Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 22:11:51 (3821)

2001-01-17 22:11:51# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[22:11]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður er með útúrsnúninga. Ég vitnaði í álit minni hlutans til að leggja áherslu á að minni hlutinn og meiri hlutinn væru sammála um að það væri löggjafans að ákveða innihald og meðferð þess hvernig slík mörk væru sett. Báðir aðilar leggja áherslu á að dómstólarnir geti lagt mat á það hvort stjórnarskrárákvæðin séu virt eða ekki með þeim hætti sem þetta er gert. Það er ekki dómstólanna að ákveða hver þessi mörk eru. Hvorugur aðilinn hefur treyst sér til þess, hvorki meiri hluti né minni hluti, að segja nákvæmlega hvar mörkin liggja.