Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 13:11:20 (3716)

2001-01-17 13:11:20# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[13:11]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Svarið við seinni spurningunni er: Já, að þeim hluta til. Hæstiréttur dæmir út frá tekjutryggingunni eins og hún er og það er það sem hann dæmir ólöglegt að skerða. Ef hún, eins og hún liggur núna, væri greidd að fullu þá tel ég að enginn vafi léki á því að sá þáttur dómsins væri virtur. Síðan þyrfti að koma uppgjör á öllum sjö árunum aftur í tímann miðað við fullar bætur, óskerta tekjutryggingu. Þá væri málinu borgið að mínu mati. Eftir stæði þá í raun fyrst og fremst spurning um aðferðafræði og hugsanlega vaxtaútreikning.

Varðandi fyrra atriðið þá held ég að við skýrum kannski ekki málið með því að fara að blanda inn í það kosningalöggjöf landa þar sem nánast alls staðar er eitthvert svokallað misvægi atkvæða fyrir hendi og allt upp í það að í guðs eigin landi, sem hv. þm. lítur kannski stundum til sem fordæmis, eru t.d. íbúar Washingtonborgar kosningarréttarlausir með öllu þegar kemur að því að kjósa í aðra deild bandaríska þingsins og þetta er þekkt á mismunandi stigum. Ég held að það skýri kannski ekki málin.

Það sem ég var að draga athyglina að er að þessi dómur gengur út á grundvallarmannréttindi sem hljóta eðli sínu samkvæmt alltaf að vera með tilteknum hætti einstaklingsbundnin. Það sem var að gerast 1995 var að við vorum að taka svokölluð annarrar kynslóðar mannréttindi eða félagsleg og borgaraleg mannréttindi af ýmsum toga inn í stjórnarskrána og þau komu inn í mannréttindakaflann rétt eins og önnur mannréttindi, eins og kosningarréttur, tjáningarfrelsi eða annað því um líkt. Ég sé enga aðra leið til þess að ganga frá þeim öðruvísi en svo að þau tengist einstaklingunum í grunninn sem slík.

Það eru einmitt þessi mannréttindi sem þetta mál snýst um og það á einmitt ekki að hverfa út úr umræðunni. Þetta eru mannréttindi eins og t.d. kosningarréttur kvenna í Kúveit. Það átti nú að endurreisa lýðræðið í Kúveit. Ég veit ekki hvort hv. þm. hefur tekið eftir því. Þeir sem studdu innrásina í Kúveit og ætluðu sér að koma þar á lýðræði. Þeir hafa kannski orðið fyrir þeim vonbrigðum í morgun að lesa það í fréttum að dómstóll Kúveit hefur núna úrskurðað að konur eiga engan kosningarrétt að fá í því landi á næstunni og það finnst mér vera alveg freklegt brot á mannréttindum og ég geri ráð fyrir því að ég og hv. þm. séum sammála um það.