Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 18:15:02 (3763)

2001-01-17 18:15:02# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[18:15]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls hafa fulltrúar stjórnarandstöðunnar leitast við að gera grein fyrir aðalatriðum málsins. Enda þótt tíminn sem hverjum ræðumanni er skammtaður sé ekki mjög langur þá er þetta auðvelt verk vegna þess að málið er mjög skýrt. Það er mjög skýrt og það er mjög einfalt. Ríkisstjórnin og stuðningsmenn hennar á Alþingi hafa reynt að drepa þessu einfalda máli á dreif og gera það flókið. Hæstv. utanrrh., formaður Framsfl., kom hingað í ræðustól og sagði að hann hefði aldrei kynnst flóknara máli á sínum ferli. Ég efast ekkert um að þetta mál hafi flækst fyrir honum og ríkisstjórninni. En það er ekki vegna þess að málið sé flókið heldur vegna þess að það er pólitískt erfitt fyrir Framsfl. að fara að skipunum Sjálfstfl. og hæstv. forsrh. eins og hann er að gera nú. Þetta er kjarni málsins.

Dómsorðið, úrskurður Hæstaréttar í þessu máli, telur fáeinar línur á blaði og er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Viðurkennt er að aðaláfrýjanda, Tryggingastofnun ríkisins, hafi verið óheimilt frá 1. janúar 1994 á grundvelli 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 485/1995 að skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega í hjúskap með því að telja helming samanlagðra tekna beggja hjóna til tekna lífeyrisþegans í því tilviki, er maki hans er ekki lífeyrisþegi.

Einnig er viðurkennt, að óheimilt hafi verið að skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega í hjúskap frá 1. janúar 1999 samkvæmt 5. mgr. 17. gr. laga nr. 117/1993, sbr. 1. gr. laga nr. 149/1998.``

Stjórnarandstæðingar á Alþingi hafa farið yfir þetta dómsorð og vísað í þær lagagreinar og skýrt þær lagagreinar sem hér er vikið að. Þetta er alveg kýrskýrt. Samkvæmt úrskurði Hæstaréttar er bannað að skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega með hliðsjón af tekjum maka þeirra. Þetta er mergurinn málsins. Og eins og hér kemur fram er þessi úrskurður byggður á tvennu: Annars vegar á því að á tilteknu árabili, frá ársbyrjun 1994 til ársloka 1998, hafi skort lagastoð fyrir reglugerð sem skerti tekjutrygginguna, að þá hafi skort lagastoð fyrir henni. Í annan stað er það vegna þess að eftir að stjórnarskrá Íslands var breytt árið 1995 og settar inn greinar, 65. gr. og 76. gr., sem kveða á um þessi réttindi einstaklingsins til lífsviðurværis, þá hafi verið óheimilt að skerða tekjutrygginguna með hliðsjón af þeim. Þetta er mergurinn málsins. Og þetta er mjög einfalt mál. Þetta er afar einfalt mál og skýrt. (Gripið fram í: Ótrúlega einfalt.)

Hvað er það þá sem er svona flókið? Í fyrsta lagi segir ríkisstjórnin að skort hafi lagastoð til að fara að þessum dómi, til að hlíta þessum dómi, að ríkisstjórnin hafi ekki haft lagastoð til þess. Þetta teljum við vera alrangt. Fyrr við umræðuna var vísað til þess að í 33. gr. laga um fjárreiður ríkisins er kveðið sérstaklega á um heimild til að bregðast við í tilvikum sem þessum. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Valdi ófyrirséð atvik því að greiða þarf úr ríkissjóði án heimildar í fjárlögum er fjármálaráðherra að höfðu samráði við hlutaðeigandi ráðherra heimilt að inna greiðsluna af hendi enda þoli hún ekki bið.``

Þetta segir í lögum sem við eigum að starfa samkvæmt. Það er heimild til að inna þessar greiðslur af hendi samkvæmt 33. gr. laga um fjárreiður ríkisins.

En hvað er það þá sem á skortir? Hvað skortir þá? Hvað er það sem stendur í vegi fyrir því að greiða öryrkjum fulla tekjutryggingu án skerðingar vegna tekna maka vegna þess að lögin eru þarna fyrir hendi? Það er einvörðungu búið að fella skerðingarákvæðin úr gildi. Hvað stendur í vegi fyrir því? Jú, það kom fram í mjög góðu andsvari frá hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni fyrr í dag. Það skortir lagastoð til að skerða tekjutrygginguna eins og ríkisstjórnin er að leggja til í því frv. sem hér er til umræðu. Það er þá lagastoð sem skortir. Og það er þess vegna sem Alþingi er að reyna að keyra þetta makalausa frv. í gegnum þingið.

Nú vil ég taka eitt fram í upphafi. Á undanförnum árum hefur það verið sem rauður þráður í málflutningi Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, og reyndar stjórnarandstöðunnar allrar og vísa ég þar til málflutnings Samfylkingarinnar og Frjálslynda flokksins á liðnum árum, það hefur verið sem rauður þráður í málflutningi okkar og tillögugerð að bæta kjör öryrkja og þeirra aldraðra sem þurfa að reiða sig á almannatryggingar um framfærslulífeyri. Og við höfum lagt sérstaka áherslu á að bæta kjör þeirra sem lakast standa, sem minnstar hafa tekjur. Þetta hefur verið sem rauður þráður í málflutningi okkar og tillögugerð. Og nú spyr hv. talsmaður Sjálfstfl. í þessu máli, Pétur H. Blöndal, hann hefur greinilega ekki fylgst með þeirri tillögusmíð sem við höfum reitt fram hér á Alþingi og hefur gengið út á þetta og ekkert annað en þetta. Þetta eru staðreyndir.

Í öðru lagi höfum við staðhæft, aftur og ítrekað, að framkvæmd almannatryggingalaga undangengin ár stríði gegn stjórnarskrá landsins. Þessu má víða finna stað í þingskjölum og þinggögnum. Það er því rangt sem fram kom í málflutningi hæstv. heilbrrh. að niðurstaða Hæstaréttar hafi komið mönnum á óvart. Hún kom okkur ekki á óvart. (ÁRJ: Við höfum margflutt um þetta mál.) Við höfum margflutt um þetta mál og við höfum ítrekað bent á þetta í málflutningi okkar hér á Alþingi þannig að þetta er rangt.

Víkjum aftur að málsatvikum. Nú gerist það að upp er kveðinn dómur í Hæstarétti Íslands í máli Öryrkjabandalagsins gegn stjórnvöldum. Hann er kveðinn upp 19. desember. Og eins og ég segi eru niðurstöður þessa dóms mjög skýrar. Ríkisstjórnin velur hins vegar þá leið að skipa sérstakan starfshóp, eins konar yfirdóm, til þess, eins og segir í erindisbréfi til starfshópsins og hann hefur sett fram á prenti í gögnum sínum, ,,að finna leiðir til að bregðast við dómi Hæstaréttar``. Það á ekki að hlíta dómnum. Það á ekki að fara að þeirri niðurstöðu sem Hæstiréttur komst að. Nei, það á að finna færar leiðir til að bregðast við dómnum eða til að koma til móts við hann, eins og hæstv. ráðherrar hafa leyft sér að segja hér. (ÞKG: Útúrsnúningar.) Það á að finna leiðir til þess. Útúrsnúningar, segir hv. þm. Þorgerður Gunnarsdóttir. Og sagði að það væri mat löggjafans að finna út hver væri lágmarksframfærslulífeyrir fyrir einstakling til að framfylgja væntanlega stjórnarskrárvörðum réttindum hans eins og þau eru tilgreind í 65. og 76. gr. stjórnarskrár lýðveldisins, það væri mat löggjafans.

Ríkisstjórnin fór hins vegar þá leið að fá þessa lögspekinga, þessa starfsmenn, til að setja fram þetta mat. Og þeir komust að því, þessir ágætu hálaunamenn, þessir milljón króna menn komust að því að öryrkjanum nægðu 43 þús. kr., ekki 51 þús. kr. eins og kveðið var upp með úrskurði Hæstaréttar. Þetta er staðreynd málsins. Það voru lögspekingar og lögfræðingar sem unnu það verk fyrir ríkisstjórnina. Maður spyr sjálfan sig hvernig á því standi að þessi upphæð var endanlega gerð að niðurstöðu meiri hlutans og ríkisstjórnarinnar. Við fáum engin svör við því og ég mun koma nánar að því hér á eftir að velta vöngum yfir því hvað þessu hafi valdið.

Fólki til upplýsingar þá er það svo að öryrki sem fær fullar bætur getur mest fengið 73.546 kr. á mánuði. Þetta er það sem hann getur mest fengið. Þetta skiptist þannig að í grunninn er upphæð sem er nefnd örorkugrunnlífeyrir og er rúmar 18 þús. kr. Þetta er upphæð innan við 20 þús. kr. Síðan kemur þessi margumtalaða tekjutrygging, sem við erum að ræða um hér, að upphæð 32.500. Um hana er verið að deila. Síðan er þriðja upphæðin eða þriðja skiptingin. Það er heimilisuppbót og sérstök heimilisuppbót, 15 þús. annars vegar og 7 þús. hins vegar, samtals 22--23 þús. kr. Þessi upphæð er til að koma til móts við þá sem búa einir og vikið er sérstaklega að þessu í greinargerð með úrskurði Hæstaréttar. Það er komið sérstaklega til móts við þá sem vegna heimilisaðstæðna þurfa að bera meiri byrðar. Mér finnst að þessar upphæðir allar þyrftu að vera miklu hærri. En þetta er skiptingin. Það er örorkugrunnlífeyrir, síðan þessi tekjutrygging og loks upphæð sem er til að jafna kjör þeirra sem búa einir, þ.e. heimilisuppbót og sérstök heimilisuppbót.

En þetta mál snýst um tekjutrygginguna, þessar rúmlega 32 þús. kr. Í stað þess að fallast á niðurstöðu dómsins ákveður ríkisstjórnin að hafa hluta þessarar upphæðar af öryrkjum. Og hvað er það há upphæð? Það eru 7.566 kr. í mesta lagi.

Við skulum nú gefa okkur að þessi upphæð sé skattlögð því það er hún. Hún skilar sér til skattsins. Hvað stendur þá eftir hjá öryrkjanum? 4.633 kr. Ef það er rétt sem hæstv. utanrrh. staðhæfði í sjónvarpsviðtali fyrir fáeinum dögum, að þetta taki einvörðungu til 700 einstaklinga, hvað erum við þá að tala um háa upphæð? Við erum að tala um 3,2 milljónir á mánuði. Við erum að tala um 38,4 milljónir á ári.

[18:30]

Setjum nú svo að þessi hópur væri fjölmennari, segjum 1.000 manns, segjum 1.200 manns. Hvað værum við þá að tala um háa upphæð? Þá værum við að tala um 5,5 milljónir á mánuði. Við værum að tala um 66 millj. kr. á ári.

Síðan leyfa hv. þm. Pétur H. Blöndal og hæstv. utanrrh., formaður Framsfl., sér að fullyrða að við stöndum frammi fyrir valkostum, annars vegar að hlíta þessum dómi og greiða þessa peninga eins og ríkisvaldinu ber að gera og hins vegar að jafna kjörin gagnvart öllum þeim sem standa höllum fæti í samfélaginu. Hvers konar rugl er þetta? Og maðurinn segist vera tryggingastærðfræðingur. Ég efast um að hann kunni einu sinni að reikna, a.m.k. ekki samkvæmt þessum uppákomum.

Við erum að tala um afar smáar upphæðir þannig að skýringarnar á því að ríkisstjórnin neitar að verða við dómnum og hlíta dómnum geta ekki verið peningalegar eða efnahagslegar. Þær geta ekki verið það. Þær hljóta að vera pólitískar. Þá spyr maður sig þeirrar spurningar: Hver er sú pólitík? Hver er skýringin á því að ríkisstjórnin sér sig knúna til að hafa þessa fjármuni af öryrkjum? Hver er ástæðan fyrir því að hún neitar að hlíta hæstaréttardómi? Það getur ekki verið að það sé til að spara tæpar 40 millj. kr. á ári. Það hljóta að vera aðrar skýringar. Ég spyr hv. þingmenn Sjálfstfl.: Hver er skýringin? Er það til að fylkja sér um foringja sinn sem hefur stillt sér upp í styrjöld gagnvart Öryrkjabandalaginu? Ég spyr hv. þingmenn Framsfl.: Hver er skýringin á því að flokkurinn lætur kúska sig þannig til? Hver er skýringin? Eru þetta peningalegar forsendur eða efnahagslegar eða pólitískar? Hvers vegna leyfir flokkurinn sér og hvers vegna leyfir ríkisstjórnin sér og þingmeirihlutinn að neita því að fara að úrskurði Hæstaréttar? Hverjar eru skýringarnar? Eru þær peningalegar, efnahagslegar? Það getur ekki verið. Hver er þá sú pólitík sem hér býr að baki?

Þegar hv. þm. Þorgerður K. Gunnarsdóttir segir að það sé mat löggjafans og eigi að vera pólitískt mat hans að ákvarða hver upphæðin er sem tryggi stjórnarskrárvarin réttindi einstaklingsins þá er niðurstaðan sú að 43 þús. kr. dugi. Það er niðurstaða ríkisstjórnarinnar og um þá niðurstöðu ætla alþingismenn, þingmenn Sjálfstfl. og Framsfl. að fylkja sér. Ég spyr: Hvers vegna? Hvers vegna ætlið þið að bjóða þessu fólki framkomu af þessu tagi? Hver er skýringin?

Ég hvet þingmenn Sjálfstfl. og Framsfl. til að koma hér upp og skýra það fyrir okkur hvernig á þessu standi.