Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 18:11:36 (3761)

2001-01-17 18:11:36# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[18:11]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég fékk ekki svar við þeirri spurningu sem ég bar upp, en ég vil vekja athygli á því að það eru heilmargar stofnanir í landinu sem taka að sér að gefa álit, hlutlægt álit á því sem verið er að fjalla um. Til dæmis erum við núna að fjalla um dóm og menn deila um hvernig skilja beri dóminn. Ég nefni stofnun eins og Lagastofnun Háskóla Íslands, hún gerir þetta mjög oft fyrir Alþingi. (LB: Af hverju gerðuð þið það ekki?) Við þurftum þess ekki, við töldum okkur vera með álit fjögurra valinkunnra aðila. Við treystum þeim, en stjórnarandstaðan, herra forseti, treystir þeim alls ekki og hefur haft köpuryrði um þá menn, að þeir séu alveg ómögulegir. Því spyr ég: Af hverju leitar stjórnarandstaðan ekki til hlutlausra aðila til að skilja þennan dóm og til að leggja fram rökstuðning gegn því sem hún segir að sé vitleysa? Stjórnarandstaðan segir að þetta sé vitleysa, segir að þetta sé útúrsnúningur, segir að þetta sé allt bull og hvert einasta mannsbarn geti séð í gegnum þetta, þetta sé mjög eymdarlegt álit o.s.frv.

Af hverju koma menn þá ekki og rökstyðja í hverju það er fólgið í staðinn fyrir að standa hér daginn út og daginn inn, eða fram á nótt og á morgun, að mér skilst, og vera með miklar fullyrðingar um það hversu illa sé staðið að málinu? Væri ekki miklu betra að koma með slíkan rökstuðning? Eða kann það að vera, herra forseti, að menn treysti sér ekki til að búa til slíkt álit? Það skyldi nú ekki vera. Mér dettur það í hug úr því ég fæ engin svör.