Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 15:06:54 (3730)

2001-01-17 15:06:54# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[15:06]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. heilbrrh. mælti fyrir frv. með ágætum eins og ég sagði áðan. Það kom því ekki í minn hlut. Ég hef hins vegar farið yfir þá málefnaþætti sem að baki frv. búa og það er út af fyrir sig auðvitað sjálfsagt og eðlilegt.

Hin lögfræðilega niðurstaða hv. þm. er að mínu mati röng. Ég hef marglýst því yfir úr þessum ræðustól núna síðustu mínúturnar vegna þess að hv. þm. gefur sér það með orðum sínum að Hæstiréttur hafi sagt að óheimilt sé að tengja bætur örorkulífeyrisþega við tekjur maka. Það er röng ályktun. (Gripið fram í.) Það er röng ályktun af hálfu hv. þm. Þess vegna var sú ályktun sem hv. þm. dró röng. Því var óhjákvæmilegt að standa við ákvæði stjórnarskrárinnar sem segir að bótum af þessu tagi verði eingöngu skipað með lögum.