Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 16:10:25 (3753)

2001-01-17 16:10:25# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[16:10]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel meiri þörf á því nota tímann hér á Alþingi í að hv. þm. útskýri stefnu eigin flokks í stað þess að biðja um upplýsingar frá þeim sem eru að flytja hér frv. þar sem stefnan kemur skýrt fram.

Stefna okkar hefur verið að jafna kjörin í landinu sem mest. Við teljum málefnaleg rök fyrir því að miða við tekjur maka, líka hjá öryrkjum. Ég heyri að Samfylkingin telur engin málefnaleg rök fyrir því. Það er niðurstaðan.

Það liggur ljóst fyrir að ef við tökum ákvörðun í aðra átt, t.d. um að hækka þessar 43 þús. kr., sem mér finnst vel koma til greina í framtíðinni, þá er aðalatriðið að Alþingi taki þá ákvörðun. Hið pólitíska vald á að taka slíka ákvörðun vegna þess að dómur Hæstaréttar gefur ekki tilefni til þess. Það er aðalatriði málsins.