Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 15:12:36 (3736)

2001-01-17 15:12:36# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[15:12]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að fjalla um alla þá löngu umræðu sem varð um orð Eiríks Tómassonar prófessors. Reyndar hefur verið snúið út úr orðum hans eins og var gert fyrr í dag af hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni vegna þess að þar voru hlutir teknir úr samhengi. Ég vísa til þess varðandi spurningu um hvort það ætti að greiða út bætur strax. Þá segir prófessorinn orðrétt: ,,Þessi leið er að sumu leyti varhugaverð.`` Þessu var alltaf sleppt þegar tilvitnað var í ræðu Eiríks Tómassonar prófessors.

Ég er þeirrar skoðunar að dómurinn, eins og hann verður skilinn, sé bindandi fyrir alla, ríkisstjórn sem aðra. En það verður að lúta þeim skilningi sem menn hafa á dóminum. Hann er bindandi fyrir hvern aðila eins og hann verður skilinn. Það verður þá borið upp aftur ef menn vilja ekki una því við dómstóla landsins.