Hæstiréttur síðasta orðið hvað sem mönnum kann að finnast um niðurstöðu hans. Hér er um grundvallaratriði að ræða, herra forseti, sem varðar sjálfa stjórnskipunina. Þess vegna teljum við í stjórnarandstöðunni að þetta mál sé fráleitt þingtækt.

Í öðru lagi hyggst ríkisstjórnin einungis greiða öryrkjum fjögur ár aftur í tímann. Ég tel að hún beiti sannast sagna ákaflega hæpnum lagarökum í viðleitni sinni til þess. Á þetta getum við að sjálfsögðu ekki heldur fallist. Það á að greiða öryrkjum allt það fé sem ólöglega hefur verið tekið af þeim. Það liggur fyrir í einróma afstöðu Hæstaréttar að það var ranglega tekið af þeim allar götur aftur til ársins 1994.

Ríkisstjórnin hefur haldið því fram að nauðsynlegt sé að hraða þessu frv. í gegnum þingið til þess að hægt sé að greiða út samkvæmt nýjum lögum strax í upphafi næsta mánaðar. Eins og ég sagði áðan birtist valdhroki og ósvífni ríkisstjórnarinnar gagnvart Alþingi í því að þegar er búið að auglýsa að það eigi að úthluta samkvæmt lögum sem hið háttvirta þing hefur ekki enn rætt, hvað þá samþykkt. Hvers konar vinnubrögð eru þetta?

Ég vil hins vegar að það komi fram, herra forseti, að við teljum ekki nauðsynlegt að samþykkja þetta frv. til þess að hægt sé að greiða öryrkjum út þær bætur sem þeim ber samkvæmt hæstaréttardómi. Í 33. gr. fjárreiðulaganna er heimild sem gerir það að verkum að ef upp koma ófyrirséð atvik þá getur hæstv. fjmrh., í samráði við viðkomandi fagráðherra, greitt út svo fremi sem hann láti fjárln. vita. Herra forseti. Það er ekki svo að hér sé um mjög miklar upphæðir að ræða. Það kemur fram í svari hæstv. heilbrrh. Ingibjargar Pálmadóttur 4. nóv. 1998, framreiknað til dagsins í dag, að þetta muni kosta u.þ.b. 20 millj. kr. á mánuði. Mér er sagt að það þurfi minna til að fullnægja þessum dómi út í hörgul.

Herra forseti. Það er hreystilega mælt af þeim sem fór ekki bara 100% heldur 100 millj. fram úr fjárheimildum til að útbúa veislusali sína í Þjóðmenningarhúsinu að koma og segja að það séu ekki til fjárheimildir. Þetta er einfaldlega rangt, herra forseti.

Telji menn einhver tormerki á því að fara þessa leið sem ég hef lýst hér þá vil ég vísa til þess að Eiríkur Tómasson, prófessor í lagadeild háskólans, segir í viðtali við Ríkisútvarpið á næstsíðasta degi síðustu aldar að hann fallist á að til greina hefði komið að byrja að greiða út bæturnar 1. janúar án tekjutengingar. Hann segir að vísu að hann telji að það sé skylda ríkisstjórnarinnar að leggja fram lagafrv. hið fyrsta en hann telur sem sagt að sú leið sé fær.

Herra forseti. Kröfur Öryrkjabandalagsins, sem þetta mál snýst um, voru tvíþættar og má orða þær með eftirfarandi hætti: Í fyrsta lagi að það verði viðurkennt að ekki hafi verið lagastoð fyrir reglugerð sem tók gildi 1. jan. 1994, um skerðingu tekjutryggingar öryrkja vegna tekna maka. Sú reglugerð gilti til loka 1998. Í öðru lagi að lög um slíka skerðingu, sem tóku gildi 1. jan. 1999, væru í andstöðu við mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar. Það ríkir enginn ágreiningur um fyrri kröfuna, allir fimm dómarar Hæstaréttar sem og héraðsdómur samþykktu hana athugasemdalaust. Það er ákaflega mikilvæg niðurstaða tel ég, ekki síst hversu óumdeild hún er þegar að því kemur að meta hversu langt aftur í tímann eigi að greiða öryrkjum. Meiri hluti Hæstaréttar samþykkti líka afdráttarlaust seinni kröfuna. Í dómsorðinu segir einfaldlega klárt og kvitt:

,,Einnig er viðurkennt að óheimilt hafi verið að skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega í hjúskap frá 1. janúar 1999 ...`` --- þar er vísað til tilsvarandi ákvæða í almannatryggingalögunum, þ.e. 5. mgr. 17. gr.

Mér finnst að tæplega sé hægt að orða þetta skýrar. Samþykkt þessarar kröfu skiptir líka höfuðmáli vegna þess að hún felur það í sér að tenging við tekjur maka er óheimil til frambúðar í þessu tilviki. Þetta var höfuðkrafa Öryrkjabandalagsins og Hæstiréttur tók undir hana án nokkurra fyrirvara.

Niðurstaðan er skýr og um það deila t.d. ekki menn eins og Eiríkur Tómasson, sem sagði í fyrrnefndu viðtali að hann teldi að dómur Hæstaréttar í máli Öryrkjabandalagsins gegn Tryggingastofnun væri viðurkenning á því að tekjutenging makans væri ólögmæt og niðurstaðan bindandi fyrir ríkið.

Ef einhver efast um að Hæstiréttur hafi í reynd verið að taka efnislega afstöðu til inntaks og umfangs opinberrar aðstoðar til öryrkja í sambúð, þ.e. tryggja öryrkjum tiltekið lágmark, þá þurfa menn í sjálfu sér ekki að hafa fyrir því að lesa dómsforsendurnar sjálfar, þ.e. álit meiri hlutans, heldur nægir að lesa það sem minni hlutinn segir, en í séráliti minni hlutans segir á einum stað, með leyfi forseta:

,,Það er verkefni löggjafans en ekki dómstóla að kveða á um inntak og umfang þeirrar opinberu aðstoðar, sem öryrkjum er látin í té.``

Hvers vegna, herra forseti, tekur minni hlutinn svona til orða? Röksemdafærsla af þessu tagi væri vitaskuld óþörf og málinu óviðkomandi ef niðurstaða Hæstaréttar, sem minni hlutinn er hér að andmæla, hefði ekki einmitt verið sú að Hæstiréttur var að kveða á um inntak og um umfang aðstoðarinnar. Og það er athyglisvert að þetta var ekki bara skilningur þessara tveggja dómara heldur fjölmargra stjórnarliða, m.a. hv. þm. Péturs H. Blöndals og fleiri sem hafa kvartað undan því að Hæstiréttur hafi bundið hendur þeirra, löggjafans, með dómnum. Í því hlýtur auðvitað að liggja nákvæmlega þessi skilningur því ella væru þeir ekki að kvarta undan þessu.

Mér finnst líka merkilegt, herra forseti, að sjálfur háyfirdómarinn yfir lýðveldinu, Jón Steinar Gunnlaugsson, hefur í viðtölum upplýst nákvæmlega sama skilning á því hvað fólst í niðurstöðu Hæstaréttar eins og ég les þann ágæta mann. Í helgarblaði Dags sagði hann svo, með leyfi forseta:

,,En það getur ekki verið hlutverk dómstóla að ákveða að ekki eigi að miða svona styrki við tekjur maka. Það er þetta sem ég hef gagnrýnt við þennan dóm, dómstóllinn var að þessu leyti að taka sér vald sem hann á ekki að hafa.``

Og í helgarblaði DV segir Jón Steinar Gunnlaugsson að dómstóllinn hafi gengið lengra en heimilt gæti talist og bætir við, með leyfi forseta:

,,Það verða til mikil vandamál þegar dómstólar taka að móta reglur sem á undir löggjafann að setja.``

Hvað er hæstvirtur háyfirdómari lýðveldisins að segja þarna? Hann er að segja að dómstóllinn hafi ekki aðeins ákveðið að ekki eigi að miða svona styrki við tekjur maka, heldur hafi rétturinn líka mótað reglur. Og hvað þýðir það? Hæstiréttur var með öðrum orðum ekki að fela háyfirdómaranum að móta nýjar skerðingarreglur. Ef slíkt hefði hvarflað að Hæstarétti hefði hann haft margvísleg ráð til að koma þeim skilaboðum skýrt á framfæri í texta sínum.

Samt sem áður hafa nokkrir hæstv. ráðherrar, að ónefndri nefnd þessara fjögurra spekinga sem ég hef vísað til, reynt að skrumskæla þessa niðurstöðu, reynt að afbaka hana eins og hægt er með því að slíta úr samhengi setningar og lesa eitthvað allt annað út úr dómnum en þar stendur.

Herra forseti. Um dómsorðið sjálft er að sjálfsögðu ekki hægt að fjalla án þess að hafa ríkt í huga þær kröfur Öryrkjabandalagsins sem ég hef rifjað upp fyrr í ræðu minni. Þess vegna er ákaflega brýnt að fara ítarlega yfir hvað dómsorðið segir um þetta, hvað segir í forsendum dómsins og reifa þann skilning sem háyfirdómarinn er ranglega að reyna að skeyta inn í dóminn eftir á.

Herra forseti. Í dómnum er m.a. bent á að víða sé tekið tillit til hjúskaparstöðu fólks. Það er minnt á skattalög og það er minnt á ákvæði laga um félagslega aðstoð. Og svo segir orðrétt í dómnum, með leyfi hæstv. forseta:

,,Talið hefur verið að einstaklingur í hjúskap eða sambúð þurfi minna sér til framfærslu en sá sem býr einn. Getur það því átt við málefnaleg rök að styðjast að gera nokkurn mun á greiðslum til einstaklinga úr opinberum sjóðum eftir því hvort viðkomandi er í sambúð eða ekki.``

Herra forseti, þetta er skýr íslenska. Hæstiréttur segir: Það má taka tillit til hjúskaparstöðunnar með því að ákveða öryrkja í sambúð lægri bætur en ella og taka þannig tillit til þess fjárhagslega hagræðis sem hann hefur af sambúðinni. Punktur. Þarna er engin vísbending um það að þar að auki megi tekjur makans virka til skerðingar.

En hvernig er þetta í reynd, herra forseti? Hvernig er bótum öryrkja háttað í dag? Þær samanstanda af grunnörorkulífeyri, tekjutryggingu, heimilisuppbót og sérstakri heimilisuppbót. Þar af eru heimilisuppbótin og hin sérstaka heimilisuppbót samtals 22.556 kr. Ef þetta ágæta fólk verður hins vegar þeirrar hamingju aðnjótandi að verða ástfangið, leyfir sér þann munað að giftast og fara í sambúð, eins og allir eiga rétt á, þá missir það þessar uppbætur. Það kostar 22.566 kr. á mánuði að verða ástfanginn og giftast. Það kostar 270.272 kr. á ári að fara í sambúð. Þetta jafngildir 30,67% af heildarbótunum.

Hefur Öryrkjabandalagið mótmælt missi þeirra bóta þegar kemur til sambúðar? Nei. Öryrkjabandalagið viðurkennir í reynd með málflutningi sínum fyrir Hæstarétti að það sé ákveðið hagræði af sambúðinni og gerir enga athugasemd við það að einstaklingar tapa 30,67% af lífeyri sínum við það eitt að verða ástfangnir og fara að búa saman og eignast börn.

Öryrkjabandalagið, líkt og Hæstiréttur segir í forsendum sínum, fellst á að gera greinarmun á greiðslum eftir því hvort viðkomandi er giftur, í sambúð, eða ekki. En með því, herra forseti, að fallast á missi þessara 30% þá er búið að gera þennan greinarmun og reyndar miklu meiri en réttlætið og önnur lög sem hægt væri að vísa til segja til um. Þessi orð Hæstaréttar, sem eru þegar uppfyllt, eru hins vegar aðalröksemd starfshópsins fyrir því að viðhalda skerðingu tekjutryggingar vegna tekna maka en bara að haga henni öðruvísi, eins og hæstv. ráðherra sagði: Með öðruvísi hætti, því það er bara með þessum hætti, segir hún, sem er í lögunum núna, núverandi fyrirkomulag tekjuskerðingar út frá tekjum maka sem er óheimil.

Herra forseti. Ég ætla að koma því síðar í ræðu minni. Ég vil hins vegar ítreka það að í orðum Hæstaréttar get ég hvergi fundið neitt sem vísar til þess að minnst sé á tekjur maka með þessum hætti, hvað þá að greiðslur til öryrkjans megi á einhvern hátt ráðast af þeim enda var það augljóslega skoðun meiri hluta Hæstaréttar að það ætti ekki að skerða bætur öryrkjans með þeim hætti. Þetta finnst mér vera geirneglt, herra forseti, þegar menn skoða viðhorf ekki meiri hluta dómsins, heldur minni hlutans sem bersýnilega leggur sama skilning í dómsorð meiri hlutans og ég er hér að lýsa.

[11:45]

Tveir af þessum fimm dómurum voru á öðru máli um nákvæmlega þetta atriði. Þeir töldu það vera, með leyfi forseta, málefnalegt löggjafarviðhorf að taka nokkurt mið af því við lagasetningu hvers stuðnings öryrki megi vænta af maka sínum og svo segja þeir:

,,Engin ákvæði í alþjóðlegum skuldbindingum Íslands mæla því í gegn, að greiðslur til öryrkja séu í einhverjum mæli látnar ráðast af tekjum maka og þar með heimilisins.``

Hví les ég þetta, herra forseti? Vegna þess að nákvæmlega þetta var það sem skildi á milli Hæstaréttar og minni hluta réttarins. Minni hlutinn taldi að greiðslur til öryrkja mættu í einhverjum mæli ráðast af tekjum maka og það var þetta sem skildi hann frá meiri hluta Hæstaréttar sem var því samkvæmt skilningi tvímenninganna í minni hlutanum að segja hið þveröfuga. Hann var að segja að greiðslur ættu ekki að ráðast af tekjum maka. Þetta segir minni hlutinn. Svona einfalt er þetta.

Þetta reynir ríkisstjórnin hins vegar með hinn nýja háyfirdómara í broddi fylkingar að snúa á haus. Þeir lesa dóminn eins og skrattinn les Biblíuna og halda því blákalt fram að meining meiri hlutans hafi verið þveröfug við það sem kemur fram. En það eru hvergi í forsendum dómsins, sem er aðallega að finna í IV. og V. kafla, vísbendingar um að Hæstiréttur telji tengingu bóta við tekjur maka vera í lagi. Aftur á móti finn ég þar fjölmargar vísbendingar, fjölmargar yrðingar sem sýna ótvírætt fram á hið gagnstæða. Þar segir t.d., með leyfi forseta:

,,Tekjur maka skipta ekki máli við greiðslu til dæmis slysatrygginga, sjúkratrygginga, atvinnuleysistrygginga og fæðingarstyrks.``

Síðan kemur þessi lykilsetning, herra forseti:

,,Verður að telja það aðalreglu íslensks réttar að réttur einstaklinga til greiðslna úr opinberum sjóðum skuli vera án tillits til tekna maka.``

Er hægt að orða þetta skýrar? Til þess að sýna hvað rétturinn er nútímalegur og fylgist vel með framvindunni þá bætir hann við:

,,Er það í samræmi við þá stefnumörkun sem liggur að baki íslenskri löggjöf um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 28/1991, sbr. og 2. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar.``

Herra forseti. Mér finnst að það sé ekki hægt að orða þetta skýrar.

Á þessi atriði sem ég var að lesa hérna og eru lykilatriði er ekki minnst einu orði í skýrslu háyfirdómsins, starfshópsins. Mér finnst að þarna sé einfaldlega verið að segja það ákaflega skýrt að að telja verði að það sé aðalreglan í réttarkerfi okkar að réttur einstaklinga til greiðslna úr opinberum sjóðum skuli vera án tillits til tekna og það er einmitt vísað til svipaðra fordæma sem eru sjúkratryggingar, slysatryggingar, atvinnuleysistryggingar, fæðingarstyrkur.

Herra forseti. Hæstv. ríkisstjórn hangir á einu hálmstrái varðandi þennan prýðilega texta Hæstaréttar. Það eru niðurlagsorðin í V. kafla þar sem segir að viðurkennd sé krafa Öryrkjabandalagsins um að, eins og þar segir orðrétt: ,,... að viðurkennt verði að óheimilt hafi verið að skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega í hjúskap frá 1. janúar 1999 á þann hátt sem gert er í 5. mgr. 17. gr. laga nr. 117/1993, sbr. 1. gr. laga nr. 149/1998.``

Þessa setningu hefur bæði hæstv. utanrrh., hæstv. heilbrrh. en þó aðallega háyfirdómurinn, starfshópur ríkisstjórnarinnar, túlkað með þeim hætti að það væri í lagi gagnvart stjórnarskránni að skerða tekjutryggingu með tekjum makans bara ef það yrði gert ekki á þann hátt sem nú er gert heldur með öðrum hætti. Og þetta, herra forseti, þetta er lykil\-atriði í deilu okkar um túlkun á niðurstöðu dómsins, ekki bara vegna þess að hún skýrir vilja Hæstaréttar um þessa umdeildu tegund tekjutengingar heldur líka vegna þess að hún vísar til meðferðar á öðrum tekjutengingum sem hæstv. heilbrrh. virðist ekki hafa skilið því hún virðist ekki hafa farið nógu djúpt í dóminn.

Um hvað fjallar 17. gr. almannatryggingalaganna sem hér er verið að vísa til? Hún fjallar um skerðingu tekjutryggingar, vegna hvers? Tekna öryrkjans sjálfs, vegna lífeyrissjóðstekna og síðan í téðri 5. mgr. er einmitt fjallað um skerðingar vegna tekna maka. Dómurinn er því klárlega að segja að heimilt sé að skerða tekjutryggingu öryrkjans áfram með þeim hætti sem er gert í fyrri málsgreinum, þ.e. vegna eigin tekna, vegna lífeyrissjóðstekna en --- svo ég lesi aftur orðrétt úr dómnum, ekki á þann hátt sem gert í 5. mgr. lagaákvæðisins, þ.e. í krafti tekna makans.

Þetta er algjörlega kristaltært, herra forseti, þannig að þeir sem halda öðru fram hafa ekki lesið dóminn nógu djúpt og þeir hafa ekki samlesið hann við hinar einstöku málsgreinar 17. gr.

Þetta orðalag, herra forseti, sem menn hafa verið að vísa til þarna er ákaflega mikilvægt. Það staðfestir ekki skilning hæstv. ríkisstjórnarinnar heldur þvert á móti þá staðfestir það endanlega að Hæstiréttur telur óheimilt að nota tekjur maka til þess að skerða tekjutrygginguna en hann segir líka að annars konar tekjutengingar séu heimilar. Þetta er kristaltært.

Herra forseti. Endurgreiðslurnar á því sem tekið var með ólögmætum hætti af öryrkjum eru annað ákaflega þungt deilumál sem tengist þessu frv. Ég verð að segja að það er ákaflega sérkennilegt, svo ekki sé meira sagt, að í frv. ríkisstjórnarinnar er bara gert ráð fyrir að greiða bætur vegna ólögmætrar skerðingar fjögur ár aftur í tímann. Það er meira að segja lagt út eins og sérstök gustuk til öryrkja og til að sýna fram á alveg einstaka mannúð hæstv. ríkisstjórnar þá er þess getið að það séu nú í reynd lagarök til þess að ríkisstjórnin gæti sloppið með tvö ár. Þetta er öll manngæskan eftir jólin.

Herra forseti. Dómur Hæstaréttar fjallar um mannréttindi og hann fjallar um brot á mannréttindum. Hæstiréttur segir það alveg skýrt að mannréttindi voru brotin á öryrkjum í sjö ár. Niðurstaða réttarins er að fyrstu fimm árin hafi það verið af því að heimild skorti til að skerða tiltekin mannréttindi í lögum. Um þetta deila menn ekki eins og ég hef áður rakið. Seinni tvö árin eftir að heimildin var sett í lög á hinum fræga næturfundi í þessum sal í desember 1998 taldi Hæstiréttur að með breytingunni sem var gerð á mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar 1995 væru lögin óheimil samkvæmt stjórnarskránni og skerðing á tekjum öryrkja vegna makateknanna væri brot á þessum mannréttindaákvæðum. Það liggur því alveg fyrir ótvíræður dómur um réttarbrot og þetta réttarbrot fólst í því að ríkið tók með ólögmætum hætti fjármuni af öryrkjum sem áttu þó fyrir í ákaflega krappri stöðu.

Nú er það svo, herra forseti, að samkvæmt íslenskum lögum leiða réttarbrot til skaðabótaskyldu þess sem brotið fremur. Í þessu tilviki er það Tryggingastofnun ríkisins fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og samkvæmt íslenskum lögum fyrnast skaðabótakröfur á tíu árum. Á þessum grundvelli tel ég engan vafa leika á því að ef einstakir öryrkjar færu í málshöfðun með vísan til þessa þá mundi fyrir rétti verða fallist á þá kröfu að þeim yrði endurgreitt það sem ríkið tók með ólögmætum hætti af þeim sjö ár aftur í tímann, allan hinn umdeilda tíma. Mér finnst að eftir það sem á undan er gengið, eftir þessa áralöngu viðureign Öryrkjabandalagsins og ríkisstjórnarinnar hefðu menn nú að átt að sjá sóma sinn í því að freista þess að setja niður deilurnar með því að verða við þessu.

Hér er ekki um venjulegt réttarbrot að ræða, hér er um mannréttindabrot að ræða. Það finnst mér skipta ákaflega miklu máli, það hlýtur að skipta máli fyrir hæstv. heilbrrh. að hún er með það á bakinu að hafa brotið mannréttindi á þeim hópi sem er einna erfiðast settur í ríkinu. Auðvitað hlýtur það að skipta máli þegar menn fara að afgreiða svona hluti.

Starfshópurinn segir hins vegar að ekki eigi að líta á þetta sem brot sem leiði til skaðabótaskyldu fyrir ríkið, þeir líta á þetta sem framfærslukröfu. Þeir horfa aftur til ársins 1905 þegar voru sett lög þar sem er að finna almenn ákvæði um fyrningu skulda og þar er t.d. að finna ákvæði um það ,,... að kröfur um gjaldkræfan lífeyri fyrnist á fjórum árum.`` Hinir vísu menn í þessum vitringahópi segja: ,,Sýnist þessi regla eiga hér beint við.`` Þeir gera ákaflega lítið úr hinni siðferðilegu ábyrgð ríkisstjórnar sem hefur orðið uppvís að því að brjóta mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar á öryrkjum. Nei, nei, þeir hugsa ekkert um það.

Við skulum samt gefa okkur að þessi starfshópur hafi rétt fyrir sér, að lögin frá 1905 eigi við um þessar kröfur. Samkvæmt því fyrnast þær á fjórum árum. En lögin segja líka alveg fortakslaust að fyrningin sé rofin ef mál er höfðað vegna brotsins. Í þessu tilviki sýnist mér að það liggi algjörlega kristaltært fyrir að fyrningin var rofin með kæru Öryrkjabandalagsins fyrir tveimur árum þannig að jafnvel þó að starfshópurinn hefði rétt fyrir sér ætti ríkið að greiða sex ár aftur í tímann. Þetta finnst mér að allir sæmilega vel gerðir menn ættu að geta skilið.

Ríkisstjórnin er hins vegar einhverra hluta vegna í stríðshugleiðingum við Öryrkjabandalagið. Hún vill láta kné fylgja kviði og hún hefur búið til eigin hæstarétt og hún getur einfaldlega ekki sætt sig við það að hún tapaði fyrir Hæstarétti og í öllum málum sem tengjast Öryrkjabandalaginu virðist hún ætla að láta neyta aflsmunar.

Þess vegna kórónar hún skömm sína með því að hafna því að fyrningunni hafi í reynd verið slitið með útgáfu stefnunnar 1998. Samt liggur það ótvírætt fyrir að ekki bara undirréttur heldur líka Hæstiréttur hefur talið að Öryrkjabandalagið sé réttur fyrirsvarsaðili fyrir og fullgildur málsvari allra öryrkja. Fjórmenningarnir eru annarrar skoðunar og það stendur einfaldlega, segir ríkisstjórnin.

Ég spyr nú: Hvað segir sá hæstv. ráðherra nú sem sagði fyrir tveimur árum að þetta mál snerist ekki um lögfræði heldur siðfræði? Er þetta siðlegt? Ég spyr hæstv. ráðherra.

Ráðherrann hefur lýst því yfir að hún vilji sátt um þetta erfiða mál. Það skil ég vel, hún er í ákaflega þröngri stöðu. Ég verð að segja það að mér sýnist sem hún sé grátt leikin af einkavinum sínum sem sitja henni til vinstri handar á ráðherrabekknum. Mér finnst illa farið með ráðherra sem er knúin til þess að leggja fram frv. eins og þetta eftir að hafa gefið þær yfirlýsingar sem fram komu ársfundi Tryggingastofnunar fyrir tveimur árum. Ég skil það vel að hæstv. ráðherra vill sátt í þessu máli. En hvernig byrjaði hún sáttina? Hún byrjaði sáttina með því að fallast á kröfu sem var bersýnilega komin úr öðru ráðuneyti um að sett yrði saman sérstök nefnd til að vinna úr dómsniðurstöðunni, nefnd þar sem allir sem í henni sitja, allir, komu úr röðum þess aðila sem tapaði í málinu, þ.e. frá framkvæmdarvaldinu. Sáttin við öryrkja byrjar svo með því að skipaður er formaður í þessari nefnd sem deginum áður lýsir því yfir í fjölmiðlum að hann sé algjörlega á móti niðurstöðunni. Er þetta heppileg aðferð til þess að ná málefnalegri sátt við öryrkja, málefnalegri sátt við þjóðina um þetta mál? Að sjálfsögðu ekki.

Þetta var ekki málefnalega að farið enda kom í ljós, herra forseti, að nefndin vann ekki málefnalega. Niðurstaða þessarar nefndar --- ja, hún er náttúrlega ekki í samræmi við niðurstöðu Hæstaréttar sem við höfum margsinnis rakið. En þetta var ekki bara niðurstaða stjórnarandstöðunnar, þetta var niðurstaða ólíklegustu afla í samfélaginu. Ég lái t.d. ekki leiðarahöfundi Morgunblaðsins sem komst að eftirfarandi niðurstöðu í forustugrein 11. janúar eftir að sérfræðingahópurinn skilaði af sér til ríkisstjórnarinnar en þar segir, með leyfi forseta:

,,Starfshópurinn túlkar dóminn hins vegar þröngt eins og raunar kemur fram í skýrslunni. Þótt um sé að ræða svonefndan viðurkenningardóm er rök fyrir þeirri þröngu túlkun ekki að finna í dómsorðinu sjálfu þar sem Hæstiréttur fellst án fyrirvara á kröfugerð Öryrkjabandalagsins.``

Leiðarahöfundur Morgunblaðsins er að segja það í fyrsta lagi að fyrirvaralaust hafi verið fallist á körfugerð Öryrkjabandalagsins og að starfshópur ríkisstjórnarinnar hafi ekki rök fyrir þeirri þröngu túlkun á dómsorðinu sem kemur fram í frv. sem við erum að lesa hér.

Herra forseti. Ég vil færa frekari rök fyrir þeirri staðhæfingu minni að nefndin hafi ekki unnið málefnalega. Í skýrslunni er ákaflega víða gefin sú mynd að vandaðir útreikningar og ákaflega ítarleg röksemdafærsla liggi að baki niðurstöðum nefndarinnar. Og m.a. er lyft þessari setningu sem ég hef nokkrum sinnum rakið úr dómsforsendum Hæstaréttar að það geti átt við málefnaleg rök að styðjast að gera mun á bótagreiðslum eftir því hvort menn eru í sambúð eða ekki, þ.e. öryrkjarnir. Þetta er forsenda meginniðurstöðu sérfræðinga ríkisstjórnarinnar sem felst í reynd í því að það er haldið áfram að skerða tekjutryggingu með tengingu við makatekjurnar.

[12:00]

Með því að vísa til þessara sjónarmiða Hæstaréttar leggja sérfræðingarnir til að núverandi kerfi verði óbreytt, þó þannig eins og hæstv. heilbrrh. rakti, að tekin er upp sérstök sérregla sem á að tryggja ákveðinn lágmarksrétt lífeyrisþega sem eru í hjúskap ef makinn er ekki örorkulífeyrisþegi. Sérreglan hljóðar upp á að eigin tekjur öryrkjans að viðbættri tekjutryggingu geti aldrei, þrátt fyrir skerðingu vegna tekna maka, farið niður fyrir 25 þús. á mánuði. Þetta þýðir að þegar búið er að bæta við grunnlífeyrinum, þá fer enginn lífeyrisþegi vegna tengingar við makatekjur niður fyrir 43.424 kr. á mánuði. Þetta er að þeirra dómi lágmarkið sem þeir þurfa til þess að fullnægja stjórnarskránni. Eftir að hafa lýst þessari sérreglu segja sérfræðingarnir svo orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

,,Við ákvörðun á viðmiðunarfjárhæð þessarar sérreglu er rétt að taka tillit til þess, sem fram kemur í dómsforsendum Hæstaréttar, að það geti átt við málefnaleg rök að styðjast að gera nokkurn greinarmun á greiðslum til einstaklinga úr opinberum sjóðum eftir því hvort viðkomandi er í sambúð eða ekki.``

Síðan segir: ,,Starfshópurinn telur, að með þeim fjárhæðum sem að framan greinir sé fullnægt þeim kröfum sem í dómi Hæstaréttar felast`` --- þ.e. kröfunum um hin málefnalegu rök.

Ég spurði hæstv. utanrrh. í sjónvarpsþætti um daginn: Hver eru hin málefnalegu rök fyrir þessari upphæð? Hann gat ekki rakið þau fyrir mér. Hæstv. heilbrrh. gat ekki flutt þessi málefnalegu rök. Hver eru þessi málefnalegu rök? Við finnum þau ekki, þannig að niðurstaðan sem sérfræðingahópurinn segir að grundvallist á svo málefnalegri vinnu og ítarlegri röksemdafærslu er eins ómálefnaleg og hægt er að hugsa sér í reynd. Hún er byggð á þeirri blekkingu að dómurinn feli í sér að hægt sé að réttlæta tekjutryggingu svo fremi sem það sé gert með einhverjum öðrum málefnalegum hætti, en hvergi er skýrt hver hin málefnalega rökleiðsla er að þessari niðurstöðu. Mér finnst að í þessu felist óleysanleg þverstæða sem ómerkir meginniðurstöður nefndarinnar og þar með þess frv. sem við höfum hér, herra forseti.

Mér sýnist að það sem hér er verið að gera sé einfaldlega það að þvæla öryrkjum út í enn ein málaferlin. Það á að pína þá til að fara aftur í málaferli við ríkisvaldið. Þeir eru búnir að vinna málið tvisvar sinnum og það á enn og aftur að ráðast á þá á þennan hátt. Mér finnst það ósæmilegt, herra forseti.

Herra forseti. Tenging tekna maka við tekjutryggingu var tekin upp árið 1972, held ég, og undir mismunandi ríkisstjórnum hefur hún viðgengist allar götur síðan. Á sínum tíma þótti slík tenging sjálfsögð. En eins og ég hef rakið hafa breytt viðhorf m.a. til jafnrar stöðu kynjanna en ekki síst breytt viðhorf til annarra mannréttinda, ekki síst lögvarinna réttinda einstaklingsins, átt mikinn þátt í því að menn líta öðrum augum á þá tegund tekjutengingar en áður. Þess vegna var ákaflega athyglisvert, eins og ég sagði áðan, að Hæstiréttur lagði til grundvallar í niðurstöðu sinni breytt lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla frá árinu 1991. En skerðingin eins og hún var a.m.k. áður var ákaflega kvenfjandsamleg. Fram kom að 2/3 hlutar þeirra sem skerðingin bitnaði á voru konur.

Nú er það svo, herra forseti, að í auknum mæli eru þjóðirnar farnar að taka upp í stjórnarskrár sínar svokallaða aðra kynslóð mannréttinda, réttindi sem varða bæði félagsleg og efnahagsleg réttindi einstaklingsins sem stjórnarskráin ver gegn íhlutun ríkisins. Það voru Íslendingar að gera árið 1995 þegar mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar var breytt. Fróðlegt er að lesa ræðu hæstv. fjmrh. Geirs H. Haardes sem þá var formaður nefndarinnr og 1. flm. sem lagði á það skýra áherslu að hér væri verið að brjóta í blað því verið væri að taka upp ákvæði um félagsleg og efnahagsleg mannréttindi og það ættu ekki að vera nein skrautákvæði. Þau ættu að verða virk.

Það er einnig athyglisvert og skiptir máli í þessari rökræðu að fram til ársins 1995 voru ákvæðin í stjórnarskrá um rétt til bóta úr almennum sjóðum á þann veg að sá sem væri á skylduframfæri annars manns ætti ekki rétt á bótum. Og í reynd mátti lesa þetta þannig að öryrkjar í hjúskap ættu ekki rétt á bótum úr almennum sjóðum.

Það er ákaflega athyglisvert að lesa hvað virtur fræðimaður við Háskóla Íslands, sem hæstv. heilbrrh. vísaði til hérna áðan, Stefán Ólafsson, segir um nákvæmlega þetta atriði en hann gaf út bók sem heitir Íslenska leiðin og fjallar um stöðu íslenskra öryrkja og mætti þess vegna allt eins kalla Íslensku neyðina, en þar segir hann, með leyfi forseta:

,,Þá er önnur beiting skerðingarreglna í almannatryggingakerfinu á Íslandi einnig fátíð, en það er skerðing lífeyris öryrkja vegna tekna maka þeirra. Sú regla er arfleifð gömlu fátækraaðstoðarinnar frá fyrri öldum, þar sem framfærsluskylda var lögð á fjölskylduna eða ættingja í heild áður en til fátækraaðstoðar gæti komið með tilheyrandi athugun og þörf og því hvort hinn fátæki verðskuldaði aðstoðina.

Hugmyndafræði almannatrygginga, sem leysti gömlu fátækraaðstoðina að mestu af hólmi á 20. öldinni, gengur gegn þessari hugsun að örorkulífeyrisþegi hafi ekki fullan borgararétt og beri skarðan framfærslurétt ef maki hans hefur einhverjar tekjur, ...``

Síðan heldur þessi fræðimaður áfram: ,,Þess vegna hafa vestrænar þjóðir horfið frá slíkri framkvæmd almannatrygginga nú á dögum. Framkvæmd þessarar reglu á Íslandi rýrir mjög kjör þeirra öryrkja sem fyrir verða, samkvæmt mati OECD á kjarastöðu lífeyrisþega í aðildarríkjunum og það kemur einnig fram í skýrslu forsætisráðherra vorið 1999 um stöðu öryrkja. En félagsleg og sálræn áhrif slíks fyrirkomulags eru þó enn alvarlegri því öryrki í slíkri stöðu er að hluta rændur sjálfstæði sínu og mannlegri reisn.``

Herra forseti. Þetta segir allt sem segja þarf um þá stöðu sem áður var. Þess vegna skil ég svo mætavel að hæstv. heilbrrh. lýsti því yfir 1998 að þetta væri óréttlæti sem hún ætlaði sér að afnema. Þess vegna er það sorglegt og hryggilegt að hæstv. ráðherra skuli nú vera lent í þeirri skelfilegu stöðu sem hún er í í dag.

Vendipunkturinn í þessari umræðu var því breytingin á mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar og ég held líka að vendipunkturinn á afstöðu hæstv. heilbrrh. þegar hún lýsti þessu yfir hafi einmitt verið sá að hún vildi hverfa frá þessari skerðingu vegna þess að hún skildi hvað í þessu fólst.

Stjórnarsinnar segja gjarnan, herra forseti, að þeir vilji byggja á fjölskyldunni sem grunneiningu og fjölskyldan sé grundvöllur þjóðfélagsins. Hér á landi eru 8.700 öryrkjar. Þar af eru 5.124 einstæðir, þ.e. ekki í hjónabandi. Sjá menn hlutföllin í þessum hópi? Hvað segir þetta okkur, herra forseti. Það segir okkur það að bótakerfið hefur verið hjónabandinu, grunneiningu samfélagsins, ákaflega andstæð. Þessar tölur gefa til kynna að fólk geti ekki gift sig, geti ekki notið sömu lífshamingju og við hin út af ranglátu kerfi. Er þetta fjölskylduvænt, herra forseti?

Ég held, herra forseti, að hæstv. ríkisstjórn sé að fara út á ákaflega hála braut. Ég hef í ræðu minni fært rök að þeirri skoðun okkar í Samfylkingunni að það frv. sem hér liggur fyrir sé áframhald á þeirri skerðingu sem Hæstiréttur hefur dæmt ómerka, sé áframhaldandi brot á stjórnarskránni og það kemur ekki til mála, segi ég, að Alþingi Íslendinga verði einhvers konar stimpilpúði fyrir stjórnarskrárbrot ríkisstjórnarinnar.