Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 15:00:04 (3723)

2001-01-17 15:00:04# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[15:00]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Prófdómarinn er hér á fullri ferð, eins og heyra má, að gefa sínar einkunnir. Mér leyfist þá væntanlega að hafa skoðun á ræðum rétt eins og hæstv. forsrh.

Varðandi það sem einnig kom fram í ræðu hæstv. forsrh., að fjarstæðukennt væri að halda því fram að ekki þyrfti lög til að bregðast við dómnum þá er þar um tvíþætt mál að ræða. Ég er þeirrar skoðunar að engin lög hafi þurft til að hefja frá og með áramótum greiðslu á óskertri tekjutryggingu til öryrkja í sambúð. Þann þátt málsins mátti augljóslega leysa án nokkurrar lagasetningar með því einu að fullnægja formskilyrðum um fjárgreiðslur úr ríkissjóði, þ.e. grípa þá til þeirra ákvæða laga um fjárreiður ríkisins sem þarf til þess að bregðast við óvæntum aðstæðum og hefja greiðslur úr ríkissjóði.

Varðandi hinn þátt málsins, og því hafa menn allan tímann haldið aðgreindu, kann hið vandasama uppgjör á fortíðinni í þessu máli að kalla á einhverjar lagareglur. Þetta hygg ég að sé nokkuð skýrt og hæstv. forsrh. ætti, ef hann vill tjá sig um þennan þátt málsins, að aðgreina þetta tvennt.