Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 22:14:05 (3823)

2001-01-17 22:14:05# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[22:14]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Herra forseti. Þetta er veikur málflutningur hjá hv. síðasta ræðumanni, Steingrími J. Sigfússyni. Meiri hlutinn kemst að þeirri niðurstöðu að lágmarksréttindin sem tryggð eru samræmist ekki stjórnarskránni, séu of lág. Það er meginniðurstaðan en hver mörkin eru segir dómstóllinn ekki. Það er meginmálið. Dómstóllinn er að því leyti samkvæmur áliti minni hlutans. Hann telur það ekki sitt hlutverk að segja hver þessi mörk séu. Dettur mönnum virkilega í hug að ef dómstóllinn hefði ætlað að ákveða mörkin þá segði hann það ekki skýrt og skorinort?