Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 16:04:29 (3748)

2001-01-17 16:04:29# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[16:04]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er von að það fjúki í hæstv. utanrrh. Á þessu hálmstrái, þessari hártogun, byggir helmingurinn af öllum málatilbúnaði ríkisstjórnarinnar. Hér er talað um greiðslur til einstaklinga úr opinberum sjóðum eftir því hvort viðkomandi er í sambúð eða ekki og ekki minnst einu orði á tekjutengingu í því sambandi.

Staðreyndin er sú að greiðslur úr opinberum sjóðum, t.d. heimilisuppbót og sérstök heimilisuppbót, tengjast þessu atriði. Hæstiréttur getur nákvæmlega eins, það er eðlilegra að álykta svo, vísað til að slík skilgreind, málefnaleg og rökstudd aðgreining eigi rétt á sér án þess að það snerti tekjutenginguna. Það er forsenda sem stjórnarliðar gefa sér án þess að hafa fyrir því neina stoð í reifun Hæstaréttar og þaðan af síður í dómsorðinu sjálfu þar sem hvorug forsenda ríkisstjórnarinnar, fyrir því að leggja fram frv. sem byggir ekki á óskertri tekjutryggingu, er til staðar.