Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 20:53:26 (3798)

2001-01-17 20:53:26# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[20:53]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil spyrja hv. þm. hvort hún telji eðlilegt að öryrki missi fjárhagslegt sjálfstæði sitt við að ganga í hjúskap þegar framfærslueyrir hans lækkar við það úr 73 þús. niður í 43 þús.

Ég vil líka spyrja hv. þm. hvort hún telji, þegar hún talar um framfærslurétt hjóna, að hann virki ekki í báðar áttir þannig að öryrkinn geti líka haft framfærsluskyldu. Síðan vil ég spyrja hv. þm. hvernig þetta mat er fundið um 43 þús. Er bara puttinn settur upp í loftið, vegna þess að það er hvergi hægt að finna svona lág framfærsluviðmið í þjóðfélaginu hvort sem litið er til fjárhagsaðstoðar sveitarfélaga, lágmarkslauna fólks eða atvinnuleysisbóta. Það er ekki neins staðar svona lág viðmiðun. Hvernig er þetta fundið?

Formaður nefndarinnar, Jón Steinar Gunnlaugsson, sagði að þetta væri bara mat. Hvaða mat og forsendur liggja hér að baki?