Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 21:54:12 (3819)

2001-01-17 21:54:12# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, TIO
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[21:54]

Tómas Ingi Olrich:

Herra forseti. Þótt umræðan um lagafrv. sem hér liggur fyrir hafi farið nokkuð út um víðan völl, sem eðlilegt er í viðamiklu og mikilvægu máli sem þessu þá hefur það skýrst nokkuð um hvað ágreiningurinn stendur. Ljóst er að stjórnarflokkarnir telja óhjákvæmilegt að leggja fram lagafrv. og það er ljóst að þeir telja að lagafrv. sem lagt er fram feli ekki í sér brot á stjórnarskránni.

Að því er stjórnarandstöðuna varðar er ljóst að stjórnarandstaðan í heild telur að lagafrv. sem hér er til umræðu sé brot á stjórnarskránni samkvæmt dómi Hæstaréttar. Hins vegar verð ég að viðurkenna að ekki er fyllilega ljóst í mínum huga hvort stjórnarandstaðan er í raun sammála um það að lagasetning hafi ekki verið nauðsynleg. Þegar litið er á rökstuðning ákveðinna þingmanna stjórnarandstöðunnar, og þá kannski sérstaklega þeirra úr flokki Samfylkingarinnar sem eru löglærðir, verður að draga í efa að sú fullyrðing að lagasetning hafi ekki verið nauðsynleg standist. Ég mun koma að þessu nánar hér á eftir.

Í fyrsta lagi skulum við huga að því hvort lagasetning sé nauðsynleg eða ekki. Mig langar til þess að byrja þá umfjöllun um nauðsyn á lagasetningu með því að vitna í sératkvæði hæstaréttardómaranna Garðars Gíslasonar og Péturs Hafsteins en þeir segja, með leyfi hæstv. forseta:

,,Af framansögðu er ljóst, að öryrkjar eiga stjórnarskrárvarinn rétt á aðstoð samfélagsins, ef þeir geta ekki nægilega séð sér farborða sjálfir. Um þessa aðstoð skal mæla í lögum. Það er verkefni löggjafans en ekki dómstóla að kveða á um inntak og umfang þeirrar opinberu aðstoðar, sem öryrkjum er látin í té. Dómstólar geta hins vegar metið, hvort lagasetning um þessi málefni samrýmist grundvallarreglum stjórnarskrárinnar.``

Síðan komast þeir að þeirri niðurstöðu að ekki standi efni til þess að dómstólar haggi því mati enda hefur ekki verið sýnt fram á með haldbærum rökum að staða öryrkja í hjúskap geti vegna tekna mata orðið á þann veg að stjórnarskrárvarinn réttur þeirra til samhjálpar sé fyrir borð borinn. Þetta er niðurstaða minni hluta réttarins.

Hvað segir meiri hlutinn um það verkefni löggjafans að kveða á um inntak og umfang þeirrar opinberu aðstoðar sem öryrkjum er látin í té? Ýja þeir að því einhvers staðar að það sé hlutverk dómstólanna að ákveða þetta inntak og þetta umfang? Um það eru þeir ekki eins skorinorðir og minni hlutinn. Þó víkja þeir að þessu þar sem þeir segja:

,,Það er viðurkennd regla að norrænum rétti að skýra skuli lög til samræmis við alþjóðasamninga, sem ríki hefur staðfest eftir því sem kostur er. Samkvæmt framanrituðu verður 76. gr. stjórnarskrárinnar skýrð á þann veg að skylt sé að tryggja að lögum rétt sérhvers einstaklings til að minnsta kosti einhverrar lágmarksframfærslu eftir fyrir fram gefnu skipulagi, sem ákveðið sé á málefnalegan hátt. Samkvæmt 2. gr. stjórnarskrárinnar hefur almenni löggjafinn vald um það hvernig þessu skipulagi skuli háttað.``

Með öðrum orðum ýjar meiri hluti Hæstaréttar ekki að því að þetta skipulag skuli ákveðið af réttinum. Hann telur að það sé hlutverk löggjafans að ákveða þetta. Að þessu leyti eru bæði meiri hlutinn og minni hlutinn sammála um að það sé hlutverk löggjafans að ákveða þetta. Því er mjög brýnt að menn átti sig á því að dómstóllinn kveður ekki úr um það hvernig þessi réttindi skuli tryggð. Það er löggjafans að gera það. Um það eru báðir aðilar sammála.

Um það sem hér hefur verið deilt um, þ.e. hvort dómurinn feli það í sér að ekki megi tengja tekjur makans við tekjutrygginguna og skerða tekjutrygginguna á grundvelli tekna makans, er óneitanlega ekki mjög skýrt orðalag að finna í áliti meiri hlutans. Þar stendur, með leyfi forseta, að það geti átt við málefnaleg rök að styðjast að gera nokkurn mun á greiðslum til einstaklinga úr opinberum sjóðum eftir því hvort viðkomandi sé í sambúð eða ekki.

[22:00]

Þarna er ýjað að því að gera megi þennan mun. Hér í þingsalnum hefur orðið allmikil umræða um það hvort dómurinn feli í sér að slíkar tekjutengingar séu almennt óheimilar. Það er ljóst að formaður Samfylkingarinnar treystir sér ekki til að svara til um það þótt aðrir þingmenn Samfylkingarinnar hafi fullyrt að dómurinn feli í sér svo afdráttarlausa neitun á heimild löggjafans til að setja ákvæði um tekjutengingar. Það verður því að skoða hvort niðurstaðan er á þann veg að skerðing á tekjutryggingu vegna tekna maka sé með öllu óheimil. Dómsorðið sjálft er svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

,,Einnig er viðurkennt, að óheimilt hafi verið að skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega í hjúskap frá 1. janúar 1999 samkvæmt 5. mgr. 17. gr. laga nr. 117/1993, sbr. 1. gr. laga nr. 149/1998.``

Þannig hljóðar dómsorðið. Þegar við lítum í forsendur dómsins kemur fram að forsendur fyrir þessari niðurstöðu eru að í lögunum hafi verið kveðið á um ákveðinn hátt sem ekki standist stjórnarskrána. Orðrétt segir:

,,Í samræmi við það, sem að ofan greinir, er fallist á þá kröfu gagnáfrýjanda, að viðurkennt verði að óheimilt hafi verið að skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega í hjúskap frá 1. janúar 1999 á þann hátt sem gert er í 5. mgr. 17. gr. laga nr. 117/1993, sbr. 1. gr. laga nr. 149/1998.``

Þetta má, með öðrum orðum, ekki gera á þennan hátt. Á hvaða hátt þetta er heimilt segir rétturinn ekki. Að sjálfsögðu verða menn að gagnálykta að ef það er ekki heimilt á þennan hátt þá sé dómurinn að gera því skóna að það sé heimilt með öðrum hætti. Þetta er deginum ljósara. Það er ekki nóg með að dómurinn komist að þessari niðurstöðu í forsendum sínum heldur vitnar hann beinlínis til þess að gagnáfrýjandinn leggi málið fyrir með þessum hætti, með þeim hætti að krefjast þess að óheimilt verði að skerða tekjutenginguna vegna tekna maka á þennan hátt. Að þessu leyti er ekki hægt að horfa fram hjá forsendum Hæstaréttar. Kjósi menn að horfa fram hjá þessu þá er það vísbending um ákveðinn veikleika í málflutningi þeirra.

Hitt deiluatriðið, sem er ekki síður mikilvægt, varðar það hvort lagasetning sé nauðsynleg eða ekki. Ég ætla ekki að endurtaka það sem hv. þm. Jónína Bjartmarz, formaður heilbr.- og trn., rakti um áhrif þess í öllum atriðum. Ég ætla ekki að endurtaka það en ég verð þó að koma inn á þetta vegna þess að hér er um að ræða mjög mikilvægt atriði, ekki síst í ljósi málflutnings stjórnarandstöðunnar og þá ekki síst hinna löglærðu í hópi Samfylkingarinnar sem hér sitja á Alþingi og er mikill styrkur að nærveru þeirra.

Ákvæðið sem dómurinn snýst um er 5. mgr. 17. gr. laganna. Ég las áðan upp dómsorðið: ,,Einnig er viðurkennt, að óheimilt hafi verið að skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega í hjúskap frá 1. janúar 1999 samkvæmt 5. mgr. 17. gr. laga nr. 117/1993, sbr. 1. gr. laga ...``

Ef við eigum að skilja þetta þannig, sem mér finnst engan veginn gefið, að ákvæðið feli það í sér að afnema annaðhvort ákveðna málsgrein laganna ellegar ákveðinn hluta af þessari málsgrein þá gerist nú ýmislegt. Það liggur fyrir að hv. þm. Lúðvík Bergvinsson hefur lýst því yfir að hann telji að dómur Hæstaréttar þýði að ákvæðið sé niður fallið. Hann hefur lýst því yfir að ákvæðið sé niður fallið. Ætla menn þá að láta sem það leggi engar skyldur á herðar löggjafanum ef þetta ákvæði fellur niður, að það þýði ekki að löggjafinn verði að gera svo vel og bregðast við enda sé það skylda hans? Hvað gerist ef þetta ákvæði fellur eins og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson hefur fullyrt hér? Mér heyrist að hann eigi skoðanabræður í þeim efnum í þingsalnum.

5. mgr. kveður á um réttindi hjóna þegar aðeins annað hjóna nýtur örorkulífeyris og sameiginlegar tekjur þeirra eru ekki hærri en 1.086 kr. Þessi upphæð er reyndar orðin talsvert hærri núna því að hún er 1.611 þús. kr. ,,Skal þá greiða,`` takið eftir orðalaginu, og skal þá greiða tekjutryggingu til viðbótar lífeyri þess að upphæð ákveðnar krónur. Þetta ákvæði tryggir að þegar aðeins annað hjóna nýtur örorkulífeyris og sameiginlegar tekjur hjónanna ná ekki ákveðinni upphæð, þá skuli greiða tekjutryggingu. Ef þetta ákvæði fellur brott þá er ekki heimild til að borga tekjutryggingu. (ÁRJ: Skerðingarákvæði ... ) Það liggur í augum uppi. Þá standa eftir ákvæði ...

(Forseti (ÍGP): Má ég minna hv. þm. á að einn ræðumaður heldur ræðu. Ég vil minna hv. 15. þm. Reykv. á að hann hefur þegar haldið ræðu og er á mælendaskrá. Það er engin ástæða til að vera með gjamm og grípa fram í á þennan hátt.)

Ég vil minna á að 6. mgr. 17. gr. kveður á um stöðu hjóna sem bæði njóta örorkulífeyris. Standi það ákvæði áfram breytir það ekki stöðunni þar sem annað hjóna nýtur örorkulífeyris.

8. mgr. skilgreinir stöðu hjóna sem bæði eru lífeyrisþegar. Annað er örorkulífeyrisþegi en hitt ellilífeyrisþegi. Standi þau atriði eftir þá breytir það ekki heldur stöðu hjóna sem skilgreind eru í 5. mgr. Það liggur þess vegna alveg ljóst fyrir að ef þessi málsgrein er úr gildi fallin, eins og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson álítur, þá er fallin niður þessi heimild og skyldan til að greiða tekjutrygginguna. Ég reikna fastlega með því að enginn af þeim sem hér hefur talað af hálfu stjórnarandstöðunnar ætlist til þess að þetta ákvæði falli niður. Það ætlast enginn til þess. Ég ætla ekki stjórnarndstöðunni það að vilja fella þetta niður. Það verður þá að setja inn ákvæði í staðinn fyrir það og það kallar á lagasetningu. Það fer því ekki á milli mála, herra forseti, að sú skýra niðurstaða hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar, að 5. mgr. 17. gr. laganna sé úr gildi fallin með hæstaréttardómnum kallar öllu öðru fremur á lagasetningu. Um það hljótum við að sameinast á þinginu. Það er eðlilegt að bregðast við því á þinginu með því að setja lög um þetta atriði. Dómurinn kallar beinlínis á það. Hann kallar alveg sérstaklega á það ef þessi túlkun hv. þm. Lúðvík Bergvinssonar er rétt.

Ég held að við getum sagt sem svo: Hafi nauðsyn þess að setja lög verið augljós í augum stjórnarþingmannanna, þá ætti hún einnig að vera ljós í augum stjórnarandstöðunnar.