Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 20:33:57 (3793)

2001-01-17 20:33:57# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, JBjart
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[20:33]

Jónína Bjartmarz:

Herra forseti. Ég vil taka það fram í upphafi máls míns að það er einlæg sannfæring mín sem bæði lögfræðings og alþingismanns að með frv. því sem hér er til umræðu sé verið að mæta dómi Hæstaréttar og fullnægja dómi Hæstaréttar, svo ég kveði skýrt að, í svokölluðu öryrkjamáli.

Mér finnst rétt að taka það fram að það er venja sem ég held að enginn dragi í efa að þegar viðurkenningardómur gengur, þá er reglan sú að dómsmál er höfðað á grundvelli þess dóms til að fá dóm fyrir tilteknum réttindum sem hægt er að krefja um. Í viðurkenningarmáli er ekki dæmt um tilteknar kröfur sem settar eru fram.

Það segir reyndar skýrt í forsendum dómsins, sem hefur margoft verið vitnað til hér, að af niðurstöðu málsins verði ekki dregin ályktun um rétt hvers einstaks lífeyrisþega. Sú leið var að mínu mati vissulega fær eftir að dómur gekk að aðhafast nákvæmlega ekki neitt en bíða niðurstöðu í dómsmáli sem væri þá til þess fallið að skýra viðurkenningardóminn og hvaða rétt þeir öryrkjar sem stefnt var út af í málinu ættu samkvæmt dómnum. En strax og viðurkenningardómurinn gekk var farið að kalla eftir efndum á greiðslum á grundvelli dómsins og urðu strax miklar deilur um það hvað dómurinn segði eða segði ekki. Ég held að óhætt sé að staðhæfa að allir lögfræðingar sem hafa lesið dóminn séu á einu máli um eitt. Þeir eru á einu máli um að dómurinn sé ekki skýr. Dómurinn er heldur óskýr og dómurinn er flókinn.

Það er alveg sama hvað þingmenn stjórnarandstöðunnar segja það hátt og hvað þeir segja það oft að þessi dómur sé skýr. Ég held að þeim takist ekki að sannfæra nokkurn mann um það, hvorki löglærðan né ólöglærðan.

Lögfræðingar á hinn bóginn eru almennt á þeirri skoðun að dómurinn veki mun fleiri spurningar en hann svarar og því hafi ekki verið hægt að greiða þeim öryrkjum sem dómurinn tekur til á grundvelli dómsins. Dómurinn svaraði því ekki hvaða fjárhæð skyldi greiða eða hve langt aftur í tímann. Það lá heldur ekki fyrir hvaða vextir væru kræfir, hvaða framkvæmd skyldi vera á greiðslum eða skattaleg meðferð þeirra. En vegna orða hv. þm. Ögmundar Jónassonar í umræðunni fyrr í dag þegar hann hélt því fram að dómurinn hefði fellt úr gildi skerðingarákvæði 5. mgr. 17. gr. almannatryggingalaganna, þá stendur eftir sú spurning: Hvaða skerðingarákvæði þess ákvæðis felldi hann úr gildi? Er hv. þm. Ögmundur Jónasson að meina alla 5. mgr. eða einungis síðari málslið 5. mgr.? Ástæðan fyrir því að ég spyr er sú að ef ákvæðið var fellt úr gildi að öllu leyti, þá stendur eftir sú krafa stjórnarskrárinnar að mælt skuli fyrir um þetta í lögum, hvernig þessu skuli háttað. Þá þarf að setja lög til að bæta úr því. Ákvæðið í það heila kveður ekki eingöngu á um skerðingu, það kveður jafnframt á um rétt öryrkjans til tekjutryggingarinnar, þá er þar með sá réttur líka farinn og það sem ákvæðið inniheldur jafnframt að skuli skerðast af eigin tekjum. Ef hann er að meina síðari málsliðinn þá bendi ég á að niðurstaðan gæti orðið sú að einungis þeir sem eru með tekjur innan við 1.611 þús. á ári fengju einhverja tekjutryggingu en þeir sem væru þar fyrir ofan og upp að 2,2 millj. kr. í árslaun fengju ekki neitt.

Til þess að hægt væri að greiða sem allra fyrst þeim öryrkjum sem dómurinn varðar, í stað þess að bíða niðurstöðu dómstóla, sem svaraði öllum þeim spurningum sem viðurkenningardómur Hæstaréttar vekur, þá varð frv. að koma fram og lögfesting þess frv. er forsenda greiðslu. En þeim spurningum öllum sem dómurinn vekur er leitast við að svara í lagafrv. því sem hér er til umræðu. Eins og allir vita byggir frv. á vinnu starfshóps sem í voru m.a. reyndir lögfræðingar sem fengnir voru til að skýra og túlka dóminn. Hvort niðurstöður þeirra og efni og fyrirkomulag frv. er í bága við dóm Hæstaréttar eiga auðvitað dómstólar landsins þegar upp er staðið endanlegan úrskurð um. Því hefur af stjórnarandstöðunni, nánar tiltekið formönnum stjórnarandstöðuflokkanna, verið haldið fram að frv. þetta, ef það verður að lögum, brjóti í bága við stjórnarskrána. Úrskurðarvaldið og lokaorðin um það eins og annað sem varðar viðurkenningardóminn eiga dómstólar en fráleitt er að setja fram kröfu um að forseti Alþingis skeri þar úr.

Herra forseti. Viðurkenningardómurinn reisir eingöngu ákveðnar en ótilteknar skorður við tengingu örorkubóta við tekjur maka. Hann segir ekki samkvæmt skilningi mínum og sannfæringu að tekjutengingar sem slíkar séu í bága við mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar. Það er grátbroslegt að heyra þá sem þykjast vera helstu boðberar félagshyggju og samtryggingar og jafnaðar í þjóðfélaginu halda því fram að dómurinn afnemi tekjutryggingar og heimta að honum sé fullnægt samkvæmt þeim ætlaða skilningi.

Herra forseti. Dómurinn fjallar heldur ekki að mínu viti um stjórnarskrárverndaðan lágmarksframfærslueyri öryrkja, svo sem jafnframt hefur víða verið haldið fram. Um lágmarksframfærslu öryrkja var heldur ekki spurt í þessu dómsmáli enda lýtur dómurinn bara að öryrkjum í hjúskap og um þá gildir eftir dóminn sem áður óhögguð reglan um gagnkvæma framfærsluskyldu hjóna. Dómurinn tekur hins vegar afstöðu til þess að fyrirkomulag 5. mgr. 17. gr. almannatryggingalaga á skerðingu örorkubóta vegna tekna maka tryggi öryrkjum ekki þau lágmarksréttindi sem felast í 76. gr. stjórnarskrárinnar. En sú grein, eins og við vitum, fjallar m.a. um félagsleg og efnahagsleg réttindi og hún er ekki talin tryggja þeim þau lágmarksréttindi sem 76. gr. á að tryggja þeim þannig að þeir fái notið jafnræðis og mannréttinda skv. 65. gr. Í forsendum dómsins er auk þess kveðið upp úr um gagnkvæma framfærsluskyldu hjóna og að ekki sé aðeins um skyldu að ræða heldur einnig rétt öryrkjans til framfærslu og þar segir að tæpast verði annað sagt en að réttur öryrkja til framfærslu fjölskyldu sinnar verði smár hafi hann aðeins tekjur sem nema grunnörorkulífeyri eða um 18 þús. kr.

Með frv. er tryggt að þessi réttur öryrkja í hjúskap fari aldrei niður fyrir rúmar 43 þús. kr. Með fyrirkomulagi frv. er að auki áfram haldið í tekjutengingar í almannatryggingakerfinu í anda félagshyggu, samtryggingar og þess grunns sem Framsfl. jafnt fyrir og eftir þennan dóm byggir á. En hvað þá fyrningarreglu varðar sem frv. byggir á þá virðist mér ótvírætt að fjögurra ára fyrningarfrestur eigi að gilda því að ekki sé um skaðabótakröfu að tefla með 10 ára fyrningu. Þó að ekki sé skylda að bera fyrir sig fyrningu svo sem hér hefur oft komið fram í dag, þá hlýtur að vakna spurning um hvaða rétt ríkisvaldið hafi gagnvart skattborgurum til að greiða í þessu tilviki frekar en í ýmsum öðrum umfram þá lagaskyldu sem það telst bera. Með því færi enda til ráðstöfunar til þessa hóps öryrkja og maka þeirra ekki svo ýkja stór en stór biti samt af sameiginlegri köku sem ella væri hægt að ráðstafa til þeirra öryrkja sem standa sannanlega verr og fá ekkert á grundvelli þessa hæstaréttardóms.

Það hafa verið viðhöfð mörg orð og stór tengd þessu erfiða máli og hæstaréttardómnum og margir sem hafa reynt slá ryki í augu fólks og reynt að upphefja sjálfa sig með þessu máli. Menn hafa notað orð eins og ránsfengur, stjórnarskrárbrot, einræði valdhafa og mannréttindabrot á öryrkjum, sem hefur heyrst oftast, án þess að gerður sé nokkur greinarmunur á aðstöðu mismunandi hópa öryrkja og án þess að þess sé mikið látið getið eða nokkuð látið getið að dómur Hæstaréttar varðar aðeins örlítinn hóp eða lítinn hóp öryrkja og þá öryrkja sem sannanlega, ég held að það deili enginn um það, eru ekki verst settir.

Pólitískur tilgangur stjórnarandstöðunnar með stóryrðum og upphrópunum er auðvitað öllum ljós en ég spyr um siðferðilega og samfélagslega ábyrgð stjórnarandstöðunnar og ýmissa annarra sem hafa fjallað um þetta mál. Ástæðan fyrir því að ég spyr að því er sú að umfjöllun þeirra um dóminn og viðbrögð ríkisstjórnarinnar með alhæfingum, upphrópunum og stóryrðum hefur vakið væntingar hjá þeim stóra hópi öryrkja sem er mun verr settur og hefur minnstar ráðstöfunartekjur. Vonbrigði þessara verða sár þegar sannleikurinn verður þeim ljós og ábyrgðina á vonbrigðum og sárindum þeirra sem fá ekkert út úr dómnum hljóta þeir að axla sem vöktu þessar væntingar. Óumdeilt er að þeir sem njóta góðs af dómi Hæstaréttar eru þeir öryrkjar í hjúskap eða sambúð sem hafa ásamt maka sínum yfir 1.611 þús. kr. í árslaun og allt að 2,2 millj. kr.

Hvað varðar síðan þá öryrkja og aðra lífeyrisþega sem verst eru staddir og einskis njóta á grundvelli þessa dóms, þá liggur fyrir sú yfirlýsing hæstv. heilbr.- og trmrh. Ingibjargar Pálmadóttur af hálfu ríkisstjórnarinnar að nefnd sú sem vinnur að endurskoðun almannatryggingakerfisins skuli hraða vinnu sinni og taka sérstaklega til þeirra hópa lífeyrisþega sem fá ekki hækkun bóta í kjölfar dómsins. Það liggur líka fyrir að að þessari vinnu skuli koma ekki bara samtök öryrkja heldur einnig samtök aldraðra og aðilar vinnumarkaðarins.

Umfjöllun ýmissa hefur líka verið til þess fallin að veikja traust almennings ekki aðeins á framkvæmdarvaldinu heldur líka á dómstólum. Þegar á það hefur verið bent, svo sem ég gerði í upphafi máls míns, að endanlegt mat á því hvort með frv. því sem hér er til umræðu sé verið að hlíta dómi Hæstaréttar, þ.e. hvort sá skilningur á dómi Hæstaréttar sem frv. byggir á sé réttur, að endanlegt mat eigi dómstólar, úr því verði ekki skorið í sölum hins háa Alþingis, þegar þessu hefur verið haldið fram, þá hefur því verið kastað fram af fulltrúum stjórnarandstöðu að slíkar ábendingar séu gerðar í þeirri von að dómarar í því máli verði hagstæðari og vilhallari ríkisstjórninni en dómararnir þrír sem meiri hluti dómenda í öryrkjamálinu var.

Herra forseti. Ég spyr aftur og vænti svars við því hvað mönnum gengur til og hvað veitir þeim rétt til að veikja tiltrú almennings á dómstólum í landinu. Pólitískir stundarhagsmunir geta ekki réttlætt að grafið sé undan öllu trausti í samfélaginu og svo virðist nú sem dómurinn og deilurnar sem um hann hafa spunnist séu einstakur hvalreki á fjörur stjórnarandstöðunnar. Auðvitað er það sjálfsagt að það sé borið undir dómstóla hvort skilningur framkvæmdar- og lagasetningarvaldsins á dómi Hæstaréttar og svör frumvarpsins við öllum þeim spurningum sem viðurkenningardómurinn vekur en lætur ósvarað sé réttur. Það er eðlilegt að dómstólar svari því hvort skilningurinn sé réttur og samrýmist dómnum og mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar. Auðvitað þurfa ekki eins og stundum hefur verið blásið upp allir öryrkjar að fara í mál verði þetta frv. að lögum. Prófmál eins á að duga og ef þannig háttar um tekju- og eignarstöðu hans og maka hans að hann uppfylli skilyrði laga um gjafsókn getur hann höfðað og rekið málið sér og öðrum að kostnaðarlausu auk þess sem slíkt mál fengi samkvæmt ákvæðum laga augljóslega flýtimeðferð fyrir dómi og niðurstaða gæti legið fyrir mjög fljótlega. Þá fyrst er í rauninni tekinn af allur vafi. Þeirri niðurstöðu hljótum við öll að hlíta.

Herra forseti. Hvað efnisatriði frv. varðar þá hefur verið hreyft fleiri en einu lögfræðilegu sjónarmiði um túlkun á framkvæmd dómsins og að þeim verður m.a. hugað í meðförum hv. heilbr.- og trn. sem ég geri ráð fyrir að fái frv. til meðferðar að lokinni þessari umræðu. Ég vænti þess að innan nefndarinnar verði góð samstaða um að veita frv. vandaða og málefnalega meðferð og m.a. verði farið ítarlega ofan í túlkun á dómi Hæstaréttar um öll þau atriði sem nefndarmönnum finnst ástæða til.