Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 22:12:48 (3822)

2001-01-17 22:12:48# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[22:12]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Í reifun sinni rétt áður en kemur að dómsorðinu sjálfu segir meiri hluti Hæstréttar:

,,Svo sem áður greinir verður að telja að í 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar felist ákveðin lágmarksréttindi, sem miðuð séu við einstakling. Þrátt fyrir svigrúm almenna löggjafans til mats á því, hvernig þessi lágmarksréttindi skuli ákvörðuð, geta dómstólar ekki vikið sér undan því að taka afstöðu til þess, hvort það mat samrýmist grundvallarreglum stjórnarskrárinnar.``

Ég tel ekki réttlætanlegt að halda því fram, þegar þessir textar eru bornir saman, rökstuðningurinn í síðari hluta reifunarinnar annars vegar og umfjöllun minni hlutans hins vegar, að þessir tveir aðilar séu sammála. Þeir eru það ekki enda komust þeir að ólíkri niðurstöðu. Meiri hlutinn túlkar hlutverk dómstólanna í þessu samhengi með víðtækari hætti og kemst að ólíkri niðurstöðu. Í raun er það í skjóli hinnar þröngu túlkunar sem minni hlutinn fellir úrskurð ríkisstjórninni í hag.