Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 12:16:26 (3707)

2001-01-17 12:16:26# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, SJS
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[12:16]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég held að það fari ekki hjá því að dóms Hæstaréttar í máli Öryrkjabandalagsins gegn ríkisvaldinu, sem hér er sérstaklega til umræðu vegna frv. sem honum tengist, á eftir að verða minnst sem tímamótadóms. Þá á ég ekki fyrst og fremst við þá pólitísku atburði sem honum tengjast heldur mun hans verða minnst þegar frá líður sem tímamótadóms í mannréttindamálum á Íslandi. Líka vegna þess að í honum er staðfest ákveðin þróun bæði í réttarríki okkar og líka í velferðarkerfi okkar og félagslegri samtryggingu í samfélaginu. Í öllum þessum tilvikum fagna ég niðurstöðunni.

Ég tel mjög ánægjulegt að hin nýju mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar frá 1995, þar sem félagsleg réttindi voru sett inn í stjórnarskrána, skuli nú nýtast með þessum hætti. Ég tel líka mjög mikilvægt að þessi dómur staðfestir þróun í íslenska velferðarkerfinu í átt frá fátæktar- og ölmusuhugsunarhætti 19. aldar í áttina til einstaklingsbundinna réttinda, réttinda fólks til þess að lifa mannsæmandi lífi án tillits til kynferðis, litarháttar, hjúskparstöðu og annars slíks. Hann staðfestir sjálfstæðan rétt manna til sjálfsvirðingar, til þess að vera persónur, til þess að eiga möguleika á fullgildri þátttöku í samfélaginu þó að þeir séu fatlaðir eða af öðrum ástæðum búi við skertar aðstæður. Ég hvet menn til þess og alveg sérstaklega þyrfti hæstv. ríkisstjórn Íslands að lesa t.d. þá kafla í þessari ágætu bók sem fjalla um þróun velferðarkerfanna um víða veröld og þó sérstaklega á Íslandi og annars staðar á Norðurlöndunum í þessa átt.

Þar er það því miður þannig að íslenska velferðarkerfið hefur verið allnokkuð langt á eftir hinum Norðurlöndunum einmitt vegna þess að það hefur borið með sér inn í nútímann meira af fátæktar-, ölmusu- og framfærsluhugsunarhætti 19. aldarinnar en annars staðar er eftir til staðar. Þetta stafar bæði af því að íslenska velferðarkerfið hefur aldrei orðið jafnþróað að umfangi og grunngerð og það sem best gerist í skandinavísku löndunum. Noregi, Danmörku og Svíþjóð, og líka vegna hins að íslenska velferðarkerfið er að hluta til byggt á öðrum uppruna. Fyrirmyndirnar voru meira sóttar í almannatryggingalöggjöf Nýsjálendinga, hugmyndir Williams Beveridge og fleiri slíka hluti sem ganga meira út á lágtekjumiðaða framfærsluhugsun en að byggja á réttindum einstaklinganna.

En nú er það sem betur fer þannig að þessi dómur staðfestir að þarna er að verða breyting á vegna þess að við höfum gert breytingar hér innan lands og við erum undir áhrifum af réttarþróun erlendis, alþjóðasamningum og fleiri slíkum hlutum sem eru að færa okkur í þessa átt og það er vel.

Ég kem nánar að því síðar, herra forseti, þeim ótrúlega málflutningi sem hér hefur verið hafður uppi, því miður að hluta til af hæstv. félmrh. en þó enn þá meira af ákveðnum talsmönnum ríkisstjórnarinnar, hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh., hv. þm. Pétri H. Blöndal og verkamönnum ríkisstjórnarinnar í starfshópi, að það séu vandamál því samfara að viðurkenna og taka tillit til hinna einstaklingsbundnu og stjórnarskrárvörðu mannréttinda sem hér eiga í hlut annars vegar og reka öflugt samábyrgt velferðarkerfi hins vegar. Þetta er reginmisskilningur. Þetta fer einmitt saman, þetta snýst allt um þá nálgun sem menn velja sér í þessum efnum.

Herra forseti. Þetta mál á sér alllanga forsögu. Hana þarf líka að hafa í huga. Það þarf líka að muna eftir því að þegar tekjutryggingin var tekin upp á sínum tíma í tíð vinstri stjórnarinnar á árunum 1971--1974 var hún lítil viðbót ofan á ótekjutengdan grunnlífeyri sem fyrir var og hafði lengi verið í almannatryggingalögunum. Hún var minna en 1/3 hluti ef ég man rétt. Þá var um gjörólík hlutföll og gjörólíkar aðstæður að ræða og reyndar allt annað lagaumhverfi líka.

En síðan er það orðið þannig, þegar þau ár eru að ganga yfir sem málið nú tekur til, að hinn tekjutengdi hluti er orðinn meiri hluti, orðinn 2/3, og ótekjutengdi grunnréttur hvers einstaklings er orðinn svona lágur á Íslandi að það sker sig algjörlega úr í öllum samanburði, t.d. við önnur Norðurlönd. Það er ömurlegt til þess að vita að starfshópurinn skuli í greinargerð og fylgiskjölum vera að reyna að láta að því liggja að íslenska almannatryggingakerfið hafi að þessu leyti til verið sambærilegt t.d. við önnur Norðurlönd. Það er ekki svo. Hvergi annars staðar þekkist að bætur til einstaklings fari niður í 17, 18 þúsund krónur íslenskar, 1.700, 1.800 kr. sænskar, danskar, norskar, vegna tekna maka, hvað þá annað. Þetta liggur fyrir. Þessar upphæðir eru á allt öðrum stað í almannatryggingakerfi annars staðar á Norðurlöndum og reyndar eru þessar miklu tekjutengingar að mestu leyti séríslenskt fyrirbæri. Það er fyrst og fremst viðbótarstuðningurinn ofan á grunninn sem er tekjutengdur annars staðar á Norðurlöndum.

Það er m.a. þessi forsaga málsins sem menn verða að hafa í huga, að búið var að færa svo til þessi hlutföll að þau voru komin á hvolf frá því sem var þegar kerfið hóf göngu sína, þ.e. þegar viðbótartekjutengdi stuðningurinn kom til sögunnar á árunum 1971--1972.

Auðvitað hefur Hæstiréttur skoðað þetta og tekur það til greina í mati sínu. Ég var hjartanlega sammála hæstv. heilbrrh. um það --- og hef lengi verið, enda endurtekið tekið þetta mál upp á Alþingi síðustu fimm, sex ár í ræðum, umræðum, fyrirspurnum --- að það er réttlætismál að breyta þessu. Það er nefnilega einmitt hárrétt orðað og burt með þetta. Þannig skildu menn hæstv. heilbrrh. samanber tilvitnanir sem hér hafa verið fram reiddar, að vilji hennar stæði til þess að þessi viðmiðun gagnvart grunninum, tekjutryggingunni, hyrfi, a.m.k. varðandi tekjur maka.

Efnisatriði þessa dóms, herra forseti, er á þá leið að hvort tveggja vinnst sem stefnt var út af, skorti á lagastoð frá 1. jan. 1994 til 31. des. 1998. Um það eru allir dómarar á báðum dómstigum sammála og verður ekki skýrara. Og hins vegar líka að tilraun til að skapa lagalegan grundvöll fyrir þessari tekjuskerðingu 1998 í desember standist ekki þá til komin ákvæði stjórnarskrárinnar og alþjóðlegar skuldbindingar Íslands eins og meiri hlutinn og ráðherrar voru margsinnis vöruð við af aðilum innan þings og utan. Það er því hneykslanlegt að menn komi hér og láti að því liggja að þetta hafi komið á óvart. Hvar voru menn þá með meðvitund sína í desember 1998 í heilbr.- og trn. eða hér í þingsalnum þegar þetta var til afgreiðslu?

Það væri fróðlegt, herra forseti, að fara yfir viðbrögðin við þessu. Sérstaklega hvað varðar hæstv. heilbrrh. sem í stað þess að fagna því að hafa í Hæstarétti eignast bandamann um að afnema þessa óréttmætu tengingu, sem hæstv. ráðherra hafði ítrekað nefnt svo, að það væri réttlætismál að breyta þessu og afnema þetta, þá fer málið í hinn furðulegasta farveg. Fyrst er viðtal við forstjóra Tryggingastofnunar. Og hann var nú ekkert að skafa utan af hlutunum áður en hann hafði fengið línuna að ofan, áður en stjórnvöld, og þá væntanlega fyrst og fremst forsrh., sem hefur enga lögsögu yfir Tryggingastofnun ríkisins, er búinn að kippa í spottana, segir í viðtölum við fjölmiðla 19. desember að menn muni þar á bæ strax hefjast handa við að reikna út þær bætur sem hver og einn öryrki á rétt á eftir úrskurð Hæstaréttar í dag. Til viðbótar segir þar að Tryggingastofnun muni nú skoða hjúskaparastöðu, og endurtek hér orðrétt, með leyfi forseta: ,,... hvers einasta einstaklings sem hlotið hefur örorkubætur á sjö ára tímabili og reikna út tilskildar bætur``.

Það er alveg ljóst að fyrstu viðbrögð Tryggingastofnunar eru að sjálfsögðu þau að fara í vinnu við að virða dóminn að fullu, hefja undirbúning að því að greiða út óskerta tekjutryggingu til öryrkja í sambúð og reikna bæturnar sjö ár aftur í tímann.

Það náðist einnig í hæstv. heilbrrh. og hæstv. heilbrrh. sló á svipaða strengi, sagði ósköp einfaldlega að hún deildi ekki við Hæstarétt. Það er erfitt að skilja það öðruvísi en þannig að nú biði það verkefni að framkvæma eða virða þennan dóm að fullu.

Það er ekki fyrr en tveim dögum síðar sem hæstv. forsrh. kemur í viðtöl við fjölmiðla, og hefur af lítillæti sínu ákveðið að leyfa nú fjölmiðlum að ná í sig svo sem eins og tveim dögum eftir að dómurinn er fallinn, að það kveður við annan tón. Þá er allt í einu málið farið að snúast um spurningar sem vakni um úrskurðarvald dómstóla, hvort þeir séu ekki komnir út fyrir sitt verksvið og mikið er rætt um röksemdir minni hlutans, um dómarana á bólakafi í skylmingum stjórnmálanna o.s.frv. Framhaldið af sögunni þekkja menn.

Hæstv. forsrh. tók völdin af hæstv. heilbrrh. og hæstv. heilbrrh. talaði á allt öðrum nótum eftir að forsrh. hafði tekið við forustu í málinu. Tryggingastofnun ríkisins var lamin algjörlega niður þannig að þar hafa menn ekki haft tjáningarfrelsi um þetta mál og það þó þannig að sjálfstætt lögbundið hlutverk Tryggingastofnunar og tryggingaráðs er að þessu leyti alveg skýrt, að framfylgja lögum eins og þau standa og eru túlkuð á hverjum tíma af dómstólum landsins.

Við bætist svo framkoma hæstv. ríkisstjórnar hvað varðar aðra aðila málsins. Það varð frægt að endemum að hafandi tapað málinu algjörlega, eftir að Hæstiréttur hafði fallist á kröfur Öryrkjabandalagsins án fyrirvara eru þau samtök engu að síður ekki virt viðlits. Ekki er við þau rætt einu orði fyrr en nokkrum mínútum áður en ríkisstjórnin boðar blaðamannafund um ákvörðun sína í málinu. Það var nú allt samráðið. Svo koma menn og ætlast til góðs samstarfs og væntanlega vinskaps og kærleika við alla aðila málsins, hafandi gengið fram með þeim hætti. Sama gildir auðvitað um stjórnarandstöðuna, aldrei var vikið að henni einu einasta orði í þessum efnum fyrr en við áttum að taka til umræðu þetta endemis frumvarp og þurfti þó að hverfa frá áður ákveðinni starfsáætlun Alþingis til að koma málunum á dagskrá.

[12:30]

Herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar, og ég get m.a. vísað til ágæts rökstuðnings næsta ræðumanns á undan mér í þeim efnum, hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, að ómögulegt sé að túlka niðurstöðu Hæstaréttar öðruvísi en þannig að hann komist að þeirri niðurstöðu að óheimilt sé að skerða tekjutrygginguna eins og hún er vegna tekna maka. Ég fagna því og það veldur mér engum vandamálum, hv. þm. Pétur Blöndal, sem félagshyggjumanni að bregðast þannig við, ekki nokkrum minnstu vandamálum vegna þess að ég lít svo á að það sem hér er á ferðinni sé ósköp einfaldlega eðlileg uppbygging mannréttinda í okkar samfélagi sem hluti af því heildarsamhengi laga og réttar og afkomuöryggis og velferðar sem við sköpum. Það hlýtur að vera þannig að þetta sé sambland af þessu hvoru tveggja og öllu saman. Mannréttindi í tilteknum skilningi verða alltaf að vera einstaklingsbundin. Öðruvísi eru þau ekki til staðar. Mundi hv. þm. Pétur Blöndal sætta sig við t.d. að kosningarréttur hjóna væri þannig að bara annað hjónanna gæti farið og kosið? Ef kosningarréttur er mannréttindi verður hann þá ekki að tilheyra hverjum einasta einstaklingi eða getum við deilt honum út í fjölskyldum þannig að hver fimm manna fjölskylda fái tvö og hálft atkvæði eða eitthvað því um líkt? Nei, það dettur auðvitað engum manni í hug. Slíkt dettur engum manni í hug.

Sama gildir um tjáningarfrelsi og aðra slíka hluti sem eru einstaklingsbundin grundvallarmannréttindi sem auðvitað eru persónubundin. Sama gildir um lágmarkssjálfsvirðingu og sjálfstæði manna sem einstaklinga hvort sem þeir eru í sambúð, eiga börn eða búa sem einstæðingar. Þetta er ekki flóknara en það.

Varðandi þetta með afkomuöryggið og einhverjar lágmarks eigin tekjur til framfærslu þá fellur öll þessi röksemdafærsla ríkisstjórnarinnar um sjálfa sig, allt móverkið, allar tilraunirnar til að gera núna út á samúð með þeim sem hafa enn þá minna en einhverjir í þessum hópi. Hún fellur um þá staðreynd að það er ótekjutengdur einstaklingsbundinn grunnur. Er hv. þm. Pétur Blöndal að leggja til að hann falli niður líka, 18 þúsund krónurnar? Er það? Hann mætti svara með frammíkalli. Ég reikna með ekki.

Er það þá ekki orðin spurningin um það að við viðurkennum að þetta samanstendur af þessu hvoru tveggja, einhverjum sjálfstæðum einstaklingsbundnum grundvallarréttindum ... (PHB: Frv. ríkisstjórnarinnar.) Þar til viðbótar tökum við svo tillit til aðstæðna að ýmsu leyti og það kemur þar ofan á. Hæstiréttur er einfaldlega að segja okkur, og hann getur ekki dæmt út frá öðru en því, að tekjutryggingin eigi að vera þess konar einstaklingsbundinn grunnur. Þar fyrir ofan geti komið til sögunnar málefnaleg rök að taka tillit til fjölskylduaðstæðna og slíkra hluta og það er gert.

Ósvífnasta túlkunin eða tilraunin af öllum sem fram koma í annars endemisáliti starfshópsins, sem að mörgu leyti er mjög sérkennileg blanda af pólitískri röksemdafærslu og væntanlega lögfræði, er sú að slíta úr samhengi tvær setningar sem allur málatilbúnaður ríkisstjórnarinnar byggist á. Það er annars vegar setningin um að það geti verið málefnaleg rök að taka tillit til hjúskaparaðstæðna og svo hins vegar setningin sem á einum einasta stað kemur fyrir, þ.e. að skerðingin ,,með þessum hætti`` fái ekki staðist. Á því byggir þetta allt saman hjá ríkisstjórninni, að heimilt sé að halda skerðingunni sem búið er að dæma ólöglega án fyrirvara, að samt sé heimilt að halda henni áfram. Þetta orðalag er út frá hártogunum.

Til hvers er Hæstiréttur að vísa væntanlega varðandi t.d. heimilisaðstæðurnar? Er ekki nærtækast og eðlilegast að skilja það svo að hann sé einmitt að vísa til heimilisuppbótarinnar og sérstöku heimilisuppbótarinnar? Jú, vegna þess að það er það sem fyrir er í lögunum og lýtur þeim lögmálum sem Hæstiréttur er þarna að tala um, þ.e. að það geti verið málefnaleg rök fyrir því að líta að einhverju leyti til aðstæðna fólks og það er gert þarna.

Herra forseti. Ég spái því að ríkisstjórnin muni ekki bæta vígstöðu sína með ótrúlegum tilraunum til þess að snúa nú þessu máli yfir í það að þetta sé eiginlega áfall vegna þess að þetta hindri að hægt sé að koma stuðningi til þeirra sem mest þurfa á honum að halda. Það er rangt. Það er algjörlega rangt. Þó að við föllumst á þennan hæstaréttardóm og að tekjutryggingin upp á rúmar 50 þús. kr. verði grundvallarréttur einstaklinganna þá eru fullnægjandi, og miklu meira en það, heimildir til þess og möguleikar að jafna áfram tekjur og aðstæður manna í þjóðfélaginu með málefnalegum rökum að teknu tilliti til þessara grundvallarréttinda sem Hæstiréttur vísar í.

Og það eru engin smálmál sem hér eiga í hlut. Það er mikið í húfi. Það eru mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar sem þetta tengist.

Herra forseti. Því miður hefur öll framganga ríkisstjórnarinnar frá því að forsrh. kom í fyrsta skipti, tveim dögum eftir að dómurinn féll, í fjölmiðla og síðan, lyktað af því langar leiðir að ríkisstjórnin væri að reyna að finna sér aðferðir til að komast fram hjá dómnum, lyktað af því langar leiðir. Það er þannig. Framganga þeirra í fjölmiðlum, erindisbréf starfshópsins, greinargerð starfshópsins, þetta er allt á eina bókina lært. Það er verið að reyna að byggja upp undirstöður fyrir því að hægt sé að fara á svig við dóminn og halda að hluta til áfram þeirri skerðingu tekjutryggingar öryrkja vegna tekna maka sem Hæstiréttur hefur dæmt ólöglega. Stefnan gekk út á það að hún sem slík væri ólögleg og Öryrkjabandalagið vann málið. Og þeir segja sjálfir, háyfirdómararnir sjálfir sem svo hafa verið kallaðir, að það verði að túlka niðurstöðu dómsins með hliðsjón af kröfu stefnanda. Það er rétt, auðvitað, að sjálfsögðu. En af hverju á það þá ekki við þegar þeir fara að beita hártogunum til þess að reyna að finna því rök að það sé samt heimilt að skerða áfram? Þá á ekki við að taka mið af kröfu stefnanda. Þannig að þarna rekur sig hvað á annars horn.

Ég spái því, herra forseti, og legg það eiginlega til, með leyfi, að frá og með þessum tíma verði það skyldulesning í lögfræðideild Háskóla Íslands og annars staðar þar sem lög eru stúderuð að lesa skýrslu starfshópsins til þess að læra af henni hvernig á ekki að umgangast lög og rétt af virðingu. Og það hlýtur að verða aðhlátursefni margra að sjá hvernig þessir miklu lögspekingar sem ætlast væntanlega til þess að þeir séu teknir alvarlega lenda þannig í mótsögn við sjálfa sig inni í greinargerðinni sjálfri að það sér það hvert mannsbarn. Það þarf enga lögfræðinga til að rekast á t.d. slíkar mótsagnir sem blasa við á síðum textans.

Herra forseti. Frv. ríkisstjórnarinnar er að þrennu lagi til og auðvitað í heild sinni mikið hneyksli að mínu mati. Það er auðvitað hneyksli fyrir það fyrsta að ríkisstjórnin ætli að reyna að komast hjá því að bæta fyrir brot sín gagnvart þeim sem þau hafa þolað með því að bera fyrir sig --- hverju? Ekki því að þeir hafi ekki orðið fyrir ranglætinu, ekki því að ekki hafi verið brotinn á þeim réttur, nei, vegna þess að mannréttindabrotið sé fyrnt að hluta, fyrnt að hluta. Það skuli bæta fjögur ár aftur í tímann en ekki sjö.

Hvers vegna? Er það vegna þess að það standi einhvers staðar í lögum að Alþingi og ríkisstjórn megi ekki ákveða að bæta þetta að fullu sjö ár aftur í tímann? Nei, það stendur hvergi og er ekki siður. Það er ekki réttarhefð eða dómstólahefð að mönnum sé skylt að fara að fyrningarákvæðum jafnvel þó þau væru ótvíræð. Svo er ekki. Menn ráða því hvort þeir bera þau við eða fallast á kröfuna. Er það ekki? Jú.

Ríkisstjórnin hefur það því algjörlega í valdi sínu að fallast á kröfuna og bera ekki fyrir sig fyrningu. En hún velur að gera það eftir þessa frammistöðu í málinu, að hafa verið dæmd sek um brot á stjórnarskránni og skort á lögum til þess að beita íþyngjandi skerðingum gagnvart tilteknum hópi. Engu að síður ætlar hún að bera fyrir sig fyrningu til að komast hjá því að greiða hópi sem sannanlega hafa ranglega verið teknar af nokkur hundruð milljónir. Er það nú frammistaða! Er það nú reisn yfir þessu eða hitt þó heldur! Auk þess stenst þetta væntanlega ekki og ríkisstjórnin má vita það að hún fær á sig ný málaferli því að auðvitað mun þessi hópur ekki una því að hann verði af þessu á sama tíma og aðrir fá þetta bætt að fullu. Að sjálfsögðu láta menn reyna á það og þá mun á reyna t.d. hvort eðlilegra sé að líta á þetta sem skaðabótakröfu vegna þess að framið hafi verið réttarbrot á öryrkjum eða hvort um er að ræða tryggingaskuld eins og ríkisstjórnin reynir að bera við.

Að lokum snýst þetta auðvitað alls ekkert um lögfræði. Hvar eru miskunnsömu samherjarnir nú? Hvar er hv. þm. Pétur Blöndal nú? Hvar er miskunnsami samherjinn? Finnst honum það sanngjarnt að sumir fái þetta bætt að fullu en aðrir ekki af því að ríkisstjórnin velji að bera fyrir sig fyrningu kröfunnar. (Gripið fram í: Samverjinn.) Eða Samverjinn, já. Allt er þetta nú náskylt auðvitað, hugtök ættuð úr suðaustri.

Nei, herra forseti. Þetta er auðvitað alveg með ólíkindum. Þessi þáttur málsins einn og sér þarf að koma skýrt út. Ég ætla svo sannarlega að vona að þjóðin fylgist með þessari umræðu og auðvitað ekki síður öryrkjar vegna þess að ég er óhræddur við hana. Ég fagna málflutningnum. Ég sakna þess aðallega að hæstvirtir forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar skuli ekki sýna henni þá virðingu að sitja hér í salnum. Þeir raupuðu mikið af því á mánudaginn, hæstv. utanrrh. og hæstv. forsrh., að þá klæjaði í lófana að komast í málflutninginn því þeir hafa myndað sér þær kenningar að málstaður þeirra í málinu hafi verið stórkostlega affluttur. Hvar eru þeir núna? Mætti ég biðja um, herra forseti, að þeim væri gert viðvart um það að umræðan er hafin. Hún fer hér fram. Og þeir sem langaði svona óskaplega í hana á mánudaginn ættu þá a.m.k. að geta verið hérna núna.

Ég held að þeir muni ekki vinna þessa lotu út á nýtilkomna manngæsku sína og samúð með þeim sem erfiðast eiga í þjóðfélaginu, þessar riddarar hringborðs Davíðs Oddssonar. Ég held ekki. Og þó að þeir eigi ágæta liðsmenn eins og miskunnsama Samverjann Pétur H. Blöndal þingmann þá held ég að það dugi ekki heldur til því að þegar menn sem eru á móti hátekjuskatti vilja lækka skatta á hagnað fyrirtækja, vilja lækka skatta á fjármagnsgróða og koma svo hér og ætla að fara að kenna okkur hinum félagshyggju þá er holur hljómur í slíku.

Í öðru lagi, herra forseti, er í frv. ríkisstjórnarinnar gert ráð fyrir áframhaldandi tekjutengdu skerðingu örorkubótanna vegna tekna maka upp á 8 þús. kr. á mánuði. Það er að mínu mati, herra forseti, tilraun til áframhaldandi stjórnarskrárbrots. Það er það vegna þess að hvað sem hver segir þá er það tilraun til að fara fram hjá dómi Hæstaréttar, túlkaðan á þann eina hátt sem eðlilegast er að túlka hann, að hann féllst á kröfu Öryrkjabandalagsins um að tekjutengd skerðing tekjutryggingarinnar, miðað við tekjur maka, væri ólögmæt, að hún væri brot á stjórnarskránni.

Það hljóta allir að sjá að ríkisstjórnin er komin út á geysilega þunnan ís að hætta sér út í það að túlka dóminn þannig að það sé nóg að koma til móts við hann að hluta. En það orðalag hafa ráðherrar ríkisstjórnarinnar ítrekað notað, síðast hæstv. heilbrrh. hér áðan. Hæstv. heilbrrh. sagði að því miður --- í fyrra svari sínu við andsvar mitt --- væri ríkisstjórnin með þessu að koma til móts við dóminn. Það orðalag hef ég heyrt oftar og frá fleirum. Það endurspeglar ákveðið hugarfar, þ.e. að með því að koma til móts við dóminn svo nemur svona 65% eða eitthvað svoleiðis, þá sé þetta í lagi. Það er það sem í þessu felst.

[12:45]

Herra forseti. Þriðja dæmalausa hneykslið í frv., sem að vísu hefur ekki fengið næga athygli, er afturvirkni þess, vegna þess að í frv. er þetta þannig útreiknað af snillingunum, af hinum merka vinnuhópi ríkisstjórnarinnar sem hæstv. heilbrrh. sagði að vísu að væri kannski ekki óskeikull --- það er ekki víst að frv. væri fullkomið, sagði hæstv. heilbrrh. hér áðan, en það var erfitt að skilja það öðruvísi en svo að það stappaði nærri, það væri nú mjög nálægt fullkomleikanum, þessi afrakstur snillinganna. En það er ómögulegt að skilja ákv. til brb. öðruvísi en svo að uppgjörið á tveimur fyrri árum fjögurra ára tímabilsins sem á að bæta --- en svo á bara að segja um hin þrjú árin, við þá sem þá eiga í hlut: Því miður, þið eruð fyrndir, þið eruð bara fyrndir. Bara bölvuð óheppni, þið eruð fyrndir --- en gagnvart hinum sem á að bæta þetta, hvernig á að gera það? Jú, það á að gera það þannig að það á að greiða óskerta fulla tekjutrygginguna, uppreiknaða eins og hún var á hverjum tíma áranna 1997 og 1998. En hvað á svo að gera eftir að lagastoðin fræga sem braut stjórnarskrána kom til sögunnar? Nei, þá á að nota hana sem réttlætingu þess að færa þetta niður um 8 þús. kr. og nota nýju upphæðina, skertu tekjutryggingarupphæðina upp á 43 þús. kr. til að gera upp fortíðina. Er þetta ekki rétt, hæstv. heilbrrh.? Er það ekki svona sem á að skilja frv.? Ég vil strax fá hjálp ef ég er að fara þarna villur vegar. En ég held ekki. Ég er búinn að lesa þetta nokkuð vel. Og þar með á þessi löggjöf að verða afturvirk því að hún á að taka þennan rétt af mönnum tvö ár aftur í tímann sem engin lög stóðu til að þeir yrðu af. Þetta er svona. Það eru nú sjálfir snillingarnir, hinir næstum því óskeikulu löghestar ríkisstjórnarinnar sem eru endalaust í vinnu hjá ríkisstjórninni, það þarf aldrei að líta svo á lögfræðilegt atriði að sömu flokkspólitísku lögfræðingarnir séu ekki kallaðir til. Þeir eru áskrifendur að verkefnum hjá ríkisstjórn Íslands, ríkisstjórn Davíðs Oddssonar, og mér er ekki kunnugt um að þeir hafi unnið þau ókeypis.

Þetta er nú öll snilldin. Ég hef lært það hér á langri veru að eitt það allra ljótasta sem geti komið fyrir Alþingi og löggjafann sé að setja afturvirk lög, þau megi aldrei vera það í þeim lögfræðilega skilningi sem þar liggur til grundvallar að þau hafi íþyngjandi áhrif gagnvart réttindum eða stöðu sem menn áttu að hafa þegar búið er að túlka réttinn eins og hann dæmist eða túlkast réttastur hafa verið.

Það var nú hvorki meira né minna en þannig að það var stjórnarskrárbrot að hafa þessa tekjutryggingu af öryrkjum í sambúð á þessum árum, 1999 og 2000. En samt á að skerða hana með afturvirkri löggjöf. Þvílík endemi, segi ég.

Herra forseti. Ég hef áður vikið að því að samanburður ríkisstjórnarinnar við almannatryggingakerfi hinna Norðurlandanna og í skýrslu starfshópsins er að mínu mati villandi. Ég hef að vísu ekki haft aðstæður til að leggjast yfir það mál. Ég hef þó skoðað þær opinberu norrænu skýrslur sem til eru og ég hafði meira að segja samband við forstöðumann Norrænu tölfræðistofnunarinnar í gær og bað hann að senda mér allar þær upplýsingar sem hann hefði tiltækar. Vandinn er í og með sá að þessar upplýsingar eru yfirleitt ekki settar þannig fram að það sé sundurgreinanlegt hvaða tekjutengingar eru vegna eigin tekna eða vegna tekna maka. Það gerir þennan samanburð erfiðan og þessi helsti sérfræðingur Norðurlandanna viðurkenndi í samtali við mig að þarna væru vissir erfiðleikar á samanburði. En það stóð ekki í sérfræðihópnum íslenska. Hann vissi þetta allt saman og leyfir sér að fullyrða það að íslenska almannatryggingakerfið sé að þessu leyti ekkert sérstakt og meira og minna mjög sambærilegt við það sem er á hinum Norðurlöndunum. Það er rangt. Og þá vitna ég aftur í þessa ágætu bók hér og ef tíminn leyfði það mætti lesa upp úr henni þar sem einmitt íslenska kerfið er borið saman við það norræna að öðru leyti og komist að þeirri niðurstöðu að þar er verulegur munur á. Og hann liggur ekki síst í því að hinar óhóflegu tekjutengingar á Íslandi ganga miklu lengra og ég fullyrði að viðmiðun við tekjur maka er hér miklu harðari og kemur fyrr til sögunnar en annars staðar gerist.

Aðalreglan er sú, fyrir utan Ísland, að grunnstuðningur við atvinnulausa, sjúka og öryrkja er ekki tekjutengdur, ,,indkomstsprøvet``, eins og það heitir á dönsku. Það er grunnreglan, segir í ágætu svari sem ég fékk frá þessum sérfræðingi, Jóhannesi Nielsen, sem situr yfir þessum hlutum í kóngsins Kaupinhafn.

Ekki meira um það, herra forseti. Yfir þetta má fara betur síðar. Að mínu mati er það alveg ljóst að tvennt á að gera og gera strax til þess að bregðast með þeim eina hætti við þessum dómi Hæstaréttar sem er ekki bara rétt og sanngjarnt heldur skylt, vegna þess að hann snýst um stjórnarskrána. Þetta er ekki þannig að við getum á einfaldan og venjubundin hátt breytt lögum. Við þurfum þá að fara í það mikla verk sem það er að breyta stjórnarskránni ef við viljum taka þaðan út aftur mannréttindaákvæðin, aftengja þau. Það hefði að vísu einn stórkostlegan kost í för með sér, að við fengjum kosningar í millitíðinni og mundi nú margan manninn langa í það miðað við framgöngu ríkisstjórnarinnar og vinsældir með þjóðinni um þessar mundir. En ég sæi á eftir mannréttindaákvæðunum og ætti erfitt með að velja þar á milli þó að mig langi óskaplega mikið í það að koma þessari ríkisstjórn frá.

Nei, þetta er auðvitað einfaldlega þannig að á meðan stjórnarskráin er í gildi þá verður að fara eftir henni. Það er nú bara einhver æðsta skylda okkar allra sem höfum meira að segja svarið að henni dýra eiða. Og til þess að þetta verði er algjörlega ljóst í mínum huga að tvennt þarf að gera: Greiða þegar í stað óskerta tekjutryggingu örorkubóta og hefja undirbúning þess að bæta þeim sem ranglega hafa orðið af þessu sjö ár aftur í tímann eins fljótt og auðið er með fullum vöxtum það sem ranglega var af þeim tekið. Ekkert annað dugar. Það blasir við.

Eitt er víst og það er að hæstv. ríkisstjórn hefur aldrei heyrt um fyrirbærið varúðarreglu. Einhver mundi nú vilja hafa vaðið fyrir neðan sig hafandi verið dæmdur fyrir að brjóta stjórnarskrána, að gera það ekki aftur. Einhver teldi þá að þar ætti líka við varúðarregla, að menn skyldu umgangast stjórnarskrána með þeirri virðingu að taka enga áhættu af því að viðbrögð manna væru þannig að á því gæti verið nokkur minnsti vafi að þau fullnægðu dómnum og ákvæðum stjórnarskrárinnar. En það stendur ekki til.

Herra forseti. Það hefur líka verið mjög spaugilegt að heyra tilraunir hæstv. stjórnarliða til þess að reyna að rétta sinn hlut í umræðum síðustu daga með því að þjóðin hafi verið stórkostlega afvegaleidd varðandi upplýsingar um þetta mál, að Öryrkjabandalagið, stjórnarandstaðan, fjölmiðlarnir og verkalýðshreyfingin hafi öll myndað eitt ægilegt allsherjarsamsæri til að telja þjóðinni trú um að í þessu felist eitthvað allt annað en það í raun og veru gerir. Ekki er nú álitið mikið sem menn hafa á þessum aðilum og þjóðinni, athyglisgáfu hennar og gáfnafari, að þetta hafi tekist. Hæstv. utanrrh. vælir síðast í dag í blöðum um upplýsingavanda, um að upplýsingavandi valdi því að stjórnarflokkarnir mælist svona lítt vinsælir um þessar mundir, að hinni vondu stjórnarandstöðu, Öryrkjabandalaginu og öllu þessu batteríi hafi tekist að afvegaleiða menn svo hroðalega að það misskilji þetta allir. Það er alltaf misskilningur þegar ríkisstjórnin lendir í erfiðleikum. Og allt er þetta auðvitað misskilningur að Framsfl. skuli ekki vera með 50% fylgi og allt það. Það er ævinlega misskilningur.

,,Við njótum ekki sannmælis``, segir hæstv. utanrrh. ,,Þetta hefur verið rangtúlkað og út úr þessu snúið.`` Þá fór ég að hugsa: Hvernig hefur fjölmiðlaaðgangi og tækifærum manna til að koma skoðunum sínum á framfæri í þessu verið háttað upp á síðkastið? Hafa þeir verið þagaðir í hel? Hver hefur fengið að sitja heilan sjónvarpsþátt í útbreiddustu sjónvarpsrás landsins og ráða sjálfur ferðinni við að útskýra sínar hugmyndir annar en forsrh.? Tókst honum þetta svona illa? Dugði honum ekki hálftíma Kastljósþáttur til þess að koma sér sæmilega á framfæri og sínum skoðunum?

Utanrrh. hefur verið í viðtölum og í kappræðum um þetta mál. Og sjálfur háyfirdómarinn, Jón Steinar Gunnlaugsson, ,,iudex optimus maximus`` Íslands, er búinn að vera í öllum fjölmiðlum, opnuviðtölum. Að gera hvað? Rökstyðja lendingu ríkisstjórnarinnar og sína afstöðu. Það hefur greinilega ekki dugað.

Ja, þeir fá ekki háa einkunn þessir menn eftir allan fjölmiðlaaðganginn ef þetta er samt svona eins og utanrrh. segir, að þetta sé allt saman misskilningur og upplýsingavandi. Nei, herra forseti. Ég gef ekki mikið fyrir slíkt.

Og hér er þá tækifærið til að hefna þess á Alþingi sem hefur hallast í héraði. Og hvar eru þá þessir herrar ef þeir koma ekki hér og fara yfir það með okkur í hverju þessi ofboðslegi misskilningur er fólginn? Ég held að mjög fáir hafi misskilið þetta. Auðvitað getur vel verið að einhverjir hafi ekki áttað sig á því í smáatriðum í hverju þetta væri fólgið né hver áhrifin yrðu af viðbrögðunum. En ég fullyrði að allur þorri almennings og ekkert síður öryrkjar en aðrir vita alveg nákvæmlega um hvað þetta mál snýst, enda hefur það alltaf verið skýrt að af tilteknum hópi öryrkja hafa þessar bætur verið ranglega hafðar vegna óréttmætrar tengingu við tekjur makans. Það liggur í orðanna hljóðan og það skilja það væntanlega allir að þetta tekur þar með til þess hóps.

En þetta er hagsmunamál miklu fleiri og því gleymir ríkisstjórnin. Í tilraunum sínum til að etja öryrkjum hverjum gegn öðrum, sem augljóslega eru hér á ferðinni, eða öðru lágtekjufólki samfélagsins gegn þá þessum hópi, gleyma menn því að menn hafa fullan skilning á þessum aðstæðum. Aðrir vita, þ.e. þeir sem fengu þessar óbætur óskertar, þeir eru búnir að njóta þeirra en hinir ekki. Og það vita líka mjög margir öryrkjar að þetta er mannréttindamál einnig í þeim skilningi að eftir þessar breytingar og sérstaklega ef tekjutryggingin verður greidd að fullu, verður ekki jafnerfitt fyrir þetta fólk að stofna til sambúðar og búa í hjónabandi eins og hingað til hefur verið. Einnig að því leyti er það mikil framför í okkar velferðarkerfi að þessum dómi Hæstaréttar (Forseti hringir.) verði nú framfylgt að fullu.

Herra forseti. Ég hefði svo gjarnan viljað að ráðamenn ríkisstjórnarinnar yrðu aðvaraðir um það þegar umræðan heldur áfram að það er ekki alveg í fullu samræmi við löngun þeirra og vöntun að komast inn í umræðuna að vera svo algerlega fjarverandi í þingsalnum þegar hún fer fram.