Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 20:59:25 (3803)

2001-01-17 20:59:25# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, JBjart (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[20:59]

Jónína Bjartmarz (andsvar):

Herra forseti. Með því að dunið hefur yfir landslýð dögum og vikum saman þetta slagorð að verið væri að brjóta mannréttindi á öryrkjum þá hefur það vakið væntingar hjá fjölda öryrkja sem búa kannski við verst kjör og ég þori að fullyrða að sárindi þeirra verða mikil og vonbrigðin mikil þegar þeir uppgötva að þeir fá ekkert út úr þessu dómsmáli. Þannig hafa slagorðin verið.

En varðandi það að ég væri að verja ríkisstjórnina þá tók ég það fram í upphafi máls míns að ég hefði sannfæringu fyrir því bæði sem lögfræðingur og líka sem þingmaður sem unnið hefur eið að stjórnarskránni eins og aðrir þingmenn hér, að við værum að fullnægja dómnum og ég reikna með því að ég haldi þeirri sannfæringu þangað til dómstólar komast að öðru. Ég ætla samt ekki að útiloka það þegar máli þessu verður vísað til meðferðar í hv. heilbr.- og trn. og við förum þar ofan í öll þau lögfræðilegu atriði sem hér hefur svo mikið verið rætt um og margir tekið stórt upp í sig um að einungis einn skilningur á þessum dómi væri réttur.