Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 21:00:37 (3804)

2001-01-17 21:00:37# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[21:00]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það fór sem mig grunaði. Hv. þm. nefndi engin dæmi til sönnunar ásökunum sínum um að eitthvað í málflutningi stjórnarandstöðunnar, því sem komið hefur í fjölmiðlum eða frá samtökum öryrkja hafi gefið tilefni fyrir þessu endalausa jarmi um að menn séu sekir um að hafa vakið óraunhæfar væntingar. Hvenær hafa menn fjallað um efnisatriði þessa dóms þannig að ástæða væri til að ætla að eitthvað annað fælist í honum en raun ber vitni? Ég bið um dæmin. Í það minnsta hefur tekist að plata þannig 88% þessara örfáu sem eftir eru í stuðningsmannahópi Framsfl. að þeir eru algjörlega á móti viðbrögðum ríkisstjórnarinnar. Er trúverðugt að tekist hafi að plata heila þjóð upp úr skónum þannig að hún haldi að eitthvað allt annað felist í þessu máli en er í reynd?

Hæstv. forsrh. hefur fengið heila sjónvarpsþætti og talsmenn ríkisstjórnarinnar breitt úr sér á síðum dagblaðanna við að reyna að verja og útskýra afstöðu ríkisstjórnarinnar. Það hefur þó ekki tekist betur en þetta.