Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 22:28:31 (3836)

2001-01-17 22:28:31# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[22:28]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Þing er kallað saman eftir jólafrí, viku fyrr en áætlað var, til að afgreiða frv. til laga um breyting á lögum um almannatryggingar, nr. 117/1993, með síðari breytingum, sem svar hæstv. ríkisstjórnar við dómi Hæstaréttar í máli nr. 125/2000, um málefni öryrkja.

Eins og ljóst hefur verið eftir allar umræðurnar í dag og þær miklu fréttir sem hafa verið af málinu frá því dómurinn var kveðinn upp brást ríkisstjórnin svo við að skipaður var sérstakur starfshópur undir forustu hæstv. forsrh. til að greina sem nákvæmast hvaða leiðir séu færar til að bregðast við dómi Hæstaréttar. Það þótti sem sé ekki ljóst eins og hér hefur margoft komið fram hvernig ætti að bregðast við.

En hv. Alþingi Íslendinga er kallað saman til þess að lögfesta brot á stjórnarskrá lýðveldisins. Alþingi er kallað saman til að staðfesta brot á mannréttindum og til að uppfylla ekki niðurstöður Hæstaréttar hvað varðar réttindi takmarkaðs hóps öryrkja.

[22:30]

Ekki þarf að setja lög til að uppfylla dóminn og greiða út 1. janúar. Með dóminum eru í raun skerðingarákvæði 5., 6. og 7 mgr. 17. gr. felld út. Því vil ég koma að því sem hv. þm. Tómas Ingi Olrich óskaði eftir rétt áðan að því hefði ekki verið lýst hvernig bregðast hefði mátt við þessu án þess að setja skerðingarlög. Það hefði mátt og í raun og veru gerði dómurinn það, hann felldi úr gildi skerðingarákvæði þessara þriggja málsgreina. Í 5. mgr. 17. gr. hefði fallið út og er fallið út með dómi Hættaréttar þetta ákvæði: ,,Hafi hjón hins vegar tekjur umfram 1.086.048 kr. á ári skal skerða tekjutrygginguna um 45% þeirra tekna sem umfram eru.`` Þetta er fallið út og ekkert annað. Hitt stendur. Til þess að koma á áframhaldandi skerðingarákvæðum erum við með frv. til laga um breyting á lögum um almannatryggingar.

Dómur Hæstaréttar er tímamótadómur því með honum er farið út fyrir þrengstu lagatúlkun í íslenskri löggjöf og einnig dæmt út frá anda stjórnarskrárinnar og alþjóðlegum samningum sem við eigum aðild að. Sömuleiðis er litið til þeirrar þróunar sem er hjá alþjóðlegum dómstólum. Ég mun ekki fara sérstaklega yfir dóminn, það hefur hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir gert mjög vel í ræðu fyrir skömmu.

En Öryrkjabandalagið hefur gert athugasemdir og staðið í málarekstri vegna skerðingar á greiðslum til öryrkja í hjúskap. Fyrst á þeirri forsendu að skerðingin sem sett var í reglugerð 1. jan. 1994 ætti sér ekki stoð í lögum. Síðar, þegar búið var að lögfesta skerðinguna af ótta við málssókn Öryrkjabandalagsins, var látið á það reyna fyrir dómstólum hvort heimilt væri að mismuna fólki eftir því hvort það væri í hjúskap eða ekki með þeim hætti sem búið var að lögfesta.

Dómi héraðsdóms var áfrýjað til Hæstaréttar og hann birti niðurstöður sínar 19. desember sl. eins og hefur margoft komið fram. Niðurstöður dómsins eru skýrar. Það er óheimilt að mismuna fólki eftir hjúskaparstöðu og því voru viðbrögð forstöðumanns Tryggingastofnunar ríkisins eðlileg þegar hann lýsti því yfir strax eftir dómsúrskurðinn að ekkert væri því til fyrirstöðu að greiða þeim hópi öryrkja sem dómurinn fjallaði um óskertar bætur strax 1. janúar, þ.e. sama grunnlífeyri og tekjutryggingu og þeim sem eru ekki í sambúð. Að sjálfsögðu er átt við að óheimilt sé að skerða tekjutryggingu einstaklings, svo það sé alveg skýrt.

Forstöðumaður Tryggingastofnunar ríkisins, eins og fleiri, taldi að skerðingarákvæði í 5. mgr. 17. gr. væri fallið úr gildi og að ekkert væri því til fyrirstöðu að greiða þessar bætur, 51 þús. kr., út 1. janúar til þeirra sem féllu undir 5. mgr. en af skiljanlegum ástæðum þyrfti lengri tíma og að settum reglum að greiða til baka vangoldnar bætur.

Herra forseti. Það er ekki hlutverk okkar að fjalla um skerðingarákvæði vegna lífeyris fámenns hóps öryrkja. Búið er að dæma þá gjörð sem brot á stjórnarskrá landsins. En það er alvarlegt fordæmi að fara ekki að dómi Hæstaréttar þrátt fyrir það að hann gangi gegn prinsippákvæðum stjórnarflokkanna. Við ættum frekar að takast á um hvernig eigi að bæta öryrkjum þá skerðingu sem þeir urðu fyrir þau ár sem skerðingarákvæðin giltu, þ.e. á hvaða vöxtum og hvernig eigi að greiða.

Í mínum huga er alveg skýrt að hér er um mannréttindabrot að ræða. Réttindabrot sem búið er að benda á og reynt að fá leiðrétt í sjö ár, eða frá því að skerðingin var sett án lagastoðar. Því gilda ekki þær fyrningarreglur sem settar eru í tryggingalöggjöfinni, né heldur í lögum nr. 14/1905, um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda, þar sem er að finna ákvæði um kröfur þar sem gjaldkræfur lífeyrir fyrnist á fjórum árum. Hér gilda því 10 ára fyrningarreglur vegna réttindabrota, eftir væri þá að ákveða vexti þau sjö ár sem skerðingin hefur viðgengist.

Í upphafi mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna frá 1948 segir að það beri að viðurkenna að hver maður sé jafnborinn til virðingar og réttinda er eigi verði af honum tekin og er þetta undirstaða frelsis, jafnréttis og friðar í heiminum. Dómur Hæstaréttar frá 19. desember fjallaði einmitt um þessi atriði, þ.e. virðingu, frelsi og jafnrétti.

Samkvæmt reglum Tryggingastofnunar ríkisins hefur greiðslu til öryrkja, sem eru ekki í sambúð og hafa litlar tekjur, verið skipt í örorkugrunnlífeyri, tekjutryggingu og heimilisuppbót og sérstaka heimilisuppbót. Samtals gerðu þetta 1. janúar 73.546 kr. Þessar bætur fær sá öryrki sem býr einn en um leið og hann fer í sambúð missir hann heimilisuppbótina og sérstöku heimilisuppbótina sem er í krónum talið 22.556 og jafngildir því að hann missir yfir 30% af tekjum sínum. Heimilisuppbót og sérstök heimilisuppbót er viðurkenning á því að það sé á margan hátt kostnaðarsamara að búa einn en í sambúð. Með þessum greiðslum er því verið að jafna kjör öryrkja eftir hjúskaparstétt eða tekið tillit til hjúskaparstéttar.

Vissulega er þetta mikil skerðing sem verður við það eingöngu að stofnað er til sambúðar. Um þennan mismun, þó mikill sé, hefur aldrei verið deilt enda gerði Öryrkjabandalagið ekki tilkall til þess. Þessi skerðing er viðurkenning á því að tekið sé tillit til hagræðingar á því að reka heimili í sambúð. Kröfur Öryrkjabandalagsins voru um afnám tekjutengdrar tekjutryggingar við tekjur maka og að fá endurgreiðslur vegna vangreiddra bóta frá þeim tíma sem tekjuskerðingin var sett á án heimildar í lögum eða frá 1994.

Öryrkjabandalagið, stjórnarandstaðan og þeir sem túlka dóm Hæstaréttar eins og við höfum gert í dag, þ.e. að þessi tiltekni hópur, öryrkjar í sambúð, skuli fá óskerta tekjutryggingu að upphæð 51 þús. kr. eins og þeir sem búa einir, hafa aldrei haldið fram að þetta ætti við aðra hópa, að það væru önnur réttindi eða aðrar bætur sem verið væri að færa öryrkjum heldur eingöngu þessi réttindi til þessa takmarkaða hóps. Hafi aðrir skilið það svo að verið væri að gefa öðrum öryrkjum væntingar um bætur á þessu stigi hefur það verið misskilningur og vonandi öllum ljóst um hvað málið snýst. Málið í heild snýst um dóm Hæstaréttar sem tekur á takmörkun réttinda takmarkaðs hóps.

Í dómnum kemur fram að einstaklingur í hjúskap eða sambúð þurfi minna sér til framfærslu en sá sem býr einn, eins og ég sagði hér áðan, og því getur það átt við málefnaleg rök að styðjast að gera nokkurn mun á greiðslum úr opinberum sjóðum eftir því hvort viðkomandi er í sambúð eða ekki. Þeir sem hamra á þessu eina atriði í dómsforsendum gæta sín vandlega á því að þegja um þá staðreynd að áður en til hinnar ólögmætu skerðingar kemur er búið að svipta menn rétti til heimilisuppbótar og sérstakrar heimilisuppbótar, samtals 22 þús. kr., sem er mjög há skerðing.

Athyglisvert er að þeir sem reyna að vísa til þessarar einu setningar segja ekki aðeins um þessar 22 þús. kr., heldur einnig um þær setningar sem á undan fara, en þær eru svohljóðandi:

,,Tekjur maka skipta ekki máli við greiðslu til dæmis slysatrygginga, sjúkratrygginga, atvinnuleysistrygginga og fæðingarstyrks. Verður að telja það aðalreglu íslensks réttar að réttur einstaklinga til greiðslna úr opinberum sjóðum skuli vera án tillits til tekna maka. Er það í samræmi við þá stefnumörkun sem liggur að baki íslenskri löggjöf um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 28/1991, sbr. og 2. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar.``

Þetta hefur margoft komið fram í dag. En það er eins og stöðugt sé hægt að snúa út úr þessu og skrumskæla á allan hátt. Ég held að það sé ekki spurning um lagalega túlkun, þetta er spurning um pólitíska lagakróka.

En með breytingu sem gerð var á stjórnarskránni 1995 var horfið frá ómagaframfærslu bændasamfélagsins og samkvæmt jafnréttisákvæðinu í stjórnarskránni er óheimilt að mismuna fólki vegna hjúskaparstöðu og einnig vegna kynferðis. Þarna finnum við þessa upphæð, 51 þús. kr. Sú upphæð hefur verið ákveðin á Alþingi, hún er okkar gjörð, en við þá gjörð er miðað þegar greiða á öryrkjum í sambúð tryggingu sína. Þarna er viðmiðunin og hvergi annars staðar. Mér finnst þessar greiðslur allt of lágar en það er sú jafnræðisregla sem verið er að vísa til og eftir því eigum við að fara. Okkur er heimilt að hækka þessa greiðslu eða hækka frítekjumarkið, það er réttur okkar, en við megum ekki fara neðar en þetta.

Það fyrirkomulag sem í gildi hefur verið varðandi tekjutengingu bóta við tekjur maka er fjölskyldufjandsamlegt og hefur eitt og sér orðið til þess að öryrkjar hafa síður stofnað til hjúskapar eða sambúðar. Ákvæðið dregur úr sjálfsvirðingu öryrkja, þ.e. að geta ekki framfleytt sér óháð öðrum og veitt sér það sem hann annars hefði gert með óskertum örorkubótum. Ljóst er að kostnaður vegna daglegs lífs er meiri hjá fötluðum en ófötluðum og auk þess er vinnuframlag þeirra takmarkað bæði inni á heimili og á vinnumarkaði. Ákvæðið er enn fremur kvenfjandsamlegt þar sem það bitnar miklu oftar á konum en körlum. Það er niðurlægjandi og brýtur fólk niður að vera byrði á öðrum og því þarf að styrkja stöðu sambúðarfólks þar sem annar aðilinn eða báðir eru fatlaðir og til móts við þann aukna kostnað sem fötlunin veldur.

Þetta á við um alla þá sem eru fatlaðir. Það verður að styrkja fjárhagslega stöðu þeirra svo þeir geti lifað mannsæmandi lífi. Það er stefna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs að bæta stöðu lífeyrisþega, öryrkja sem ellilífeyrisþega og annarra, og það er stefna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs að jafna kjör fólks í landinu. Það er svo annað mál sem við þurfum að taka upp aftur, það fellur ekki undir það mál sem við erum að ræða núna. Við gerðum það þegar við vorum að afgreiða fjárlögin, þá komum við með fjöldann allan af tillögum til að bæta kjör öryrkja en allar þær tillögur voru felldar. Eins liggja hér fyrir og hafa legið fyrir þinginu fjölmargar þáltill. og tillögur til bóta fyrir öryrkja en hafa ekki fengið neinar undirtektir.

En það er réttindamál sem gleður mig náttúrlega að heyra að stjórnarliðar séu nú tilbúnir til að vinda sér í, enda hafa þeir sett kraft í þá nefnd sem er hefur verið lömuð til margra ára, að endurskoða almannatryggingalöggjöfina og vonandi að sú vinna skili sér og skili sér vel, því þar er verið að leita eftir samvinnu og samstöðu með þeim sem er m.a. verið að brjóta hér á. Ég ætla því að vona að kúvending verði á vinnubrögðum stjórnarliðanna varðandi samstarf við þá sem hún er svo að biðja um gott veður hjá en ekki er hægt að segja að það samstarf hafi verið fyrir hendi við undirbúning að þeirri löggjöf sem hér á að fara að taka fyrir og sem við erum að ræða um.

Málaferlin og dómur Hæstaréttar í máli Öryrkjabandalagsins fjallaði ekki um stærsta hóp öryrkja og kjör þeirra, heldur eingöngu um takmörkuð réttindi afmarkaðs hóps öryrkja í sambúð, hóps sem hefur verið mismunað og með óréttlæti og því ber að fagna réttlátum dómi og fara eftir honum.

Herra forseti. Hæstiréttur hefur lokaorðið í þessu máli. Hann hefur kveðið upp dóm sinn og eftir honum ber okkur að fara, ekki að hafa hann til hliðsjónar og fara svolítið eftir honum, ekki að gera lítið úr honum með því að vísa til þess að hann hafi ekki verið einróma --- einungis þrír af fimm dómurum hafi dæmt á þennan veg --- ekki með því að nota rök þeirra tveggja dómara sem skiluðu séráliti til að vísa ríkisstjórninni veginn til þess að komast hjá því að uppfylla dóm Hæstaréttar, ekki með því að gera lítið úr dómi Hæstaréttar með því að vísa til þess að hann hafi ekki verið fullskipaður sjö dómurum, og boða svo lagabreytingar um störf Hæstaréttar. En hæstv. forsrh. sagði fyrr í dag að ef þessu máli eða þessum lögum yrði vísað til dómstóla mundi fullskipaður hæstaréttardómur fjalla um það mál. Vissulega fjallar dómurinn um stjórnarskrána og því hefði verið æskilegra að dómararnir hefðu verið fleiri en þeir voru fimm, það var meiri hluti og við tölum um niðurstöðu dómsins en ekki um minni og meiri hluta í þessu sambandi.