Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 18:46:31 (3771)

2001-01-17 18:46:31# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[18:46]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Við erum rétt farin að átta okkur á afstöðu skerðingarflokkanna, við erum að byrja að átta okkur á henni.

Ég hef hins vegar staðhæft og ekki fengið nein mótrök gegn því að ekkert banni að greiddar séu að lágmarki rúmar 51 þús. kr. í grunnlífeyri, að það sé tekjutryggingin. Hver er skýringin á því að fylgismenn ríkisstjórnarinnar vilja hafa þessar rúmlega 7.500 kr. af öryrkjum? Hver er skýringin? Eru það efnahagslegar forsendur? Er það til að spara peninga, þ.e. innan við 40 millj. kr. á ári, eða er skýringin pólitísk? Er ástæðan sú að ríkisstjórnin á í stríði við öryrkja og samtök þeirra? Hver er skýringin?

Ég óska eftir skýringu af hálfu fylgismanna ríkisstjórnarinnar fyrir því hvers vegna hún vill hafa þessa peninga af öryrkjum þótt hún telji fyrir því lagaleg rök. Hverjar eru hinar pólitísku, mannlegu skýringar? Ég óska eftir þeim.