Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 16:05:45 (3749)

2001-01-17 16:05:45# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[16:05]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég kannast ekki við annað en að þegar talað er um sambúð þá séum við að tala um fjölskylduna sem grunneiningu og að taka eigi tillit til aðstæðna fjölskyldunnar. Þetta er grundvallaratriði í öllu bóta- og skattkerfi, að litið er mismunandi á það hvort fólk býr í hjónabandi eða sambúð eða út af fyrir sig. Þess vegna finnst mér þetta alveg ljóst.

Það fýkur ekki í mig út af því en hins vegar tel ég þetta mál afskaplega mikilvægt. Ég tel að það varði velferðarkerfið og grundvallarskilning á því. Ég tek eftir því að hv. þm. er mér ósammála í því sambandi. Ég veit ekki af hverju verið er að vitna í sambúðina í þessu sambandi ef það er ekki í ljósi þess að hún sé grunneining og taka eigi tillit til aðstæðna fjölskyldunnar, það sé hin eina rétta leið til að jafna í samfélaginu.