Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 20:55:45 (3800)

2001-01-17 20:55:45# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[20:55]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ef framfærsluskyldan er líka öryrkjans, sem er alveg rétt, hvernig getur þá hv. þm. ráðlagt öryrkjanum hvernig hann eigi að framfæra fjölskyldu sína á svona lágu mati sem stjórnarflokkarnir eru nú að skammta honum? Þeir eru að skammta honum mannréttindi. Hann hefur lögvarðan rétt samkvæmt stjórnarskránni um lágmarksframfærslu. Eru 43 þús. kr. að mati þingmannsins nægjanlegar fyrir öryrkja til að framfleyta fjölskyldu sinni? Og finnst þingmanninum eðlilegt að öryrki missi fjárhagslegt sjálfstæði sitt við það að ganga í hjónaband?

Ég vil líka spyrja þingmanninn þar sem hún talar um að þetta veiki traust á dómstólunum. Veikir það ekki traust á dómstólunum að tala um að niðurstaða dómsins, dómsorðið, sé pólitískt og það sé slys? Eru það ekki fyrst og fremst stjórnarliðar sem eru að veikja traust á dómstólunum með málflutningi sínum?