Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 21:48:17 (3815)

2001-01-17 21:48:17# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÞKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[21:48]

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Bryndísi Hlöðversdóttur fyrir mjög málefnalega ræðu áðan. Hún var að mínu mati sú málefnalegasta af hálfu stjórnarandstöðunnar nú í dag. En þrátt fyrir að ég sé ekki sammála henni í öllum atriðum þá komu þarna mjög athyglisverð lögfræðileg atriði inn. Ég er ekki sammála hv. þm. Bryndísi Hlöðversdóttur um það hvernig eigi að útskýra dóminn. Við erum auðvitað að ræða þetta frv. í dag og fólk er ekki sammála um hvernig á að útskýra dóminn.

Ég hef útskýrt það hér áður að ég tel að meiri hluti Hæstaréttar hafi túlkað það sem svo að ekki megi skerða tekjutrygginguna meira en svo að það verði alltaf að vera meira en 18 þús. kr. eftir. Aldrei má skerða tekjutrygginguna meira en svo. Gott og vel. Minni hlutinn segir: Þetta mat viljum við ekki hafa. Þetta mat á löggjafinn að hafa.

Þessa skoðum sá ég líka m.a. í Degi í dag hjá einum helsta gúrú Samfylkingarinnar, Stefáni Jóni Hafstein, þar sem hann segir einmitt þetta sem ég var að segja um 18 þús. kallinn, þ.e. Hæstiréttur er einfaldlega að segja: Það er of lítið. En hann segir ekki hversu mikið megi skerða tekjutryggingu örorkubóta.

Hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir gat þess áðan að 51 þús. væri í rauninni sú upphæð sem væri varin af stjórnarskrá. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hafa einnig sagt hér í dag að 51 þús. séu í rauninni sú upphæð sem um sé að ræða til þess að ekki sé verið að ganga gegn Hæstarétti eins og þeir skilja dóminn.

Því vil ég spyrja hv. þm. Bryndísi Hlöðversdóttur: Ef við værum að ræða frv. þar sem gengið væri að þessu, að 51 þús. væru til hjóna (Forseti hringir.) en jafnframt frv. þar sem ákveðið væri að einstaklingur ætti að fá 60 þús. (Forseti hringir.) væri þá jafnframt verið að ganga að stjórnarskránni?