Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 22:53:19 (3839)

2001-01-17 22:53:19# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[22:53]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég vil gjarnan biðja hv. þm. um að næst þegar hún kemur með stórasannleik og fullyrðir að hv. Alþingi sé kallað saman til að staðfesta brot á stjórnarskránni, að bæta við ,,að mínu mati`` þó ekki væri annað. Þetta er nefnilega ekki sannleikur. Þetta er bara mat hv. þm.

Varðandi jöfnun kjara í landinu. Ég skil þetta ekki. Núna á að láta hátekjufjölskyldur fá á silfurfati 900 þús. kr. eftir skatt. Vinstri grænir vilja ganga enn þá lengra, borga sjö ár aftur í tímann. Þá færi þessi upphæð sennilega upp í 1,5 millj., jeppaverð eða ja, kannski ekki gott jeppaverð. Ég þekki ekki verðið á þeim. En ég skil ekki þetta jafnrétti. Ég bara get ekki skilið það. Ég get ekki skilið að það sé jöfnun á kjörum þegar öryrki, einstaklingur eins og hv. þm. gat um, með 75 þús. kr. á mánuði, fær ekki neitt. En öryrki sem býr með sjómanninum eða skipstjóranum eða lækninum eða hvað það nú er og nýtur þeirra háu eigna og tekna sem makinn hefur, á að fá á silfurfati 800--900 þús. kr. Ég skil ekki þá jöfnun kjara sem vinstri grænir eru að berjast fyrir.