Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 16:08:09 (3751)

2001-01-17 16:08:09# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[16:08]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Þetta hefur ekkert með fátæktarmörk að gera. Stefna Framsfl og allra annarra flokka á Alþingi hefur verið sú að hækka frítekjumarkið þannig að öryrkjar í sambúð eða hjónabandi, með lægri tekjur, skerðist ekki jafnmikið og raun ber vitni. Eins og hæstv. heilbrrh. rakti höfum við stigið þessi skref. Þau hafa verið stigin tvívegis, síðast í haust, og verið mikil réttarbót fyrir öryrkja í landinu.

Það má fara tvær leiðir. Önnur er sú að hækka þetta lágmark eins og nú er verið að gera eða nota svigrúmið til að hækka frítekjumarkið enn meira. Ef við hefðum notað svigrúmið til að hækka frítekjumarkið enn meira þá hefði það komið sér betur fyrir þá sem lægri tekjur hafa. Þetta er alveg ljóst. Á þessari braut höfum við verið. En núna hefur Hæstiréttur fellt þann dóm að okkur beri að gera þetta með öðrum hætti og við hlítum því að sjálfsögðu.