Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 18:42:57 (3769)

2001-01-17 18:42:57# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[18:42]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Fylgismenn ríkisstjórnarinnar reyna að færa rök fyrir því að dómurinn sé óljós. Við teljum hins vegar að hann sé mjög skýr. Ég las upp dómsorðið og í mínum huga er það mjög skýrt og mjög afdráttarlaust. Engu að síður er um þetta deilt.

Hins vegar hefði ég haldið að það væri óumdeilt að ekkert bannaði að fara að ýtrustu túlkun dómsins, þeirri niðurstöðu sem við teljum vera rétta og greiða einstaklingnum að lágmarki 51 þús. kr. Nú vil ég spyrja hv. þm.: Hvað er það sem stendur í vegi fyrir því að ríkisstjórnin og fylgismenn ríkisstjórnarinnar fari að þessu? Hvers vegna vill þingmeirihlutinn hafa þessa peninga af fólkinu? Hver er skýringin á því? Eru það efnahagslegar forsendur, efnahagsleg rök, peningaleg eða pólitísk? Ég óska eftir upplýsingum um þetta. Það getur vel verið að Pétur H. Blöndal geti eitthvað reiknað.