Almannatryggingar

Miðvikudaginn 17. janúar 2001, kl. 23:25:24 (3847)

2001-01-17 23:25:24# 126. lþ. 60.7 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur, 126. lþ.

[23:25]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Það er sennilega rétt að misskilningur sé algengasti skilningurinn sem notaður er og ég hygg að þannig sé stjórnarliðum farið í þessu máli að þeir byggi skoðun sína á þessum algenga misskilningi sem svo margir eru haldnir. Það er sennilega algengasti skilningurinn í landinu að styðjast við og nota misskilning.

Mér finnst að menn eigi að fara að hæstaréttardómi þegar hann er byggður á tivitnun í stjórnarskrá, sama hvort mér líki þeir dómar vel eða illa. Þannig lít ég á þetta mál. Og ef það er misskilningur hjá mér að áliti hæstv. utanrrh. þá verður svo að vera. En ég ætla að leyfa mér að hafa þann skilning (Gripið fram í: Misskilning?) líka þó hann sé skilinn sem misskilningur. Ef skilningur minn er túlkaður sem misskilningur af hæstv. utanrrh. þá verður bara við svo að búa.