Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 18:44:15 (3770)

2001-01-17 18:44:15# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÞKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[18:44]

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Þegar dómur er ekki skýr þá er farið í dómsforsendur. Hvað er gert þegar vilji löggjafans er ekki nægilega skýr? Það er farið í greinargerðir, það er farið í ræður þingmanna, nefndarálit og fleira. Það er það sem er verið að gera hér. Það er verið að reyna að útskýra dóminn.

Ég vil meina það að munurinn á meirihluta- og minnihlutaáliti Hæstaréttar sé í fáum orðum sagt þessi, ég vitna í beint í hæstaréttardóminn: ,,Verður tæpast annað sagt en að réttur öryrkja til framfærslu fjölskyldu sinnar verði smár hafi hann aðeins tekjur sem nema grunnörorkulífeyri.`` --- Þær eru 18 þús. kr. Hæstiréttur er að segja: Það má ekki skerða þær meira. Þær tekjuskerðingar sem hafa verið gegnum tekjutrygginguna mega ekki verða það miklar að þær verði allt niður í 18 þús. kr. Það er verið að segja. Það er ekki verið að segja neitt meira. Það er ekki verið að segja neitt annað. Minni hlutinn segir hins vegar: Það er ekki okkar dómstóla að meta þetta, það er löggjafans. Ég leyfi mér að vitna þar í álit minni hluta sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson gerði mjög til þess að reyna að rökstyðja álit meiri hlutans, þar sem segir, með leyfi, herra forseti:

,,Af öllu þessu verður örugglega ráðið að löggjafinn sé bær til að meta hvernig tekjur maka örorkulífeyrisþega komi til skoðunar, þegar þeirri skyldu stjórnarskrárinnar er fullnægt að tryggja þeim öryrkjum lögbundinn rétt til aðstoðar sem ekki geta nægilega séð fyrir sér sjálfir.``

Þetta er að mínu mati grundvallarmunurinn á meiri- og minnihlutaáliti. Það er síðan okkar á löggjafarþinginu að segja hversu miklar þær skerðingar eiga að vera. En tenging við tekjur maka er heimil. Það er alveg skýrt. Það eru útúrsnúningar hjá stjórnarandstöðunni að halda öðru fram. (Forseti hringir.) Hún er að skáskjóta sér undan þeirri spurningu að ... (Forseti hringir.) Herra forseti. Ég lýk hér með máli mínu.