Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 21:41:14 (3810)

2001-01-17 21:41:14# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[21:41]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Að sjálfsögðu kallar Alþingi til sérfræðinga og ég verð að segja að mér þykja þessi síðustu orð hæstv. utanrrh. vera útúrsnúningur. Að enginn maður í lögfræðingastétt sé trúverðugur hvað sem hann nú starfar þá eru menn einfaldlega ekki sammála um þetta, það vitum við öll. Lögfræðingar eru ekki alltaf sammála um niðurstöður og þess vegna er svo mikilvægt, herra forseti, að leitað sé til manna sem starfa ekki hjá ríkisstjórninni til þess að meta þetta. Þess vegna er það svo mikilvægt að einnig séu tekin inn sjónarmið annarra lögmanna, sem t.d. einn af virtustu mannréttindasérfræðingum Íslendinga hefur starfað fyrir Öryrkjabandalagið að þessum málum, Ragnar Aðalsteinsson. Það er það sem ég er að benda á. Ég er ekkert að segja að eitthvað sé rétt eða rangt í þessu. Ætli ríkisstjórnin að vera trúverðug í þessu máli, hafi hún haft vilja til að leysa þetta vandamál og komast að niðurstöðu sem báðir aðilar málsins eru sáttir við, þá hefði ekki neitt verið verið eðlilegra en hún hefði skipað hóp óvilhallra manna eða a.m.k. gefið hinum aðilanum kost á að eiga sinn mann í nefndinni.