Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 19:25:12 (3779)

2001-01-17 19:25:12# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[19:25]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég hygg að hv. þm. taki þar með undir orð hv. þm. Péturs Blöndals sem gefur það til kynna að skattgreiðslur eða greiðslur þeirra sem minnst hafa sé tekið til að borga öðrum örlítið meira úr opinberum sjóðum. Umræðan er svo fráleit og á þvílíkum villigötum að það er varla hægt að hugsa sér hana hér í þingsölum.

Þess vegna hef ég dregið hér fram þrjá hópa sem ríkisstjórnin hefur hyglað með gífurlegum fjárhæðum. Þar væru til peningar, ekki bara til að gera þær breytingar sem við höfum hér talað fyrir heldur einnig til að hækka skattleysismörkin og verða þannig við beiðni ASÍ fyrir jólin um að láta það koma fram í skattleysismörkum sem er að gerast í breytingum á verðlagi og öðru.

Ég ætla líka að nefna það vegna þess að það hefur komið fram hjá Öryrkjabandalaginu í fjölmiðlum að það er algjör samstaða um það hjá öryrkjum að knýja á um að dómnum verði fullnægt. Þegar ég segi fullnægt þá er það með því að þeir sem um ræðir fái þessar 51 þús. kr. Ég ætla því að spyrja þingmanninn, af því það hefur aldrei komið skýrt fram af hálfu stjórnarmeirihlutans, hvort sem ráðherra hefur átt í hlut eða þingmenn: Af hverju er 43 þús. kr. passleg upphæð? Er það nógu lágt til að særa ekki réttlætiskennd þingmannsins eða annarra þeirra sem greiða skatta? Af hverju ekki 51 þús. kr.? Af hverju 43 þús. kr.? Hvar eru mörk réttlætiskenndar stjórnarmeirihlutans?