Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 22:19:23 (3828)

2001-01-17 22:19:23# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[22:19]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að leyfa mér að skjóta mér á bak við Hæstarétt Íslands og leggja til að ríkisstjórnin virði niðurstöður Hæstaréttar Íslands. Ef við ætlum að virða niðurstöðu hans að vettugi, þá erum við að vega að rótum réttarríkis í landinu. Hv. þm. Tómas Ingi Olrich fór með dómsorð Hæstaréttar. Það er mjög skýrt og afdráttarlaust um bann við því að skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega með tilliti til tekna maka hans.

Nú er það svo að þessi tekjutrygging nemur 32.566 kr. Ríkisstjórnin telur sig geta komist upp með að skerða þá upphæð, lækka hana niður í 25 þús. kr. Og hv. þm. Tómas Ingi Olrich talar fyrir því pólitíska mati.

Ég vil inna hv. þm. nánari skýringa. Eru þar efnahagsleg rök sem liggja til grundvallar? Eða telur hann þá upphæð sem öryrkjanum er skömmtuð nægilega? Er það pólitísk afstaða Sjálfstfl.? (Forseti hringir.)

(Forseti (ÍGP): Enn áminni ég hv. þm. og aðra þingmenn að virða þau tímamörk sem sett eru.)