Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 13:02:59 (3711)

2001-01-17 13:02:59# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[13:02]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég er orðinn dálítið ruglaður á þessari afstöðu félagshyggjufólksins, sem heldur núna hátt á lofti merki einstaklingshyggjunnar ... (Gripið fram í: Ert þú ekki ...) Jú, jú, ég er einstaklingshyggjumaður og ég gleðst yfir þessu í sjálfu sér. Ég skil bara ekki afstöðu félagshyggjufólksins. En ég virði skilning hv. þm. á dómi Hæstaréttar, þó ég sé honum ekki sammála. Nú vil ég spyrja hann: Ef bætur til öryrkja eiga ekki að taka mið af félagslegri stöðu hans, t.d. háum heimilistekjum, getum við ekki ályktað að það sama gildi um ellilífeyrisþega sem eiga tekjuháa maka --- það er minn skilningur -- og um námsmenn. Síðan getum við farið enn lengra í rökfræðilegar afleiðingar. Tökum dæmi af tveimur börnum, annað er munaðarlaust og er vaktað dag og nótt á kostnað ríkisins, hitt býr við þær félagslegu aðstæður að eiga foreldra í fjölskyldu sem annast það dag og nótt ókeypis að sjálfsögðu. Á þessi einstaklingur ekki sama rétt og hinn munaðarlausi á að fá bætur frá ríkinu? Og hvar endum við þá? (Gripið fram í: Erum við að tala um örorkubætur?) Við erum að tala um einstaklingshyggjuna, að allir eigi að vera jafnir, jafnt munaðarlausa barnið og hitt.

Hvar endar einstaklingshyggjan? Má ekki gera vel við neinn sem stendur höllum fæti nema bæta öllum? Kemur ekki næst hjá þessu einstaklingsþenkjandi félagshyggjufólki að ekki megi skattleggja fólk mismunandi?

Svo vil ég spyrja hv. þm. eins og ég spurði áðan: Hvað finnst honum um það félagslega réttlæti að skattleggja lágtekjufólk, t.d. hjá ASÍ, sem er jafnvel með mjög lágar tekjur, heimilistekjur, til þess að greiða hátekjufólki auknar bætur?